Kristrún Frostadóttir, sem býður sig fram til að verða formaður Samfylkingarinnar, segir að stefna flokksins hvað varðar aðild að Evrópusambandinu (ESB) sé alveg skýr og verði það áfram. „Við höfum verið fylgjandi Evrópusambandsaðild. Ég er sjálf stuðningsmaður Evrópusambandsins. Ég er hins vegar líka meðvituð um það að eins og er þá er ekki þingmeirihluti fyrir málinu þótt kannanir séu að fara upp á við varðandi viðhorf þjóðarinnar gagnvart aðild. Fyrsta skrefið fyrir mér er að spyrja þjóðina hvort við eigum að fara í þetta verkefni. Leggja aðildarviðræður í þjóðaratkvæðagreiðslu og taka svo stöðuna í kjölfarið.“
Þetta er meðal þess sem fram kemur í ítarlegu viðtali við Kristrúnu við Kjarnann sem birtist á laugardag.
Þar segir Kristrún að það umboð sem hún sé að reyna að sækja sér sem formaður feli í sér að flokkurinn verði að passa að færast ekki of mikið í fang. „Ég vil ekki að fólkið í landinu haldi að við getum ekki fjármagnað heilbrigðiskerfið, komið skikk á húsnæðismál og önnur mikilvæg velferðarmál án þess að ganga í Evrópusambandið eða að innganga sé eina lausnin á þeim málum. Ég vil að fólk með jafnaðarmannataug geti kosið Samfylkinguna þótt það sé tortryggið gagnvart aðild að Evrópusambandinu. Það á ekki að koma í veg fyrir að við getum fjármagnað velferðarkerfin og brotið upp þessa pattstöðu sem er til staðar.“
Meirihluti hlynntur aðild samkvæmt könnunum
Innganga Íslands í Evrópusambandið hefur verið á meðal stærstu stefnumála Samfylkingarinnar um árabil. Sótt var um aðild að sambandinu í tíð fyrstu hreinu tveggja flokka vinstristjórnarinnar árið 2009 en ekki tókst að klára þær viðræður áður en kosið var næst, enda hvorki meirihluti fyrir aðild innan þings né innan ríkisstjórnar á þeim tíma.
Kannanir sem gerðar hafa verið í ár sýna að viðsnúningur hefur orðið hjá þjóðinni í afstöðu til þess, en í Þjóðarpúlsi Gallup sem birtist í mars voru 47 prósent hlynntir inngöngu á meðan að 33 prósent voru á móti. Það var í fyrsta sinn sem mælst hafði meirihluti fyrir aðild að Evrópusambandinu í könnunum fyrirtækisins frá árinu 2009. Könnun sem Prósent gerði í júní sýndi mjög svipaða niðurstöðu.