Samkvæmt drögum að fjárhagsáætlun Landspítala þá áætlar spítalinn að óbreyttur rekstur muni kosta tæplega 82,5 milljarða króna á næsta ári. Fjárveitingar til spítalans úr ríkissjóði samkvæmt fyrirliggjandi fjárlagafrumvarpi eru 80,8 milljarðar króna. Alls vantar Landspítalann því 1.642 milljónir króna til að viðhalda óbreyttum rekstri sínum á næsta ári.
Þetta kemur fram í umsögn spítalans um fjárlagafrumvarpið. Guðlaug Rakel Guðjónsdóttir, settur forstjóri Landspítala, skrifar undir umsögnina.
Í henni segir Guðlaug að margt jákvætt sé í fjárlagafrumvarpinu. Spítalinn hafi þó miklar áhyggjur af því að ofangreinda upphæð vanti til að standa undir óbreyttum rekstri. „Miðað við það þá hefur spítalinn ekkert fjármagn til að takast á við eðlilegar lýðfræðilegar breytingar og innleiða framfarir í meðferð sjúklinga.“
Guðlaug segir að ef reikniviðmið fjárlaga á liðnum árum hefðu verið látin gilda hefði Landspítalinn fengið 1.410 milljónum krónum meira. „Óskar Landspítali eftir að svo verði áfram en miðað við að reiknaður raunvöxtur nægi ekki til að standa undir óbreyttum rekstri,
og hvað þá að gera spítalanum kleift að þróast enn frekar, leggur spítalinn einnig til að fallið verði frá 387 m.kr. hagræðingarkröfu á hendur honum. Samtals væri þetta þá 1.797 m.kr. nýtt rekstrarfé til spítalans sem gerði honum kleift að standa undir óbreyttum rekstri og þróast áfram með nýja þjónustu ásamt því að vinna að eðlilegum rekstrarumbótum.“
Langvarandi fjárhagsvandi og hallarekstur
Landspítalinn hefur glímt við langvarandi fjárhagsvanda og hallarekstur. Á árunum 2018 til 2020 var samanlagður halli á rekstri spítalans tæplega 4,3 milljarðar króna. Þeim halla hefur verið mætt meðal annars með því að hagræða í rekstri og reyna að aðlaga starfsemina að fjárheimildum, samkvæmt umsögninni.
Þar segir þó að síðustu ár hafi verið þung og skýrist af hluta af heimsfaraldrinum sem hafi haft veruleg áhrif á starfsemi spítalans. Því hafi það ekki tekist að fullu að aðlaga rekstur að fjárheimildum.
Í ár sé þó gert ráð fyrir að spítalinn verði rekinn innan fjárveitinga en það segi ekki alla söguna, samkvæmt Guðlaugu. „Undirliggjandi rekstrarvandi á árinu 2021 er um 1.000 m.kr. þegar tekið er tillit til einskiptis hagræðingaraðgerða (frestað viðhald ofl.) og fjárveitinga sem bókast á árið 2021 en kostnaður féll til á árinu 2020.“
Björn Zoëga ráðinn sem ráðgjafi
Páll Matthíasson sagði upp störfum sem forstjóri Landspítalans fyrr á þessu ári og skipa á í stöðuna frá 1. mars á næsta ári. Í stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar var þess sérstaklega getið að skipa ætti stjórn yfir Landspítalann.
Í gær var svo tilkynnt að Björn Zoëga, forstjóri Karolinska sjúkrahússins í Svíþjóð og fyrrverandi forstjóri Landspítalans, hefði verið ráðinn sem ráðgjafi af Willum Þór Þórssyni heilbrigðisráðherra.
Um væri að ræða tímabundið hlutastarf meðfram störfum Björns sem forstjóra. Hann hefur þegar hafið störf.
Í tilkynningu á vef stjórnarráðsins vegna þessa var haft eftir Willum að Landspítalinn sé hryggjarstykkið í okkar heilbrigðiskerfi. „Spítalinn verður að geta sinnt sínu mikilvæga hlutverki nú og í framtíðinni. Þá er gott samspil spítalans við aðra þætti heilbrigðiskerfisins lykilatriði. Umtalsverðar breytingar á rekstri og yfirstjórn Landspítalans munu eiga sér stað á næstunni og því er gríðarlega mikilvægt að sérfróðir aðilar með þekkingu á rekstri slíkrar stofnunar séu til að veita ráð við slíka vinnu.“
Meðal þess sem liggi til grundvallar þeirri vinnu sem sé framundan séu áherslur í heilbrigðismálum í nýjum stjórnarsáttmála, innleiðing þjónustutengdrar fjármögnunar og greiningarvinna sem gerð hafi verið á framtíðarþjónustu Landspítala.