Hafliði Breiðfjörð, stofnandi og framkvæmdastjóri vefsins fotbolti.net, hefur sent kvörtun til umboðsmanns Alþingis vegna þess að fjölmiðlanefnd hefur ekki skráð hlaðvarp sitt sem fjölmiðil til fjölmiðlanefndar. Efni kvörtunarinnar er eftirfarandi: „Fjölmiðlanefnd sem hefur það hlutverk að hafa eftirlit með fjölmiðlum hefur stofnað sinn eigin fjölmiðil í hlaðvarpi sem er út fyrir hennar hlutverk. Nefndin hefur ekki sinnt skyldum sínum að skrá þann fjölmiðil hjá Fjölmiðlanefnd.“
Í rökstuðningi sem fylgir kvörtun Hafliða segir að fjölmiðlanefnd hafi í maí ráðið til starfa starfsmann sem komi úr fjölmiðlageiranum, starfsmann sem haldi úti hlaðvarpi í nafni nefndarinnar. „Með þessu er nefndin komin í samkeppni um efni við fjölmiðla sem hún á að veita eftirlit og þar með komin langt út fyrir sitt hlutverk,“ segir í kvörtun Hafliða sem Kjarninn hefur fengið afrit af.
Hafliði segir í kvörtun sinni að fjölmiðlanefnd hafi ekki fylgt sínum eigin skilaboðum um að slík hlaðvörp skuli vera skráð hjá nefndinni. „Ljóst er að starfsmaður sá er heldur úti hlaðvarpinu fyrir hönd Fjölmiðlanefndar hefur atvinnu hjá nefndinni og þar með er skýrt í reglum nefndarinnar að skrá skuli hlaðvarpið sem fjölmiðil á vef hennar. Ef nefndin hefði farið eftir eigin skilaboðum hvað þetta varðar þá hefði hún sett fordæmi og verið fyrsta hlaðvarpið á skrá hjá Fjölmiðlanefnd.“
Nýtt hlaðvarp fjölmiðlanefndar í loftið í gær
Fjölmiðlanefnd tilkynnti á vef sínum í síðari hluta maí að Skúli Bragi Geirdal hefði verið ráðinn sem verkefnastjóri hjá fjölmiðlanefnd. Skúli er fjölmiðlafræðingur að mennt en hann vann áður við dagskrárgerð hjá N4 á Akureyri. Í tilkynningunni sagði að Skúli myndi annast verkefni sem tengjast miðlalæsi og gerð nýrrar miðla- og upplýsingalæsisstefnu, ásamt framkvæmdaáætlun.
Í gær birtist svo frétt á vef fjölmiðlanefndar þar sem nýtt hlaðvarp nefndarinnar, Fjórða valdið, var kynnt til leiks. Í fyrsta þætti ræðir Skúli við Jón Gunnar Ólafsson, nýdoktor í stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands, en hann hefur rannsakað falsfréttir og upplýsingaóreiðu.
Nýja hlaðvarpið verður ekki skráð
Í samtali við Kjarnann segir Elfa Ýr Gylfadóttir, framkvæmdastjóri fjölmiðlanefndar, að ekki standi til að skrá hlaðvarpið sem fjölmiðil, enda sé hlaðvarpið ekki fjölmiðill. Hún vísar í þessu sambandi á leiðbeiningar um skráningu hlaðvarpa hjá fjölmiðlanefnd sem finna má á vef nefndarinnar. Þar kemur fram til hvaða þátta er horft þegar meta á hvort hlaðvarp skuli skráð sem fjölmiðill. Meðal þess sem horft er til er hvort að fjárhagslegur ávinningur sé af rekstri hlaðvarps og hvort hlaðvarpi sé miðlað í atvinnuskyni. Það sé ekki tilgangur hlaðvarps fjölmiðlanefndar, líkt og Elfa bendir á.
Þá skiptir máli hver miðli efni hlaðvarps en í leiðbeiningum segir að hlaðvörp ríkisstofnana og stéttarfélaga myndu til dæmis ekki teljast skráningarskyld en fjölmiðlanefnd er sjálfstæð stjórnsýslunefnd sem heyrir undir mennta- og menningarmálaráðherra. Elfa segir það sama gilda um hlaðvörp stofnana og vefi þeirra, þó svo að stofnanir og stéttarfélög haldi úti vefsíðum þar sem fréttum af starfi þeirra sé miðlað, þá séu vefirnir ekki skilgreindir sem fjölmiðlar.
Fjölmiðlanefnd hefur óskað eftir því að nokkur hlaðvörp skrái sig sem fjölmiðil hjá nefndinni, líkt og Kjarninn fjallaði um í nóvember í fyrra. Þá höfðu í það minnsta þrír stjórnendur íslenskra hlaðvarpsþátta fengið bréf frá nefndinni þar sem þess var óskað að hlaðvörpin skráðu sig formlega sem fjölmiðla. Þá, líkt og nú, var ekkert hlaðvarp á lista yfir fjölmiðla sem fjölmiðlanefnd heldur utan um.