Lagt er til að lækningaleyfi verði veitt að loknu sex ára læknanámi við Háskóla Íslands og að krafa um kandídatsár fyrir veitingu leyfisins verði felld brott. Þess í stað verði 12 mánaða starfsnám skylda í upphafi sérnáms lækna, svokallaður sérnámsgrunnur. Þetta er lagt til í drögum að reglugerð um breytingu á reglugerð nr. 467/2015 um menntun, réttindi og skyldur lækna og skilyrði til að hljóta almennt lækningaleyfi og sérfræðileyfi en drögin voru birt á samráðsgátt stjórnvalda í vikunni.
Þessum breytingum er ætlað að tryggja að sérnámslæknar séu ekki lakar settir en sérnámslæknar frá öðrum ríkjum. Í samráðsgáttinni segir að æ fleiri ríki bætist í hóp þeirra sem hafa starfsþjálfun sem hluta af sérnámi en ekki grunnnámi lækna. Í bráðabirgðaákvæði er gert ráð fyrir að þau sem lokið hafa kandídatsári muni teljast hafa lokið sérnámsgrunni.
Hægt verði að taka sérnámsgrunn á lengri tíma í lægra starfshlutfalli
Um skipulag sérnámsins segir í drögunum: „Sérnám skal hefjast á sérnámsgrunni sem skal vera 12 mánaða klínískt nám og þannig skipulagður að a.m.k. 4 mánuðir séu á heilsugæslu, 4 mánuðir á lyflækningadeild og 4 mánuðir á öðrum deildum, hámark tveimur.“
Þá miðast lengd sérnámsgrunns við fullt starf en hægt verði að veita undanþágu frá þeirri reglu og heimila töku sérnámsgrunns á lengri tíma sem miðast þá við starfshlutfall. Það megi þó ekki fara niður fyrir 50 prósent.
Drögin koma frá vinnuhóp sem skipaður var af heilbrigðisráðherra en honum var falið að endurskoða og skilgreina nánar umgjörð og stjórnskipulag framhaldsnáms í læknisfræði hér á landi. Vinna hópsins stendur enn yfir en þær breytingar sem hér eru lagðar til ná aðeins til breyttra skilyrða fyrir veitingu almenns lækningaleyfis.
Líkt og áður segir fjölgar stöðugt í hópi þeirra landa sem hafa starfsþjálfun sem hluta af sérnámi en ekki grunnnámi lækna. „Nýlega bættist Noregur við og Svíþjóð mun einnig bætast í hópinn frá 1. júlí n.k. Í ljósi þess að flestir læknar frá Háskóla Íslands sækja sér sérfræðimenntun til Svíþjóðar standa vonir vinnuhópsins til þess að þær breytingar sem hér eru lagðar til öðlist gildi innan EES-svæðisins fyrir 1. júlí 2021,“ segir í samráðsgátt um breytingarnar.