Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, spurði Bjarna Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, út í athugasemdir ráðuneytisins við frumvarp Lilju Alfreðsdóttur, menningar- og viðskiptaráðherra, í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í dag.
Í minnisblaði frá efnahags- og fjármálaráðuneytinu, sem fjallað var um á fundi atvinnuveganefndar í gær og Kjarninn hefur undir höndum, er það gagnrýnt að frumvarpið sé ófjármagnað og að skortur hafi verið á samráði við samningu þess. Í minnisblaðinu er bent á kostnaðaráhrif frumvarpsins, um ófjármagnað frumvarp sé að ræða og fjárheimildir séu því ekki til staðar til að næta þeim kostnaðarauka sem frumvarpið hefur í för með sér.
Lilja kynnti drög að endurskoðun laga um endurgreiðslur vegna vegna kvikmyndagerðar á Íslandi í byrjun maí en í því er lagt til að kvikmyndaverkefni sem uppfylla ákveðin skilyrði og teljast stærri verkefni og til lengri tíma njóti 35 prósent endurgreiðslu af framleiðslukostnaði í stað 25 prósent. Frumvarpið var afgreitt úr ríkisstjórn um miðjan maí. Í lok maí greindi Vísir frá því að næsta þáttaröð af True Detective verði tekin upp hér á landi. Verkefnið mun, að öllum líkindum, falla undir skilyrði frumvarpsins um hærra endurgreiðsluhlutfall.
Vanfjármagnað og „raunar ófjármagnað frumvarp“
Sigmundur Davíð spurði fjármála- og efnahagsráðherra út í minnisblað ráðuneytisins þar sem kemur meðal annars fram, að sögn Sigmundar, að málið sé vanfjármagnað og í raun ófjármagnað.
Sigmundur Davíð benti á að fjármála- og efnahagsráðuneytið hafi gert athugasemdir við að hafa aðeins fengið þrjá daga til að fara yfir frumvarpið og eins að starfshópur sem átti að vinna þetta frumvarp hafi ekki fengið að vinna það heldur hafi það bara verið klárað í menningar- og viðskiptaráðuneytinu.
„Því er jafnframt haldið fram að þetta mál hafi verið afgreitt úr ríkisstjórn,“ sagði Sigmundur Davíð, sem spurði Bjarna hvort ekki hafi verið gerðar athugasemdir við það á sínum tíma í ríkisstjórninni. Þá sagði hann það nokkuð óvenjulegt að mál að þessu tagi komi upp svona seint og að ráðuneytið telji sig þurfa að grípa inn í vegna stjórnarfrumvarps, sem hann telur að sé ekki annað að skilja en að hér sé um stjórnarfrumvarp að ræða.
Í engum vafa um að fjárlagaliðurinn er ófullnægjandi
Bjarni benti á að á undanförnum árum hafi verklagi við kosntaðarmat frumvarpa verið gjörbreytt og að nú beri fagráðuneytin sjálf alla ábyrgð á því að kostnaðarmeta mál sem fram hafa komið. Sú regla sé þó viðhöfð að fjármálaráðuneytið hafi að jafnaði tvær vikur til að fara yfir mat fagr´ðauneyta. Það hafi ekki tekist í tilviku kvikmyndafrumvarps Lilju. Bjarni sagði ráðuneytið samt sem áður hafa komið með ábendingar um að gjaldaliðurinn gerði ekki ráð fyrir útgjöldum sem myndi reyna á ef frumvarpið yrði samþykkt.
„Ekki var tekið tillit til þess í greinargerð með frumvarpinu eins og það fór í gegnum ríkisstjórnina. Þar vakti ég reyndar athygli á því,“ sagði Bjarni, sem sagði umræðuna í raun og veru snúast um hvort útgjaldaliðurinn, sem er vistaður í menningar- og viðskiptaráðuneytinu, hafi nægilegt svigrúm til að fullnægja þeirri þörf sem mun skapast verði frumvarpið samþykkt sem lög.
„Það er eina spurningin sem skiptir hér máli og fjármálaráðuneytið er bara að vekja athygli á því, er ekki með neinar efnislegar athugasemdir við það mál, að útstreymi til að endurgreiða kvikmyndaframleiðendum mun stöðvast á því að ekki verði fjárheimildir á fjárlagaliðnum. Mönnum kann að þykja þetta óeðlilegt en það getur auðvitað gerst að það komi upp ólík sjónarmið um það hvort fagráðuneytið eða fjármálaráðuneytið hafi rétt fyrir sér. Ég er reyndar í engum vafa um að fjárlagaliðurinn er ófullnægjandi,“ sagði fjármála- og efnahagsráðherra.
Sigmundur Davíð sagði að af orðum fjármálaráðherra að dæma sé frumvarpið „augljóslega gallað“.