Landvernd segir að ef skýrsla um stöðu og horfur í orkumálum, sem kynnt var í gær, verði grundvöllur ákvarðanatöku ríkisstjórnarinnar í orkumálum næstu ára sé „ljóst að náttúra Íslands á sér engan talsmann í ríkisstjórninni“. Þetta kemur fram í tilkynningu frá náttúruverndarsamtökunum í dag, þar sem skýrslan er gagnrýnd.
Landvernd telur að skýrsla starfshópsins gefi ekki skýra mynd af því sem henni var ætlað að sýna – og að ekki hafi verið til staðar greiningar eða gögn sem unnin voru af hlutlausum aðilum um vænta orkunotkun til framtíðar. „Starfshópurinn vann ekki sjálfstæðar greiningar heldur tók við greiningum orkugeirans og gerði þær að sínum,“ segir í tilkynningu Landverndar.
Samtökin segja að í skýrslunni sé í raun ekki tekið á stærsta álitamálinu sem tengist orkuvinnslu á Íslandi, sem sé sú eyðilegging íslenskrar náttúru sem orkuvinnslunni fylgir.
„Náttúra landsins og víðerni eru undirstaða stærstu útflutningsgreinar okkar, en er einnig gríðarlega verðmæt til útivistar, bættrar lýðheilsu og aukinna lífsgæða. Náttúra Íslands hefur gildi í sjálfu sér og náttúruvernd er einnig loftslagsaðgerð,“ segir Landvernd.
Í tilkynningu Landverndar er vísað til þess sem fram kemur í skýrslunni, að sátt verði að ríkja um orkuver. „Það getur aldrei orðið ef ekki er hægt að treysta vinnubrögðunum og orkugeirinn fær að stjórna umræðunni, ákvarðanatöku og lagasetningu. Þessi skýrsla er skýrt dæmi um ítök orkugeirans í þessu mikilvæga hagsmunamáli þjóðarinnar, hið sama gildir um nýleg lög um mat á umhverfisáhrifum og tafir á afgreiðslu rammaáætlunar. Ef þessi skýrsla verður grundvöllur ákvarðanatöku ríkisstjórnarinnar í orkumálum næstu ára er ljóst að náttúra Íslands á sér engan talsmann í ríkisstjórninni,“ segir í tilkynningu samtakanna.
Vilja greiningu á orkuþörf án aðkomu orkugeirans
Landvernd hvetur í tilkynningu sinni Guðlaug Þór Þórðarsson ráðherra umhverfis-, orku- og loftslagsmála til þess að að „láta gera greiningu á þörf fyrir frekari orku næstu ára með fagleg sjónarmið að leiðarljósi og án beinnar aðkomu orkugeirans“ og segja samtökin að við frekari orkuöflun verði að hafa í huga að náttúruvernd og aðgerðir gegn loftslagsbreytingum verði að haldast í hendur.
Samtökin benda á að stóriðja notar tæp 80 prósent af þeirri raforku sem orkuver á Íslandi framleiða í dag og að Ísland er langstærsti raforkuframleiðandi heims á íbúa og framleiði tvöfalt meiri orku á mann en landið sem næst kemur. „Orkunotkun Íslendinga er því yfirþyrmandi og grænbókinni sem unnin var í miklum flýti virðist ætlað að ýta enn frekar undir það,“ segir í tilkynningu Landverndar.
Ýmislegt sem skorti
Landvernd segir að það skorti ýmislegt í skýrslu starfshópsins og að hún taki ekki til „margra raunverulega orkusparandi aðgerða sem eru grundvöllur orkuskipta eins og til dæmis fjölbreytts ferðamáta, fækkunar flugferða og minnkaðrar eldsneytisnotkunar sjávarútvegsins“ né heldur forgangsröðunar á orkunotendur.
„Í skýrslunni er ekki með fullnægjandi hætti fjallað um verðmæti óspilltrar náttúru sem er bæði efnahagslegt og samfélagslegt – eða um gildi hennar á heimsvísu,“ segir Landvernd í tilkynningu sinni og nefna einnig að ekkert sé vikið að því mikilvæga samspili náttúruverndar og loftslagsverndar sem alþjóðlegar stofnanir og samtök hafi lagt æ meiri áherslu á.
Segja samtökin að það sem sé í húfi „ef draumórar orkugeirans, sem birtast í skýrslunni, verða að veruleika“ sé hægt að skoða á Náttúrukorti Landverndar, vefsjá sem sýnir þá staði sem fyrirhugað er að nýta til orkuframleiðslu eða raska á annan hátt.