Drífa Snædal, forseti Alþýðusambands Íslands (ASÍ), gagnrýnir nýlega launahækkun þingmanna harðlega í nýjum pistli, en laun þeirra hækkuðu um 75 þúsund krónur í sumar upp í 1.285.411 króna grunnlaun.
Drífa segir að með þessari hækkun hafi enn á ný orðið rof milli kjara æðstu ráðamanna og almennings og segir að æðstu hópar samfélagsins séu áfram sem áður undanskildir frá því sem um almenning gildir. „Í janúar síðastliðnum hækkuðu taxtalaun um 24 þúsund krónur en almenn hækkun launa var 15.750 krónur. Þau sem muna kjarabaráttuna í upphafi árs 2019 vita vel hvað þurfti mikið átak til að ná slíkum árvissum hækkunum í þriggja og hálfs árs samningi. Grunnhugmyndin var að tryggja hækkun lægstu launa umfram almenna launahækkun. Þingmenn undirgangast ekki þessa hugmyndafræði heldur taka hækkunum miðað við launavísitölu opinberra starfsmanna.“
Krónutöluhækkanir til að hækka lægstu launin
Skrifað var undir hina svokölluðu lífskjarasamninga í apríl 2019. Kjarasamningarnir náðu til yfir 110 þúsund manns á íslenskum vinnumarkaði en um er að ræða verslunar-, skrifstofu- og verkafólk. Þeir gilda frá 1. apríl 2019 til 1. nóvember 2022.
Launahækkanir sem í honum felast eru taldar í krónum. Almenn laun hækkuðu um 17 þúsund krónur frá 1. apríl 2019. Þau hækkuðu síðan aftur um 18 þúsund krónur 1. apríl 2020, um 15.750 krónur 1. janúar 2021 og eiga að hækka um 17.250 krónur 1. janúar 2022. Þá var samið um eingreiðslu til allra almennra launamanna upp á 26 þúsund krónur sem var til útgreiðslu í byrjun maí 2019.
Með því að hafa launahækkanir í krónutölum en ekki hlutfallstölum átti að tryggja að þeir sem hafi hæstu launin myndu ekki hækka um fleiri krónur en þeir sem voru með þau lægstu.
Sérstaklega var samið um auknar hækkanir fyrir þá sem vinna á taxtalaunum. Alls áttu laun þeirra sem eru með kauptaxta að hækka um 90 þúsund krónur á samningstímanum. Lágmarkstekjur fyrir fullt starf verða samkvæmt þeim 368 þúsund krónur 1. janúar 2022. Auk þess hækkar desemberuppbót úr 89 þúsund krónum í 98 þúsund krónur á samningstímanum og orlofsuppbót úr 48 þúsund krónum í 53 þúsund krónur.