Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra segir að ef áhersla sé eingöngu lögð á hæsta verð í sölu á Íslandsbanka þá sé sátt um að allur hluturinn fari til eins aðila sem tilbúinn er að borga mest.
Ráðherrann lét þessi orð falla undir liðnum fundarstjórn forseta á Alþingi í dag eftir að margir þingmenn höfðu komið í pontu og gagnrýnt sölu ríkisins á hlut í Íslandsbanka – hvernig staðið var að sölunni og söluverðið sömuleiðis. Þingmenn kölluðu einnig eftir frekari umræðu um málið á þingi og sagði forseti Alþingis, Birgir Ármannsson, að hann myndi fara yfir það með hvaða hætti hægt væri að koma við umræðu um þetta þannig að það þyrfti ekki að eiga sér stað undir fundarstjórn forseta.
Kjarninn greindi frá því í morgun að alls 22,5 prósenta hlutur í Íslandsbanka hefði verið seldur með 2,25 milljarða króna afslætti í gær. Fyrirkomulag sölunnar var knappt og stóð yfir í nokkra klukkutíma eftir að það var tilkynnt. Það var í samræmi við þá leið sem boðuð hafði verið frá því að söluferlið var sett formlega af stað á ný þann 11. febrúar síðastliðinn.
Sala sem á sér margra mánaða aðdraganda
Bjarni sagði í ræðu sinni í dag að stjórnvöld hefðu viljað tryggja dreifða eignaraðild. „Við vildum að þetta yrði heilbrigt eignarhald fyrir framtíð bankans og það þýðir meðal annars að þú leggur þig ekki eftir langhæsta verðinu enda hefur svona fyrirkomulag, svona sala aldrei farið fram án afsláttar neins staðar í heiminum.“
Hann sagðist vilja fá umræðu um framkvæmd sölunnar, eins og þingmenn kölluðu eftir.
„Ég vek athygli á því að þetta er ekki eitthvað sem gerist á nokkrum klukkustundum. Þetta er sala sem á sér margra mánaða aðdraganda, meðal annars með aðkomu þingsins. Svo virðist sem margir hafi ekki áttað sig á því hvað Bankasýslan var að boða þegar hún boðaði að salan færi fram með tilboðsfyrirkomulagi sem hlaut alltaf að þurfa að gerast á milli þess að markaðir lokuðu þar til þeir opnuðu næsta dag. Það var nákvæmlega það sem gerðist.
Þegar við veltum því fyrir okkur hvort það hefði mögulega verið hægt að fá hærra verð þá þurfum við aðeins að spyrja okkur hvort við meintum það sem við sögðum, að minnsta kosti get ég sagt fyrir mitt leyti að ég meinti það sem ég sagði, að ég legði áherslu á margt annað heldur en eingöngu bara hæsta verð,“ sagði hann.
Fyrirkomulag á sölunni opinbert
Bjarni kom aftur í pontu nokkru síðar undir sama lið og sagðist vilja ítreka að það væri eðlilegt að alvöru umræða færi fram um þessa sölu eins og þau hefðu „reyndar staðið fyrir til þessa“.
„Við höfum verið í samskiptum við þingið og með málið til vinnslu í fleiri en einni þingnefnd þannig að þetta fyrirkomulag á sölunni var opinbert og var rætt við þingið, og við fengum skoðun á því áður en ráðist var í söluna. Ég vil ítreka að það er Bankasýslan sem að lögum framkvæmir söluna og ég er alveg sannfærður um að Bankasýslan er tilbúin að koma hingað í þingið og gera betur grein fyrir rökunum á bak við þá aðferð sem valin var,“ sagði hann.
Verðmæti í eigu ríkisins seld á undirverði
Jóhann Páll Jóhannsson þingmaður Samfylkingarinnar sagði undir sama lið að þrátt fyrir gríðarlega umframeftirspurn hefði verið veittur 2,25 milljarða afsláttur í sölunni í gær.
„Við erum enn þá í þoku um það hverjir kaupendurnir eru og afslátturinn var auðvitað mörgum milljörðum meiri ef við myndum miða við gengið eins og það er núna eftir daginn. Fyrsti viðskiptadagur er ekki liðinn.
Ég vil taka þetta upp undir þessum lið vegna þess að þetta þarfnast allt saman umræðu í þinginu. Mér finnst það umhugsunarvert að frumútboðið í fyrra hafi ekki verið gert upp hérna í þessum sal þegar verðmæti í eigu ríkisins voru seld á undirverði. Verðmæti í eigu ríkisins voru seld á undirverði – þetta eru hlutabréf sem í dag eru hátt í 30 milljörðum meira virði en þau voru þá og það hefur engin þingleg umræða farið fram til að draga einhvern lærdóm af þessu. Það kom skýrsla frá fjármálaráðherra um söluna, um frumútboðið. Hún hefur aldrei verið tekin hér á dagskrá í þinginu. Salan á eignum almennings heldur áfram án þess að það komi Alþingi við, eða þannig er látið,“ sagði hann.
Augljóst hver forgangsröðunin er hjá ríkisstjórninni
Ásthildur Lóa Þórsdóttir þingmaður Flokks fólksins var einn þeirra þingmanna sem tók til máls.
„Já, salan á þessum banka tók rétt um þrjá tíma. Það er augljóst hver forgangsröðunin er hjá ríkisstjórninni. Þetta þurfti að keyra í gegn, þessu lá á, vegna þess að fjárfestarnir þurfa jú að geta grætt.
Svo langar mig bara aðeins í þessu samhengi að minnast á þingmálaskrána, þar er ekki eitt einasta mál frá ríkisstjórninni varðandi hagsmuni heimilanna og varðandi það að hjálpa þeim í gegnum það sem fram undan er þegar verðbólgan stefnir í tveggja stafa tölu. Það er ekki einu sinni hægt að taka húsnæðisliðinn úr vísitölunni. Það er ekki einu sinni hægt að frysta í eitt ár verðtryggingu á lánum og leigu. Samt er hagnaður bankanna eins og við vitum öll og Félagsbústaðir högnuðust um 18,5 milljarða á síðasta ári og Alma um 12,4 milljarða. Er ekki einhvers staðar þarna borð fyrir báru frekar en hjá heimilunum?“ spurði hún.
Vill selja Íslandsbanka og Landsbankann líka
Sigmar Guðmundsson þingmaður Viðreisnar sagðist vera alveg hjartanlega sammála því að það ætti að selja Íslandsbanka og reyndar Landsbankann líka.
„Ég fagna því að það sé verið að stíga virk skref til þess að gera það. Mér finnst ekki að ríkið eigi að vera sterkur leikandi á þessum samkeppnismarkaði, bara alls ekki. Hins vegar hljótum við auðvitað að velta því fyrir okkur hvernig þetta er gert og án þess að ég ætli að ganga eitthvað langt í því að fullyrða nokkurn skapaðan hlut þá held ég að umræðan í samfélaginu eftir þessi tíðindi í gær kalli á að við verðum hreinlega upplýst um það sem fyrst hvað þarna liggur að baki, hvernig þetta var gert, hvernig menn voru valdir, ekki síst líka hverjir keyptu og hvers vegna kjörin voru eins og þau voru.
Að öðru leyti vil ég fagna því og vona að umræðan fari ekki að snúast um það hvort það eigi yfir höfuð að selja hlutinn eða ekki. Það er afstaða mín að ríkið eigi ekki að vera sterkur leikandi á þessum markaði,“ sagði hann.
Þjóðin vill fá svör
Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir þingmaður Pírata greindi frá því að hún væri persónulega búin að fá skilaboð frá þremur mismunandi aðilum í morgun um hvort ekki ætti að ræða þetta mál í þinginu í dag.
Hún sagði að augljóst væri að þjóðin vildi fá svör strax og upplýsingar um hvernig það hefði borið að að 27 milljarðar hefðu farið úr „vasa þjóðarinnar til – ja, hver veit?“
Allir sem komu að sölu bankans geti verið stoltir
Guðrún Hafsteinsdóttir þingmaður Sjálfstæðisflokksins og formaður efnahags- og viðskiptanefndar sagðist vilja leggja orð í belg og nefndi orð Jóhanns Páls og gagnrýni hans að farið hefði verið í sölu Íslandsbanka í fyrra í miðjum heimsfaraldri.
Hún sagðist ekki vita betur en að sú sala hefði tekist afskaplega vel, svo vel að eftir hefði verið tekið.
„Þegar er talað um að þar hafi verið selt á undirverði, þá voru markmiðin bara allt önnur. Þar var verið að tryggja það að almenningur gæti eignast hlut í einum af bönkum okkar Íslendinga og þúsundir manna svöruðu kallinu og vildu taka þátt í því. Þannig að við fengum dreift eignarhald inn í Íslandsbanka sem var mjög af hinu góða. Í kjölfarið á þeirri sölu þá fengum við líka verðmiða á bankann. Hann fór á markað. Það þýðir að við fengum að vita raunverulegt virði bankans. Og hvað gerðist? Eignarhlutur ríkisins varð meiri. Þannig að ég held að allir sem komu að sölu bankans á síðasta ári og byrjuninni á þessu ferli geti verið stoltir af því,“ sagði hún.