Eldgos er hafið á Reykjanesskaga á ný. Kvika þrýstist nú upp á yfirborðið á sprungu sem staðsett er innan hraunsins sem rann í síðasta gosi.
Samkvæmt tilkynningu frá Veðurstofunni er gossprungan í vestanverðum Merardölum, um 1,5 kílómetra norður af Stóra-Hrút. Veðurstofan segir að miðað við vefmyndavélar hafi kvika fyrst brotið sér leið upp á yfirborð kl. 13:18. Gas berst frá jarðeldinum.
Almannavarnir biðja fólk um að fara með gát og forðast að vera á svæðinu, en vísindafólk er á leiðinni á staðinn með þyrlu Landhelgisgæslunnar til þess að leggja mat á stöðuna.
Mikil skjálftavirkni hefur verið í kringum Fagradalsfjall undanfarna daga og í morgun sagði Veðurstofan að um tíu þúsund jarðskjálftar hefðu mælst á svæðinu frá því á laugardag.
Glögglega má sjá hraun renna á vefmyndavélum sem Ríkisútvarpið og mbl.is halda úti á svæðinu.
Fyrra eldgosið í Geldingadölum hófst 19. mars í fyrra, eftir jarðskjálftahrinu sem staðið hafði í meira en þrjár vikur. Þá voru næstum 800 ár frá síðasta eldgosi á Reykjanesskaganum.
Hraunflæði frá gígnum í Geldingadölum hætti 18. september í fyrra, eftir að gosið hafði staðið í um hálft ár. Flatarmál hraunsins sem rann varð um 5 ferkílómetrar. Fyrra gosinu lauk formlega þann 18. desember 2021, en þá voru þrír mánuðir liðnir frá síðasta hraunflæði.