Kynjakvóti í framkvæmdastjórnum skráðra félaga er meðal þeirra leiða sem hægt er að fara til þess að leiðrétta kynjahalla í ráðningum forstjóra í skráðum félögum á íslenskum markaði. Þetta segir Ásta Dís Óladóttir, dósent við viðskiptafræðideild Háskóla Íslands, í viðtali við Emil Dagsson í nýjasta þætti Ekon.
Ásta Dís hefur rannsakað ráðningarferli forstjóra í skráðum félögum og er ein meðhöfunda greinarinnar Forstjóraráðningar í þjóðhagslega mikilvægum fyrirtækjum: Kynjahalli, útilokun og ófagleg ráningarferli? Meðhöfubdar Ástu Dísar eru Þóra H Christiansen, Sigrún Gunnarsdóttir og Erla S. Kristjánsdóttir en greinin kom út í fyrra.
Að baki greinarinnar liggja viðtöl við helming þeirra kvenna sem áttu sæti í stjórnum skráðra félaga þegar rannsóknin fór fram en hópur viðmælenda telur 22 konur. Þegar rannsóknin fór fram voru forstjórar allra 19 fyrirtækjanna í kauphöllinni karlar. Síðan þá hefur ein kona bæst í hópinn, Birna Einarsdóttir sem er bankastjóri Íslandsbanka.
Að sögn Ástu Dísar var tilgangur rannsóknarinnar að tala við konur sem sitja í stjórnum og koma þar af leiðandi að ráðningarferli forstjóra og spyrja út í hver sýn þeirra væri á ferlið.
„Við erum að beina kastljósinu að konum sem sitja í stjórnum félaga og hver þeirra þáttur í ráðningaferlinu væri. Tæplega helmingur stjórnarmanna í dag eru konur, 46-48 prósent. Ég held að það fari hæst í 48 prósent stjórnarkvenna í skráðum félögum þegar kynjakvótalögin voru að fullu innleidd hér á landi. Það hefur aldrei verið hærra en það,“ segir Ásta Dís.
Spyr hvort ekki þurfi að auglýsa stöður lausar til umsóknar
Ein af þeim spurningum sem rannsakendur leituðu svara við var hvers vegna kvenkyns forstjórum hefði ekki fjölgað, þegar staðan væri sú að nærri helmingur fólks sem á sæti í stjórnum séu konur. Ráðgjafarfyrirtæki sem sjá að stórum hluta um ráðningarferli reyndust hafa þar mikil áhrif.
Frá ráðningarstofunum koma gjarnan úrtakslistum með mögulegum forstjóraefnum. Á þeim listum eru yfirleitt mun fleiri karlar en konur, að sögn Ástu Dísar. Ráðningarferlið sé líka oftast með svokölluðu „head-hunting“ sniði sem ráðningarstofur stýra enda stöðurnar ekki auglýstar.
„Það þyrfti að skoða það að auglýsa stöður. Konur vilja frekar bíða, þær vilja vera í þessum ramma, þær vilja sjá auglýsinguna og þær vilja máta sig við auglýsingu. Karlarnir taka aftur á móti upp símann og segja “Hey, ég hef áhuga á þessari stöðu, ég vil vera í þessu úrtaki”,“ segir Ásta Dís.
Því séu færri konur á áðurnefndum listum sem koma frá ráðningarstofunum og því minna úr að velja í ráðningarferlinu. „Ætti að vera skylda að auglýsa þessar stöður? Viljum við horfa frekar til opinbera geirans þar sem er skylda að auglýsa þessar stöður?“ spyr Ásta Dís.
Arftakastjórnun og áhrif stórra fjárfesta
Önnur aðferð sem Ásta Dís nefnir er svokölluð arftakaáætlun eða arftakastjórnun. Hún segir arftakastjórnun þekkjast vel erlendis en ekki vera í mikilli notkun hér á landi. Arftakastjórnun snýst um að horfa á núverandi skipurit og finna tvo nýja kandídata fyrir hverja stöðu á skipuritinu, einn karl og eina konu - arftakana. Viðkomandi einstaklingar geta þá verið þjálfaðir upp í stöðuna sem um ræðir með viðeigandi menntun eða með öðrum leiðum sem auka reynslu.
Arftakarnir verða þá klárir í að taka við stöðu í framkvæmdastjórn með litlum fyrirvara ef eitthvað kemur upp á og ein eða fleiri staða innan skipuritsins losnar. Ásta Dís segir þessa leið geta verið gagnlega ef fyrirtæki stefna að því að ná jafnrétti milli kynja innan fyrirtækis en hún bendir á að það sé einfaldlega ákvörðun stjórnar að eltast við að ná slíku jafnrétti.
Stórir fjárfestar geta einnig haft áhrif á jafnrétti innan skráðra félaga. Ásta Dís segir til að mynda að lífeyrissjóðirnir geti sett sem skilyrði fyrir fjárfestingu í fyrirtæki að jafnréttisstefna sé til staðar innan þess fyrirtækis.
Hægt er að hlusta á viðtal Emils Dagssonar við Ástu Dís Óladóttur í nýjasta þætti Ekon í myndbandinu hér fyrir neðan. Þættirnir Ekon eru styrktir af Háskóla Íslands, sem styður vísindamenn til virkrar þátttöku í samfélaginu í krafti rannsókna þess og sérþekkingar. Einnig er hægt að hlusta á Ekon á Soundcloud.