Í þingsályktunartillögu sem liggur fyrir kirkjuþingi Þjóðkirkjunnar, sem hefst á laugardag, er lagt til að gripið verði til breytinga á fjölda stöðugilda sem sparað geti kirkjunni um það bil 180 til 190 milljónir króna á ársgrundvelli.
Hagræðingartillögur sem settar eru fram gera ráð fyrir því að stöðugildum í prófastsdæmum á landsbyggðunum fækki um 10, en á móti er lagt til að stöðugildum fjölgi um 3,5 í prestaköllum á höfuðborgarsvæðinu.
Í minnisblaði um hagræðingu í mannahaldi kirkjunnar, sem unnið var af formanni fjárhagsnefndar kirkjuþings og skrifstofustjóra biskupsstofu, með umboði frá biskupi Íslands, er útlistað hvaða breytingar er lagt til að gerðar verði.
Eigi ekki að þurfa að koma til uppsagna
Í minnisblaðinu segir að lagt sé til að stöðugildunum verði fækkað á næstu tveimur árum og á því tímabili verði „heimildir til að færa fólk til í störfum nýttar eins vel og framast er unnt auk þess sem samið verði um starfslok og/eða skert starfshlutfall þar sem það geti átt við.“
Ef þessar leiðir verði markvisst nýttar ætti ekki að þurfa að koma til uppsagna nema í algjörum undantekningartilfellum, samkvæmt því segir í minnisblaðinu, en stefnt er að því að með þessum breytingum fari stöðugildi presta niður í 134,7, sem sé fækkun um 10,5 stöðugildi, en auk breytinga í prestaköllum landið eru lagðar til breytingar á stöðugildum sérþjónustupresta.
Í Reykjavíkurprófastsdæmi vestra er lagt til að fjöldi stöðugilda verði óbreyttur og að þau verði 17 talsins. Í Reykjavíkurprófastsdæmi eystra er lagt til að stöðugildi verði 24, sem er fjölgun um 1,5 stöðugildi. Í Kjalarnesprófastsdæmi sem nær m.a. yfir Reykjanesið, Garðabæ, Hafnarfjörð og Mosfellsbæ, er lagt til að stöðugildum fjölgi um tvö þannig að þau verði 20 talsins. Alls myndu því 3,5 stöðugildi að bætast við í prófastsdæmum á suðvesturhorninu.
Í Vesturlandsprófastsdæmi er lagt til að stöðugildi verði 10, sem er fækkun um eitt stöðugildi. Lagt er til að fækkunin verði við sameiningu Ólafsvíkur- og Ingjaldshóls-, Setbergs-, Staðastaðar- og Stykkishólmsprestakalla.
Í Vestfjarðaprófastsdæmi er lagt til að stöðugildi verði 5,5, sem er fækkun um tvö stöðugildi. Í Breiðafjarðar- og Strandaprestakalli er lagt til að fækkað verði um eitt stöðugildi, sem ekki er setið í dag og í Ísafjarðarprestakalli er lagt til að fækkað verði um eitt stöðugildi.
Í Húnavatns- og Skagafjarðarprófastsdæmi er lagt til að stöðugildum fækki um tvö, þannig að þau verði sex talsins. Fækkunin á sér stað við sameiningu Melstaðar-, Hvammstanga-, Skagastrandar- og Þingeyrarprestakalla og við sameiningu Glaumbæjar-, Hófsós-, og Hóla-, Miklabæjar- og Sauðárkróksprestakalla.
Í Eyjafjarðar- og Þingeyjarprófastsdæmi er lagt til að stöðugildum fækki um tvö og þau verði alls 14. Fækkað verður um eitt stöðugildi við sameiningu Ólafsfjarðar-, Siglufjarðar- og Dalvíkurprestakalla og sömuleiðis um eitt stöðugildi við sameiningu Húsavíkur-, Grenjastaðar-, Skútustaða- og Langanes og Skinnastaðarprestakalla.
Í Austurlandsprófastsdæmi er lagt til að fækkað verði um tvö stöðugildi og að þau verði alls átta talsins. Fækkunin er ráðgerð í Austfjarðaprestakalli, þar sem stöðugildum fækkar um eitt, auk þess sem lagt er til að stöðugildi héraðsprests verði lagt niður.
Í Suðurprófastsdæmi er lagt til að stöðugildum fækki um eitt og þau verði 16. Fækkunin á sér stað við sameiningu Breiðabólstaðar-, Fellsmúla-, og Oddaprestakalla.
Fækkað um fjögur stöðugildi í sérþjónustu
Hvað sérþjónustu varðar er lagt til að fækka stöðugildum um fjögur. Sérþjónustuprestar yrðu því tólf talsins í 11,2 stöðugildum.
Svokölluðum samningsprestum fækkar um þrjú stöðugildi, niður í eitt og hálft stöðugildi, prestur sátta verður aflagður, sjúkrahúsprestur sömuleiðis og prestur kvennakirkju verður færður í hálft stöðugildi, samkvæmt tillögunni.
Á móti kemur verður stöðugildum farpresta fjölgað um eitt og hálft, upp í tvö.