Í byrjun sumars 2016 voru grunnlaun þingmanna á Íslandi 712 þúsund krónur á mánuði. Nú, sex árum síðar, eru þau 1.346 þúsund krónur á mánuði. Þau hafa því hækkað um 634 þúsund krónur á tímabilinu, eða um 89 prósent á tímabilinu.
Þetta má lesa út úr launatöflu yfir laun þjóðkjörinna fulltrúa og æðstu embættismanna þjóðarinnar sem birt var í gær þegar laun þeirra voru hækkuð um 4,7 prósent.
Grunnlaun ráðherra hafa hækkað enn meira í krónum talið. Þeir voru með 1.257 þúsund krónur í laun snemmsumars 2016 en eru nú 2.231 þúsund krónur á mánuði og hafa hækkað um 974 þúsund krónur á tímabilinu.
Hækka langt umfram regluleg laun í krónum talið
Miðgildi reglulegra heildarlauna fólks á Íslands, samkvæmt tölum frá Hagstofu Íslands, var 492 þúsund krónur í árslok 2015. Í lok síðasta árs voru þau 696 þúsund krónur og höfðu því hækkað um 204 þúsund krónur, eða 41 prósent á tímabilinu. Ef skoðað er meðaltal heildarlauna þá hefur það hækkað um 39 prósent, eða 216 þúsund krónur, á sama tímabili.
Laun þingmanna hafa því hækkað um 430 þúsund krónur umfram þær krónur sem miðgildi reglulegra heildarlauna landsmanna hefur hækkað á tímabilinu og um 416 þúsund krónur umfram meðaltal reglulegra heildarlauna.
Ef horft er á laun ráðherra þá hafa þau hækkað um 770 þúsund krónur umfram miðgildi heildarlauna í landinu og 758 þúsund krónur umfram meðaltal þeirra.
Forsætisráðherra hefur svo hækkað um 875 þúsund krónur á mánuði umfram það sem miðgildi reglulegra heildarlauna hefur hækkað og 863 þúsund krónur umfram meðaltalslaunin. Hækkun á launum ráðherra á sex ára tímabili er því meiri en sem nemur heildarlaunum meðallaunamanns á mánuði.
Fá launahækkun í takti við þróun launavísitölu
Lögin sem ákveða laun þessa hóps voru sett árið 2019, í kjölfar þess að Kjararáð var lagt niður. Það ráð ákvað í október 2016 að hækka laun forseta Íslands, þingfararkaup alþingismanna og laun ráðherra gríðarlega. Laun þingmanna hækkuðu hlutfallslega mest við ákvörðun Kjararáðs, eða um 44,3 prósent.
Þessi gríðarlega hækkun var harðlega gagnrýnd víða og varð til þess að ákveðið var að breyta því hvernig laun þjóðkjörinna fulltrúa og æðstu embættismanna yrðu reiknuð. Það var gert með lögum árið 2019 og frá þeim tíma hækka þau í takti við þróun launavísitölu.
Í síðustu kjarasamningum, svokölluðum lífskjarasamningum, var hins vegar samið um krónutöluhækkanir fyrir flestar stéttir.
Flestir samningar á vinnumarkaði eru lausir síðar á þessu ári og því stór kjarasamningalota framundan.