Eins og sagt var frá á dögunum hefur íslenska ríkið ákveðið að festa kaup á svokölluðu Norðurhúsi nýrra höfuðstöðva Landsbankans við Austurhöfn í Reykjavík, undir skrifstofur utanríkisráðuneytisins og aðstöðu fyrir Listasafn Íslands undir sýningar á samtímalist.
Kaupverðið nemur 6 milljörðum króna, samkvæmt tilkynningu ríkisstjórnarinnar, en það samsvarar rúmlega helmingi heildarkostnaðar við húsið, allavega miðað við þá kostnaðaráætlun sem síðast var gefin út fyrir byggingu stórhýsisins í heild.
Landsbankinn gerði kostnaðaráætlun vegna hússins undir árslok 2019, og var þá gert ráð fyrir að kostnaður yrði 11,8 milljarðar króna, án verðbóta.
Kjarnanum langaði að fá að heyra hvernig uppfærð kostnaðaráætlun bankans vegna byggingar hússins hljómaði, en ríkisbankinn hefur verið þögull um það í uppgjörum sínum og ársskýrslum hvort þess megi vænta að einhver viðbótarkostnaður bætist við þá 11,8 milljarða sem gert var ráð fyrir í áætlun 2019 og greint frá í ársskýrslu bankans fyrir það ár, sem birt var árið 2020.
Á eftir að semja um tiltekin atriði sem gætu haft áhrif
Í svari sem blaðamanni barst frá Landsbankanum sagði að bankinn teldi „ótímabært að fjalla um áætlaðan heildarkostnað þar sem enn á eftir að semja um tiltekin atriði sem geta haft áhrif til hækkunar eða lækkunar“.
Í svari bankans er hins vegar bent á að frá því að áætlunin var gerð hefði byggingarvísitala hækkað um u.þ.b. 20 prósent og kostnaður hefði fallið til sökum þess að bygging hússins hefði tekið lengri tíma en áætlað var.
Upphaflega hafi verið gert ráð fyrir því að byggingu hússins yrði lokið um mitt ár 2022, en að nú væri miðað við að bankinn flytti starfsemi höfuðstöðva sinn í húsið undir lok ársins. Byggingu hússins í heild sinni á svo að ljúka árið 2023, en verklok við Norðurhúsið, þann hluta sem ríkið hefur nú fest kaup á, eru áætluð næsta vor, samkvæmt svari bankans við fyrirspurn Kjarnans.
Kostnaður upphaflega metinn 9 milljarðar
Þegar bankaráð Landsbankans ákvað árið 2017 að láta byggja nýtt hús á lóðinni við Austurhöfn, sem bankinn hafði keypt árið 2014, var gert ráð fyrir því að bygging hússins að meðtöldu lóðarverðinu yrði 9 milljarðar. Helga Björk Eiríksdóttir stjórnarformaður Landsbankans greindi svo frá uppfærðri kostnaðaráætlun bankans vegna verksins í ávarpi sínu í ársskýrslu bankans fyrir árið 2019, þegar hún var birt í upphafi árs 2020.
„Þegar búið var að leggja mat á tillögur sem bárust um hönnun hússins var ljóst að byggingin yrði kostnaðarsamari en upphaflega var gert ráð fyrir. Við bættist kostnaður vegna ákvörðunar um að húsið yrði umhverfisvottað samkvæmt BREEAM-umhverfisstaðlinum. Samkvæmt þeirri kostnaðaráætlun sem bankaráð hefur samþykkt er nú reiknað með að heildarkostnaður við bygginguna verði 11,8 milljarðar króna. Þrátt fyrir að kostnaður verði því um 1,8 milljörðum króna hærri en upphaflega var gert ráð fyrir er ljóst að flutningur í húsið mun hafa í för með sér nauðsynlega hagræðingu,“ sagði í ávarpi Helgu Bjarkar.
Þá hafði hækkun á byggingarvísitölu frá því að ákvörðun um byggingu hússins var tekin þegar aukið væntanheildarkostnað upp í 10 milljarða króna. Landsbankinn hefur gert ráð fyrir því að flutningur höfuðstöðvanna í húsið spari um hálfan milljarð króna á ári, en höfuðstöðvar bankans eru nú dreifðar um Kvosina.