Frestun Arion banka á vaxtahækkun óverðtryggðra neytendalána með breytilegum vöxtum, sem átti að taka gildi 29. júlí en mun nú ekki tala gildi fyrr en 25. september, lækkar vaxtakostnað lántakenda um 280 milljónir króna og snertir 23 þúsund einstaklinga.
Þetta kemur fram í svari Arion banka við fyrirspurn Kjarnans um málið.
Frestunin nær fyrst og fremst til íbúðalána, bílalána og lána sem bera kjörvexti.
Fyrr í dag greindi bankinn frá því að hann myndi fresta eins prósentustigs hækkun á óverðtryggðum vöxtum sem hann tilkynnti um seint í júní, og áttu að taka gildi 29. júlí, til 25. september. Ástæðan er sú að það misfórst að tilkynna viðskiptavinum um breytinguna með beinum hætti. „Því mun bankinn fresta vaxtahækkuninni og endurgreiða ofgreidda vexti en ofgreiddir vextir ná aðeins til þriggja síðustu daga júlímánaðar.“
Hinir stóru bankarnir hafa þegar hækkað vexti
Arion banki er sá eini af stóru bönkunum þremur sem hefur ekki tilkynnt um vaxtahækkun á neytendalánum eftir síðustu stýrivaxtahækkun Seðlabanka Íslands í síðustu viku, þegar þeir voru hækkaðir um 0,75 prósentustig upp í 5,5 prósent.
Kjarninn greindi frá því fyrr í dag að Landsbankinn og Íslandsbanki hafa báðir hækkað vexti af óverðtryggðum íbúðalánum. Breytilegir vextir á óverðtryggðum grunnlánum til íbúðarkaupa (allt að 70 prósent af kaupverði) hjá Landsbankanum, sem er nánast að öllu leyti í eigu íslenska ríkisins, hækka til jafns við stýrivaxtahækkunina og verða sjö prósent. Þurfi fólk hærra hlutfall að láni eru vextirnir enn hærri.
Íslandsbanki hækkar sömuleiðis breytilega óverðtryggða vexti af grunnlánum um 0,75 prósentustig.
Í tilkynningu Arion banka sem birt var í dag vegna áðurnefndrar frestunar á gildistöku vaxtahækkunar segir þó að „Í kjölfar ákvörðunar Seðlabanka Íslands frá 24. ágúst sl. um að hækka stýrivexti um 0,75 prósentustig eru frekari breytingar á vöxtum Arion banka til skoðunar.“