Hagnaður Landsbankans á fyrsta ársfjórðungi 2015 var 6,4 milljarðar króna eftir skatta. Það er 2,1 milljarði krónum meiri hagnaður en á sama tímabili í fyrra. Þetta kemur fram í tilkynningu bankans til Kauphallar. Íslenska ríkið á Landsbankann að mestu, en lítil hlutur er í eigu starfsmanna hans.
Í tilkynningunni segir að aðrar rekstrartekjur bankans en af grunnrekstri á ársfjórðungnum hafi verið um fimm milljarða króna og þær séu að miklum hluta til komnar vegna aukins hagnaðar af hlutabréfum. Landsbankinn á hlut í nokkuð mörgum skráðum félögum. Þau eru Reginn, Reitir, Marel, N1, Vodafone og Nýherji.
Landsbankinn er áfram með mesta markaðshlutdeild í nýjum íbúðalánum. Á fyrsta fjórðungi jukust þau verulega og námu ný lán 12,8 milljörðum króna, en voru 8,5 milljarðar á sama tíma á síðasta ári. Landsbankinn bætti líka langmestu við sig af íbúðalánum allra á síðasta ári. Alls jukust íbúðalán bankans til einstaklinga um 39 milljarða króna. Á sama tíma jukust íbúðalán Arion banka til einstaklinga um 13,6 milljarða króna og íbúðalán Íslandsbanka til einstaklinga um 11,0 milljarða króna.
Hefur hagnast mest allra banka frá hruni
Í tilkynningunni er haft eftir Steinþóri Pálssyni, bankastjóra Landsbankans, að staða bankans sé áfram sterk og þrátt fyrir 24 milljarða arðgreiðslu til eigenda vegna síðasta rekstrarárs sé eigið fé bankans mjög hátt. "Bæði útlán og innlán hafa aukist umtalsvert og sífellt fleiri eiga í viðskiptum við Landsbankann. Með sameiningu við Sparisjóð Vestmannaeyja fjölgar enn í hópi viðskiptavina en Landsbankinn er vel undir það búinn að taka á móti þeim. Þá fjölgar í hluthafahópi bankans sem er ánægjulegt. Viðamikilli stefnumótun til næstu fimm ára lauk á fyrsta ársfjórðungi en markmið stefnunnar er að tryggja arðsaman og hagkvæman rekstur til lengri tíma. Sýn bankans er áfram að vera til fyrirmyndar og að vera traustur samherji sinna viðskiptavina í fjármálum, að þeir hafi ávinning af viðskiptunum við bankann og það sé gagnkvæmt. Bankinn ætlar að vera hreyfiafl og starfa í sátt við umhverfið og samfélagið þannig að viðskiptavinir geti sagt: „svona á banki að vera“. “
Landsbankinn hefur hagnast langmest allra viðskiptabankanna frá hruni. Hann græddi 28,8 milljarða króna í fyrra og hefur samtals rakað inn um 148 milljörðum króna frá upphafi árs 2009.