Kristrún Frostadóttir, sem sækist eftir formennsku í Samfylkingunni, segir raunveruleikann vera þann að það sé ekki meirihluti á þingi fyrir því að samþykkja nýju stjórnarskránna. Hún segist hafa verið alveg hreinskilin með það að hún vilji ekki fara í vegferð á næsta kjörtímabili sem hún sjái ekki fram á að geta skilað í höfn. Þetta kemur fram í ítarlegu viðtali við Kristrúnu sem birtist í Kjarnanum í gær.
Í stefnu Samfylkingarinnar er tekið fram að flokkurinn vilji að Alþingi samþykki breytingar á stjórnarskrá sem byggjast á tillögum stjórnlagaráðs og þeim þjóðarvilja sem kom fram í þjóðaratkvæðagreiðslunni þann 20. október 2012.
Kristrún segir að það hafi líka verið skiptar skoðanir um hvaða hluta stjórnarskrárinnar það eigi að endurskoða. „Ég vil að við leggjum áherslu á mál sem við vitum að við getum skilað af okkur.
Það þýðir ekki að það sé ekki ákveðin réttlætisákvæði þarna sem á að tala fyrir og að það eigi að koma málinu í einhverskonar farveg. En ég vil ekki senda þau skilaboð út til almennings að við getum ekki komist áfram í kjarna-velferðarmálum nema að við fáum nýja stjórnarskrá. Ég vil ekki stunda þannig pólitík að við séum að bíða eftir einni lausn sem muni laga allt annað. Það þýðir ekki að allt sé sett til hliðar, heldur hvar stóru áherslurnar eiga að liggja og hvert beina eigi orkunni. Þetta er þekkt fyrirbæri úr pólitík og lífinu að manni hættir til að færast of mikið í fang. Og þá komum við allt of litlu í verk.“
Engar breytingar áratug síðar
Nýja stjórnarskráin er orðin næstum áratugagömul. Saga hennar hófst haustið 2009 og henni átti að ljúka í október 2012, með ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu. Þannig fór þó ekki.
Þótt niðurstaða atkvæðagreiðslunnar hafi sú að 64,2 prósent þeirra sem tóku þátt hafi sagt já við því að tillögur svokallaðs stjórnlagaráðs yrðu lagðar til grundvallar að frumvarpi að nýrri stjórnarskrá þá er stjórnarskráin enn alveg eins og hún var þennan dag í október 2012.
Sumarið 2020 réðust Samtök kvenna um nýja stjórnarskrá, í samvinnu við Stjórnarskrárfélag Íslands, í það verkefni að safna undirskriftum til að hvetja Alþingi til að klára samþykkt nýju stjórnarskrárinnar.
Markmiðið var að safna að minnsta kostið 25 þúsund undirskriftum. Þegar undirskriftirnar voru afhentar Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra og öðrum fulltrúum stjórnmálaflokka þann 20. október 2020, þegar átta ár voru liðin upp á dag frá því að þjóðaratkvæðagreiðslan hafði farið fram, höfðu 43.423 skrifað undir. Verkefnið hafði skilað því að Samtökum kvenna um nýja stjórnarskrá tókst að ná í 74 prósent fleiri undirskriftir en upphaflega var stefnt að.
Meirihluti fylgjandi en lítill áhugi í aðdraganda kosninga
Í könnun Maskínu sem gerð var í október 2020 kom fram að rúmlega helmingur landsmanna, eða 53,5 prósent, var hlynntur því að „nýja stjórnarskráin“ sem Stjórnlagaráð lagði fram verði lögð til grundvallar nýrri stjórnarskrá Íslands, en 21,3 prósent voru því andvíg.
Rúmur fjórðungur aðspurðra, eða 25,2 prósent, tók ekki afstöðu í aðra hvora áttina. Fram kom í umfjöllun á vef Maskínu að marktækt hærra hlutfall kvenna en karla hafi verið hlynnt, en þó meirihluti beggja kynja.
Andstaða við að tillögur Stjórnlagaráðs yrðu lagðar til grundvallar nýrri stjórnarskrá lýðveldisins óx með eftir því sem heimilistekjur svarenda hækkuðu. Um 65 prósent þeirra sem höfðu lægstar tekjur sögðust hlynnt, en einungis 43-44 prósent þeirra sem höfðu milljón eða meira í heimilistekjur. Það var eini tekjuhópurinn þar sem ekki var meirihluti hlynntur.
Í þeirri könnun sögðust um 85-88 prósent kjósenda Pírata og Samfylkingar vera hlynnt nýju stjórnarskránni.
Skömmu áður hafði MMR, sem nú er hluti af Prósent, gert könnun þar sem spurt var um mikilvægi þess að fá nýja stjórnarskrá. Í þeirri könnun kom fram að tæplega 60 prósent landsmanna töldu það mikilvægt að Íslendingar myndu nýja stjórnarskrá á síðasta kjörtímabili, en 25 prósent landsmanna töldu það lítilvægt.
Þegar leið að síðustu kosningum voru stjórnarskrármál þó ekki ofarlega í huga kjósenda. Einungis 9,8 prósent kjósenda nefndu þau á meðal mikilvægustu kosningamála í könnun Maskínu á meðan að tæplega 68 prósent svarenda sögðu heilbrigðismál vera meðal stærstu kosningamála fyrir síðustu kosningar. Næst á eftir komu umhverfis- og loftslagsmál en rúmlega 41 prósent svarenda sögðu þau vera meðal stærstu kosningamálanna.