Borgarráð Reykjavíkur samþykkti í dag sex tillögur, sem ætlað er að flýta innritun barna á leikskóla í borginni. Skúli Helgason borgarfulltrúi Samfylkingarinnar og formaður stýrihópsins Brúum bilið kynnti tillögurnar á fundi sem fram fór í Ráðhúsi Reykjavíkur.
Í máli hans kom fram að alls stefndi í að ný leikskólapláss í borginni yrðu 553 talsins á þessu ári og 376 á næsta ári. Samkvæmt því sem Skúli sagði á fundinum eru um 665 börn, sem verða orðin 12 mánaða eða eldri þann 1. september, með umsóknir um leikskólapláss í borginni – eða á hinum svokallaða biðlista.
Skoða Korpuskóla ef áhugi er hjá foreldrum
Tillögurnar sex felast í fyrsta lagi í því að flýta opnun leikskóla, svokallaðrar Ævintýraborgar í Nauthólsvík, strax í byrjun september. Skúli sagði að það lægi fyrir að það yrði hægt, eftir samtöl við alla hlutaðeigandi. Aðlögun barna verður flýtt og á að klárast á einum mánuði og kraftur verður settur í að klára húsnæði skólans, en framkvæmdir við útisvæði munu ekki klárast strax. Útivera barnanna verður því í nærumhverfi skólans, í Öskjuhlíðinni, til að byrja með.
Önnur aðgerðin er sú að laust húsnæði í eigu borgarinnar verði nýtt til að taka við börnum strax í haust. Meðal annars er hafin könnun á því hvort taka megi við börnum í Korpuskóla í Grafarvogi. Þar eigi að geta verið pláss fyrir 120-150 börn, að sögn Skúla. Einnig er til skoðunar að opna tvær deildir til viðbótar á leikskólanum Bakka, sem er á svipuðum slóðum í Grafarvoginum.
Einnig hefur verið lagt til að skoða hvort hægt sé að nýta húsnæði frístundaheimila og annað húsnæði á vegum borgarinnar og samstarfsaðila tímabundið undir leikskólastarf. Skúli sagði að það yrði þá e.t.v. hægt að bjóða börnum að koma inn á frístundaheimili fyrri hluta dags. Þessi önnur aðgerð er háð áhuga foreldra á því að þiggja pláss sem standa til boða, og er einnig með fyrirvara um mönnun.
Þriðja aðgerðin snýr að því að setja upp nýjan leikskóla með 100 plássum í Fossvogi, í Ævintýraborgarhúsnæði, á lóð sem er við hlið Ræktunarstöðvar Reykjavíkur. Skúli sagði að raunhæfur tímarammi í þessum efnum væru 9 mánuðir, og leikskóli gæti því verið risinn um mitt næsta ár.
Fjórða aðgerðin sem samþykkt var er möguleg stækkun leikskólans Steinahlíðar við Suðurlandsbraut. Skúli sagði að á leikskólanum væru 55 börn í dag, en að vilji hefði verið hjá Barnavinafélaginu Sumargjöf, sem á lóðina og húsnæði skólans, til að stækka leikskólann. Ekki hefur verið ráðist í formlegar viðræður um stækkunina, en til stendur að gera það.
Í fimmta lagi var samþykkt að hækka niðurgreiðslu vegna þjónustu dagforeldra til þess að fjölga dagforeldrum, styrkja starfsgrundvöll þeirra og lækka útgjöld foreldra sem nýta sér þjónustu dagforeldra. Stofnstyrkir verði hækkaðir og fleiri leiðir til úrbóta kannaðar, s.s. húsnæðisstuðningur og fræðslustyrkir.
Sjötta og seinasta aðgerðin er svo sú að taka verklag leikskólainnritunar til skoðunar. Endurskoða á verklagið með tilliti til bættrar upplýsingagjafar til foreldra, einföldunar umsóknarferils og meira gagnsæis. Skúli sagði að draumurinn væri sá að foreldrar gætu farið inn á vef borgarinnar og séð hvar laus pláss stæðu til boða. Hann sagði einnig lykilatriði að sjálfstætt starfandi leikskólar verði hluti af sama innritunarkerfi og þeir borgarreknu, til að eyða tvítalningu í kerfinu.
Áætlanir stóðust ekki
Meirihluti borgarstjórnar hefur verið harðlega gagnrýndur undanfarnar vikur, eftir að úthlutun plássa á leikskóla í haust lá fyrir. Ljóst er að þvert á það sem sumir borgarfulltrúar boðuðu fyrir kosningar, og raunar embættismenn borgarinnar líka, verður ekki hægt að taka á móti 12 mánaða gömlum börnum inn á leikskóla í haust.
Er Kjarninn spurðist fyrir um þessi mál, í aðdraganda sveitarstjórnarkosninga, fengust þau svör frá upplýsingafulltrúa borgarinnar að Reykjavíkurborg væri að vinna eftir áætlunum sem gerðu ráð fyrir því að hefja inntöku 12 mánaða barna strax í haust.
Á daginn hefur komið að ekki mun raungerast að 12 mánaða börn fái pláss á leikskóla í haust, fjölda plássa skeikar þar um nokkur hundruð. Þetta hefur sett áætlanir margra foreldra í uppnám, enda höfðu stjórnmálamenn talað með þeim hætti að hægt yrði að koma börnum inn á leikskóla ef þau yrðu orðin 12 mánaða gömul í upphafi nýs skólavetrar.