Mjólkurbúið KÚ mótmælir harðlega ákvörðun verðlagsnefndar búvara um hækkun á ógerilsneiddri hrámjólk til úrvinnslu og segir að smærri úrvinnsluaðilar þurfi nú að greiða 17,44 prósent samkeppnisskatt til Mjólkursamsölunnar (MS) ofan á mjólkurverð. Í fréttatilkynningu frá KÚ er einhliða ákvörðun verðlagsnefndar sögð óeðlileg. Verð á ógerilsneiddri hrámjólk til úrvinnslu hækki um 4 prósent á sama tíma og hækkun á afurðaverði til bænda hækki aðeins um 1,47 krónur eða 1,77 prósent. „Þessari hækkun er stefnt gegn samkeppni á mjólkurvörumarkaði og mun valda smærri fyrirtækjum sem starfa á þessum markaði fjárhagslegu tjóni. Ákvörðun er með öllu óskiljanleg þar sem mjólkurverð hækkar aðeins um 1,47 krónur eða 1,77% til bænda og engin hækkun hefur orðið á flutningskostnaði sem er eftir sem áður 3,5 krónur á hvern ltr. Þannig er samkeppnisaðilum MS ætlað að greiða niður rekstur MS enn frekar með tilheyrandi skaða fyrir neytendur. Samkeppnisaðilar MS greiða því 17,44% hærra hráefnisverð en MS sem er ólíðandi,“ segir í tilkynningunni en í henni er verðlagsnefnd búvara kölluð „verðlagsnefnd MS“.
Ólafur M. Magnússon, eigandi KÚ mjólkurbús, sendir fjölmiðlum í dag yfirlýsingu þar sem meðal annars segir að KÚ muni kæra ákvörðun verðlagsnefndarinnar til Samkeppniseftirlitsins, þar sem hún gangi freklega gegn samkeppni á mjólkurvörumarkaði og sé brot á samkeppnislögum er varða markaðsmisnotkun. „Hagsmunir neytenda eru með öllu bornir fyrir róða með þessari ákvörðun ekki síst þar sem mjólkurframleiðsla á Íslandi býr jafnframt við mikla tollvernd. Verðlagsnefnd „Mjólkursamsölunnar“ stefnir því leynt og ljóst að því tryggja að nýir aðilar geta ekki með nokkru móti keppt við MS vegna ofur „skattlagningar“ á hráefnið. Þessi framganga er sérstaklega ámælisverð þar sem MS hefur komið sér hjá því að taka ábyrgð á langvarandi og ítrekuðum brotum á Samkeppnislögum með lagatæknilegum klækjum og útúrsnúningum. Með þessari ákvörðun er ljóst að Mjólkursamsalan er í þeirri sérstöðu að geta lagt íþyngjandi skatt á samkeppnisaðila sína og nýtur til þess blessunar stjórnvalda,“ segir Ólafur í fréttatilkynningunni.
„Stjórnvöld hafa svo bitið hausinn af skömminni með því að fjársvelta Samkeppniseftirlitið og fleiri eftirlitstofnanir með þeim afleiðingum að þau geta illa eða mjög seint sinnt hlutverki sínu og lokið málum. Þannig taki afgreiðsla kærumála lengri tíma en eðlilegt getur talist sem bitnar á hagsmunum neytenda og almennings. Nú er því brýna en nokkru sinni fyrr að niðurstöður fáist í margra ára kærumál sem eru til meðferðar hjá Samkeppniseftirlitinu og snúa að alvarlegum og ítrekuðum brotum Mjólkursamsölunnar á samkeppnislögum.“
Vísað er til nýlegrar skýrslu Hagfræðistofnunar þar sem lagt er til að mjólkurframleiðslukerfi á Íslandi verði gjörbylt. „Er það ekki síst brýnt í ljósi nýlegar skýrslu Hagfræðistofnun Háskóla Íslands sem hefur tekið mjög afdráttarlaust undir gagnrýni og ábendingar Samkeppniseftirlitsins um samkeppnishömlur í mjólkuriðnaði og landbúnaði hér á landi,“ segir Ólafur.
Leggja til miklar breytingar
Fjallað var um skýrslu Hagfræðistofnunar á Kjarnanum í síðasta mánuði. Lagðar eru til miklar breytingar á mjólkurframleiðslukerfinu á Íslandi en fram kom í skýrslunni að í dag þurfa ríkið og eigendur þess, íslenskir neytendur, að borga um átta milljörðum krónum meira fyrir framleiðslu á henni en ef mjólkin hefði einfaldlega verið flutt inn frá öðru framleiðslulandi á árunum 2011 til 2013. Ríkið og neytendur borguðu 15,5 milljarða króna fyrir mjólkina á tímabilinu en innflutt mjólk, með flutningskostnaði, hefði kostað 7,5 milljarða króna.
Landssamband kúabænda og Bændasamtökum brugðust fljótt við skýrslunni og sögðu hugmyndir sem í henni er að finna kollvarpa núverandi fyrirkomulagi mjólkurframleiðslu. Í tilkynningu frá Landssambandi kúabænda og Bændasamtökunum segir að verð á mjólkurvörum hafi verið hagfelld neytendum, og því hefði átt að vera gert hærra undir höfði í skýrslu Hagfræðistofnunar