Landsvirkjun skilaði 19,3 milljarða króna hagnaði í fyrra og hyggst greiða út 15 milljarða króna til ríkissjóðs í arð. Samkvæmt Herði Arnarsyni, forstjóra félagsins, má rekja bætta afkomu þess til mikils bata í rekstrarumhverfi stórnotenda á orku hérlendis, meðal annars vegna verðhækkana á áli og orku á alþjóðavísu. Þetta kemur fram í nýbirtum ársreikningi Landsvirkjunar.
Hækkun álverðs meginástæða rekstrarbata
Líkt og Kjarninn hefur áður fjallað um má rekja stóran hluta af hagvexti síðasta árs til verðhækkunar á áli og öðrum málum, en hún leiddi til tekjuaukningar sem nemur 2,6 prósentum af landsframleiðslu í fyrra.
Álverin eru á meðal stærstu viðskiptavina Landsvirkjunar, en orkusamningar þeirra taka mið af heimsmarkaðsverði á áli. Vegna þess hækkaði meðalverðið á orku til stórnotenda Landsvirkjunar um 55 prósent í fyrra, á meðan meðalverðið til heimila og smærri fyrirtækja hélst óbreytt frá fyrra ári.
Rio Tinto, sem er eigandi álversins í Straumsvík, barðist fyrir því fyrir tveimur árum síðan að raforkusamningar við Landsvirkjun skyldu vera tengdir við heimsmarkaðsverð á áli.
Rio Tinto vildi tengingu við álverð
Í febrúar 2020 sendi Rio Tinto frá sér fréttatilkynningu þar sem sagt var frá því að fyrirtækið leitaði allra leiða til að gera álverið arðbært og samkeppnishæft á alþjóðamörkuðum, meðal annars við stjórnvöld og Landsvirkjun. Þá væri gert ráð fyrir því að rekstur álversins yrði áfram óarðbær til skemmri og meðlalangs tíma, sökum ósamkeppnishæfs orkuverðs og lágs verðs á áli í sögulegu samhengi.
Í júlí 2020 sendi Rio Tinto formlega kvörtun til Samkeppniseftirlitsins vegna þess að fyrirtækið taldi Landsvirkjun hafa yfirburðastöðu gagnvart álverinu. Þar kom fram að ef Landsvirkjun myndi ekki láta af „skaðlegri háttsemi sinni“ myndi Rio Tinto segja upp orkusamningi sínum við Landsvirkjun og loka álverinu.
Rio Tinto hætti hins vegar við þau áform í fyrra, þegar fyrirtækið náði saman við Landsvirkjun um að tengja orkuverð við heimsmarkaðsverð á áli. Samhliða undirritun samningsins dró álfyrirtækið kvörtun sína til Samkeppniseftirlitsins til baka.