Frumvarp um lækkun hámarkshraða í þéttbýli sem nú liggur fyrir Alþingi myndi að óbreyttu auka rekstrarkostnað Strætó bs., þar sem lægri meðalhraði vagnanna kallar að öllum líkindum á að fleiri vagnar aki hverja leið. Þessir vagnar eru ekki til hjá Strætó í dag.
Þetta er á meðal þess sem fram kemur í umsögn Strætó við frumvarpið, sem Andrés Ingi Jónsson, þá utan flokka en í dag þingmaður Pírata, lagði fram. Þar segir að lækkun hraða væri jákvæð fyrir öryggi gangandi vegfarenda, þar á meðal farþega Strætó. Lækkun hraðans myndi þó að öllum líkindum auka ferðatíma Strætó, sem leiddi til aukins rekstrarkostnaðar og óhagræðis fyrir notendur Strætó.
Í umsögninni er vísað til úttektar sem verkfræðistofan Mannvit vann fyrir Strætó árið 2017 vegna hugmynda sem þá voru uppi um að lækka hámarkshraða á borgargötum vestan Kringlumýrarbrautar.
Aukinn kostnaður Strætó vegna þeirra hugmynda var þá metinn á 150 milljónir króna á ári, en Strætó segist ekki geta lagt nákvæmt mat á hvað það myndi kosta að lækka hámarkshraða niður í 30 km/klst. á öllum götum í þéttbýli nema sveitarstjórnir færi rök fyrir og ákveði annað, eins og lagt er til í frumvarpi Andrésar Inga.
Strætó setur upp dæmi af leið 15, sem gengur á milli Vesturbæjar Reykjavíkur og Mosfellsbæjar. Ef meðalökuhraðinn á leiðinni, sem í dag er um það bil 25 km/klst myndi lækka um tvo kílómetra á klst. myndi það kalla á einn vagn til viðbótar á leið 15 til að halda í við núverandi tímatöflu á leiðinni.
Strætó segir að „gróft reiknað“ sé hver vagn að kosta á milli 50 til 60 milljónir króna á ári. Samandregið segja fulltrúar Strætó í umsögninni að þar sem mikið af götum sem Strætó ekur um myndi fá lægri hámarkshraða ef frumvarpið yrði að lögum kæmi það til með hafa víðtæk áhrif á ferðatíma Strætó og þar af leiðandi aukins rekstrarkostnaðar.
Ljóst er af lestri umsagnar Strætó að lækkaður hámarkshraði á höfuðborgarsvæðinu myndi hafa þessi áhrif, nema til kæmu mótvægisaðgerðir sem myndu jafna út lækkun meðalhraðans, svo sem fleiri forgangsakreinar og forgangsljós fyrir Strætó og færri hraðahindranir, auk annars.
Í umsögn Strætó segir þó að verið sé að vinna frekari greiningar á áhrifum lægri hámarkshraða á leiðanet og rekstrarkostnað Strætó. „Áætlað er að þeirri vinnu ljúki á næstu mánuðum og þá liggja fyrir mun betri upplýsingar um áhrif lægri hámarkshraða á leiðarkerfi og rekstrarkostnað Strætó,“ segir í umsögninni.
Lítil geta til að kaupa fleiri vagna
Eins og Kjarninn sagði ítarlega frá nýlega er vagnafloti Strætó kominn töluvert á aldur og fjárfestingageta byggðasamlagsins lítil, nema umtalsverð fjárinnspýting komi inn í fyrirtækið frá eigendum þess.
Í greiningu KPMG á flotamálum Strætó sagði að það myndi kosta um 880 milljónir að endurnýja þá 28 vagna sem orðnir eru eldri en 10 ára og svo myndi kosta um 1,5 milljarða til viðbótar að endurnýja þá 33 vagna sem keyptir voru á árunum 2013 og 2014. Á þeim árum var ráðist í umfangsmikla endurnýjun flotans í kjölfar þess að einungis einn strætisvagn var keyptur frá 2008-2012 í kjölfar hruns.
Ekki er útlit fyrir að Strætó hafi efni á því að ráðast í annað slíkt átak að óbreyttu.