Einungis fimm Evrópuríki glímdu við hærri verðbólgu en Ísland á síðasta ári. Verðbólgan hérlendis var þó á svipuðu róli og í mörgum ríkjum álfunnar, þar sem verðlag hefur ýmist lækkað lítillega eða hækkað lítillega. Listinn hér að neðan sýnir verðbólgu í löndunum eins og hún mældist að meðaltali á síðasta ári. Í sex löndum mældist verðhjöðnum, mest í Búlgaríu.
Verðbólga að meðaltali 2014 í ríkjum EES og Bandaríkjunum |Create infographics
Tölurnar hér að ofan byggja á svokallaðri samræmdi vísitölu neysluverðs. Samræmda vísitalan er keimlík vísitölu neysluverðs sem jafnan er notuð til þess að mæla verðbólguna, en er lítillega frábrugðin, í því skyni að vera samanburðarhæf milli allra landanna. Þannig eru útgjöld ferðamanna tekin með í reikninginn og ekki er litið til kostnaðar fólks við eigið húsnæði. Ástæðan er sú að í mörgum landanna eru gögn um húsnæðiskostnað ófullnægjandi. Hagstofan birti gögn fyrir desembermánuð 2014 í gær.
Verðbólga á Íslandi, samkvæmt samræmdu vísitölunni, var að jafnaði 1% í fyrra. Löndin sem bjuggu við meiri verðbólgu voru Finnland, Rúmenía, Austurríki, Bretland og Noregur auk Bandaríkjanna sem eru með í mælingunni. Verðbólga meðal ESB ríkja var að meðaltali 0,6% og 0,4% á evrusvæðinu.
Færumst nær
Árið 2014 er í fyrsta sinn frá 2006 þar sem meðaltals-verðbólgan á Íslandi mælist á pari eða svipuð og að meðaltali innan ESB og á evrusvæðinu.
Verðbólga á evrusvæðinu, innan ESB og Íslandi 2006-2014 |Create infographics
Verðhjöðnun víða í álfunni
Athyglisvert er að skoða verðbólguna, það er tólf mánaða breytingu á vísitölu neysluverðs, eins og hún mældist í desember síðastliðnum. Víða hefur verðlag farið lækkandi, og vörur og þjónusta ódýrari en fyrir ári síðan. Er því ekki um að ræða verðbólgu heldur verðhjöðnun. Í 19 löndum mælist verðhjöðnun, sé litið til samræmdar vísitölu neysluverðs. Þar á meðal er Ísland, þar sem verðlag samkvæmt vísitölunni hefur lækkað um 0,4% frá því í desember 2013.
Þess ber að geta að verðbólga á Íslandi mæld samkvæmt vísitölu neysluverðs (þ.e. ekki samræmdri vísitölu neysluverðs) er 0,8%. Helsti munurinn er húsnæðisliðurinn, sem ekki er reiknaður í samræmdu vísitölunni.
Verðbólga í ríkjum EES og Bandaríkjunum í desember 2014 |Create infographics
Kjarninn og Stofnun um fjármálalæsi hafa tekið höndum saman og munu fjalla ítarlega um heimilisfjármál samhliða þáttunum Ferð til fjár, sem sýndir verða á RÚV næstu vikur. Markmiðið: Að stuðla að betra fjármálalæsi hjá landsmönnum! Næsti þáttur er á dagskrá fimmtudaginn 22. janúar. Fylgstu með áFacebook-síðu Ferð til fjár.