Fjarskiptastofa fær heimild til að mæla fyrir um samstarf og samnýtingu í skilmálum tíðniheimilda, nái frumvarp til laga um fjarskipti sem nú liggur fyrir Alþingi fram að ganga. Sú heimild, samhliða uppbyggingarskuldbindingum fjarskiptafyrirtækja myndi hafa það í för með sér að gagnkvæmt reiki milli fjarskiptafyrirtækja á þjóðvegum landsins yrði að veruleika. Það þýðir að notendur ólíkra fjarskiptafyrirtækja hefðu sama aðgang að farnetsþjónustu, það er internettengingu í gegnum 4G eða 5G, á þjóðvegum landsins.
Í lok mars á næsta ári falla úr gildi 24 af 31 tíðniheimildum sem ætlaðar eru til að veita almenna farnetsþjónustu. Tíðnir fyrir farnetsþjónustur eru rafsegulbylgjur í lofti sem notaðar eru fyrir þráðlausar gagnasendingar en Fjarskiptastofa sér um úthlutun þeirra. Á vef stofnunarinnar segir að fjarskiptatíðnir innan íslensks yfirráðasvæðis og númer úr íslenska númeraskipulaginu séu auðlindir undir stjórn íslenska ríkisins. Úthlutun fjarskiptatíðna felur í sér tímabundna heimild til skilyrtra afnota sem hvorki leiðir til eignarréttar né varanlegs nýtingar- og ráðustöfunarréttar.
Til stendur að endurnýta tíðniréttindin sem eru við það að falla úr gildi til langs tíma eða til 20 ára og við það tækifæri ætlar Fjarskiptastofa að endurskoða skilmála tíðniréttinda og koma á ákveðnum skuldbindingum um útbreiðslu og gæði þjónustunnar.
750 milljónir i auðlindagjald
Sérstaka gjaldskrá er fyrir tíðniréttindin má finna í kynningu frá Fjarskiptastofu og áætlað er að um 750 milljónir króna geti skilað sér í formi auðlindagjalds fyrir tíðniheimlidirnar sem til stendur að endurnýja á næsta ári. Tekjurnar renna í fjarskiptasjóð sem hefur það hlutverk að stuðla að uppbyggingu fjarskiptamála á grundvelli fjarskiptaáætlunar.
Að sögn Björns Geirssonar, sviðsstjóra hjá Fjarskiptastofu, er gjaldið hóflegt ef miðað er við höfðatölu. Hann nefnir sem dæmi að á Ítalíu er verðið fyrir tiltekið tíðnisvið 36 evrusent á hvern íbúa en hér á landi er verðið 0,6 evrusent. Í töflu frá Fjarskiptastofu þar sem upphæð auðlindagjalda í nokkrum löndum er borin saman sést að verðið er nokkuð rokkandi, í Noregi er það til dæmis 0,2 evrusent á íbúa en í Þýskalandi er verðið 17 evrusent á íbúa.
Spurður út í fylgni milli auðlindagjalds og verðlags fjarskiptafyrirtækja segir Björn: „Því meiri sem gjaldtakan er eða auðlindagjöldin, því líklegra er að það skili sér út í verðlag til neytenda. Þannig að með því að halda þessu hófstilltu þá er það til þess fallið að halda verðlagningunni í hófi.“
Björn segir hófstillta gjaldtöku auðlindagjalds einkum skýrast af því að á móti skuldbinda fjarskiptafyrirtækin sig til að ráðast í kostnaðarsama uppbyggingu. „Við gerum ráð fyrir því að gera kröfu um uppbyggingu á háhraðaneti sem er þá slitlaust farsímasamband á öllu þjóðvegakerfinu. Það er áætlað að muni kosta 2,2 milljarða að gera ráð fyrir 100 prósent slitlausri farnetsnotkun með 30 megabæta hraða. Þannig að það er kostnaður sem leggst á fjarskiptafyrirtækin. Það er ekki bæði hægt að gera miklar kröfur um kostnað og að vera með mikla auðlindagjaldtöku á sama tíma.“
Áhersla verður lögð á að koma upp 10 megabæta hraða tiltölulega fljótt á þjóðvegum landsins að sögn Björns og kostnaður við það er metinn verða um 850 milljónir króna.
Viðskiptavinir ólíkra fjarskiptafyrirtækja sitji við sama borð
Líkt og áður segir fær Fjarskiptastofa heimild til að mæla fyrir um samstarf og samnýtingu í kerfinu nái nýtt frumvarp til laga um fjarskipti fram að ganga. Það er algjör forsenda fyrir þessu uppbyggingarverkefni að sögn Björns. „Ástæðan er sú að það eru holur í þjóðvegakerfinu í dag, þú dettur úr sambandi víðs vegar í vegakerfinu. Það þekkja það allir að það vantar farsímasamband á sumum stöðum. Það er tiltölulega dýrt að holufylla þetta. Það er ekkert eitt fyrirtæki sem mun ráðast í það verkefni. Þá spyr maður sig: Er skynsamlegt að láta hvert og eitt fyrirtæki fara út í þetta verkefni? Þá náttúrlega þrefaldast kostnaðurinn við þetta, þannig að við lítum á þetta samstarfs- og samnýtingarverkefni þannig að öll fyrirtækin taki þátt í þessari framkvæmd sameiginlega og kostnaðurinn þá skiptist með jöfnum hætti á milli fyrirtækjanna.“
Fyrirhugaðar breytingar munu einnig gera gagnkvæmt reiki að möguleika sem mun hafa það í för með sér að viðskiptavinir ólíkra fjarskiptafyrirtækja munu hafa sama aðgengi að interneti á vegum úti, ólíkt því sem nú er. „Það getur gerst að það séu tveir í bíl og annar hjá Símanum og hinn hjá Vodafone eða Nova og svo dettur sá út hjá Vodafone eða Nova en sá hjá Símanum helst inni – eða öfugt. Það er verið að reyna að ráða bót á þessu,“ segir Björn.