SUNN, samtök um náttúruvernd á Norðurlandi gera alvarlegar athugasemdir við nýja umhverfismatsskýrslu Landsnets um Blöndulínu 3 og telja að hún uppfylli í nokkrum grundvallaratriðum „alls ekki“ lög.
Krefjast samtökin þess að raforkuflutningur milli Blöndu og Akureyrar til framtíðar taki mið af tengingu virkjana á Suðurlandi við Norðurland með 200 kílómetra jarðstreng meðfram núverandi og óbreyttum Sprengisandsvegi. Jarðstrengur þar muni ekki skerða víðerni meira en orðið er og gæti tengst nýju loftlínunni úr Eyjafirði, Hólasandslínu 3, í Bárðardal. Meðfram tengingunni mætti svo leggja streng til að tryggja orkuskipti á Sprengisandsleið sjálfri.
Þetta er meðal þess sem fram kemur í umsögn SUNN til Skipulagsstofnunar á umhverfismatsskýrslu Landsnets um Blöndulínu 3.
Samtökin benda á að sú lausn að leggja streng með Sprengisandsleið komi að mati Landsnets sjálfs umhverfislega best út. Sú jarðlína myndi styrkja flutningskerfið á Norðurlandi og auki möguleikana á því að lengja jarðstrengskafla fyrirhugaðrar Blöndulínu. Þannig yrði hægt að setja háspennulínu um Hraun í Öxnadal til dæmis í jörð í stað þess að við þetta friðlýsta og verðmæta útivistarsvæði yrðu reist þrjátíu möstur.
Umdeild framkvæmd í tvo áratugi
Í um tvo áratugi hefur verið stefnt að því að tengja Blöndustöð, fyrstu virkjunina sem alfarið var hönnuð af Íslendingum, með öflugri háspennulínu til Akureyrar og tengja þannig flutningskerfi raforku frá Suðvesturlandi og Norður- og Austurlandi betur. Orkan fer í dag um línu sem reist var fyrir um hálfri öld.
En Blöndulína 3 er afar umdeild. Og hefur verið lengi. Nú er komið að endapunkti umhverfismats hennar, og það í annað sinn. Því í fyrra skiptið voru margir þættir gagnrýndir, m.a. af Skipulagsstofnun, sem gaf út álit sitt árið 2013, sem og fleiri aðilum. Af hverju átti ekki að leggja stærri hluta Blöndulínu 3 í jörð? Og af hverju voru ekki fleiri valkostir á línuleiðinni metnir með tilliti til umhverfisáhrifa?
Eigendur jarða sem línan átti að fara um voru enda margir hverjir ekki parhrifnir af áætlununum af ýmsum ástæðum og sögðu lítið sem ekkert samráð við þá haft. Sumir hafa kallað línuna „stóriðjulínu“, segja hana fyrst og fremst koma stóriðjufyrirtækjunum til góða og að tæknilega séð væri vel hægt að leggja stóran hluta hennar í jörð, öfugt við það sem Landsnet hélt og heldur enn fram.
Landsnet hóf að lokum allt umhverfismatsferlið á nýjan leik. Með að eigin sögn meira samráði við landeigendur, fjölda kynninga fyrir íbúa og aðra hagsmunaaðila, fleiri valkostum á línuleiðinni og síðast en ekki síst með greiningu á möguleikum á jarðstrengjum í stað loftlínu á þessum rúmlega hundrað kílómetrum sem eru frá Blöndustöð til Akureyrar.
Í nýrri umhverfismatsskýrslu Landsnets, sem er auglýst til umsagna til 16. maí, kemur fram að aðalvalkostur fyrirtækisins sé að leggja Blöndulínu í loftlínu alla leiðina, um heiðar, fjöll og dali, mela, móa og ræktarlönd í fimm sveitarfélögum; Húnavatnshreppi, Sveitarfélaginu Skagafirði, Akrahreppi, Hörgársveit og Akureyri.
Samkvæmt greiningu Landsnets getur lengd jarðstrengja í Blöndulínu mest verið á bilinu 4-7 kílómetrar af hinni rúmlega 100 kílómetra leið. Að auki er það niðurstaða fyrirtækisins að valkostir með jarðstrengjum hafi „ívið meiri neikvæð umhverfisáhrif en hrein loftlína“.
Þessari niðurstöðu hafna Samtök um náttúruvernd á Norðurlandi algjörlega, jarðrask vegna strengjalagna jafni sig á 1-2 árum, en loftlína, möstur sem henni fylgja og línuvegir, blasi við um ókomna tíð. Þau gagnrýna m.a. Landsnet fyrir að birta ekki niðurstöður um hver tækifæri til jarðstrengslagna nyrðra yrðu ef strengur yrði lagður um Sprengisand áður en Blöndulína 3 yrði reist. „Það er ámælisvert, enda er ljóst að það myndi auka stórum jarðstrengstækifærin.“
Öflug tenging milli landshluta
Í ítarlegri umsögn SUNN er bent á að Landsnet hafi talað fyrir hálendisleið í sínum kerfisáætlunum í mörg ár. Í fyrri kerfisáætlunum Landsnets hafi sagt að strengur á Sprengisandsleið hefði „jákvæð áhrif á mögulega lengd jarðstrengja á Norðurlandi“.
Í núgildandi kerfisáætlun segir að styrkleikar hálendisleiðar séu að um er að ræða stystu leiðina á milli megin orkuöflunarsvæða landsins. Einnig er talið að um lítil óafturkræf áhrif á umhverfi sé að ræða, að með tengingunni náist fram öflug tenging á milli Norður- og Austurlands við virkjanasvæðið við Þjórsá- og Tungnaá, sem aftur auka mun nýtingarmöguleika virkjana og vatnasvæða auk þess sem það mun auka afhendingaröryggi enn frekar. „Hægt verður að nýta tæknilegar lausnir til að vinna gegn umhverfisáhrifum og ef farin verður sú leið að leggja jafnstraumsstreng yfir hálendið mun það auka möguleika til stýringar á kerfinu sem talið er að muni auka nýtingu annara orkumannvirkja.“
Niðurstaða athugunar SUNN er sú að það sé raunhæfur kostur að leggja jarðstreng yfir hálendið, bæði út frá tæknilegum forsendum Landsnets, raforkulögum og lögum um umhverfismat og að við Blöndulínu 3 beri að taka áhrif þessa valkosts inn í myndina. „Fráleitt sé að umhverfismati geti lokið án þess að þessi valkostur sé skoðaður.“ Að halda hálendisleiðinni utan umhverfismats Blöndulínu 3 „er mjög gagnrýnivert og ekkert í umhverfismatsskýrslunni sem rökstyður réttmæti þess. Þess vegna er umhverfismatsskýrslan ekki í samræmi við lög og matsáætlun,“ segir SUNN í umsögn sinni.
Þyrfti ekki að taka langan tíma
Fólk og hópar sem lagst hafa eindregið gegn uppbyggingu Sprengisandsleiðar og raflínumöstrum sem hvoru tveggja myndi skerða víðerni, „gera sér auðvitað grein fyrir að allt öðru máli gegnir um jarðstreng eins og hér er rætt um og óbreytta Sprengisandsleið,“ segir SUNN. Ekki sé líklegt að málsmeðferðartími slíkrar tengingar yrði langur, en byrja þyrfti á matsskyldufyrirspurn til Skipulagsstofnunar, þar sem jarðstrengir eru ekki sjálfkrafa umhverfismatsskyldir. „Ekki verður séð hvernig slíkur jarðstrengur myndi valda togstreitu því honum fylgir ekki aukið aðgengi að hálendinu.“
SUNN segist svo geta „fullvissað“ Skipulagsstofnun um það, að jafnstraumsstrengur meðfram eða undir núverandi Sprengisandsleið „mun samkvæmt nýjustu og bestu vísindalegum gögnum ekki skerða óbyggð víðerni frekar en orðið er, en það myndu loftlínur gera“.
„Meint en ekki metin“ áhrif jarðstrengja
Samtökin segjast ekki komast hjá því að benda á hve hliðholl umhverfismatsskýrslan um Blöndulínu 3 er loftlínum en ýki „meint en ekki metin“ umhverfisáhrif jarðstrengja. Umfjöllun Landsnets um umhverfisáhrif hugsanlegs 5,7 kílómetra jarðstrengs fyrir framan fólkvanginn að Hrauni í Öxnadal er að mati samtakanna „til háborinnar skammar“ því þar er fullyrt án rökstuðnings um neikvæð áhrif á landbúnað. Rökstuðningurinn er hvorki málefnalegur eða sannfærandi, „allt rask er stórlega ýkt“ án vísindalegs grunns. „Það fór ekkert raunverulegt umhverfismat fram á jarðstreng við Hraun í Öxnadal og enginn viðaukanna með umhverfismatsskýslunni fjallaði heldur um þennan valkost, heldur bara loftlínu.“
Niðurstaða umhverfismatsinsskýrslunnar um að engin munur umhverfisáhrifa yrði á landslag, ásýnd, ferðaþjónustu og útivist, hvort lagður yrði jarðstrengur eða loftlína, „vekur sannarlega upp áleitnar spurningar um aðferðarfræði þessa mats yfir höfuð“.
Áhrif loftlína ekki umhverfismetin
Landsnet komist hins vegar að því í skýrslunni að þegar á heildarleiðir valkosta sé litið þá megni „viðkvæmni landslagsheildarinnar Hrauns og áhrifin af sýn á yfir 30 möstur og tilheyrandi línuvegi frá öllum 14 gönguleiðunum í fólkvanginum ekki að hafa nein áhrif í umhverfismati“.
Þessu hafnar SUNN alfarið. Niðurstaða SUNN er að áhrif loftlína hafi ekki verið umhverfismetin með fullnægjandi hætti fyrir fólkvanginum í Hrauni að því er varðar landslag, ásýnd, ferðaþjónustu og útivist. Þá hafi það sem sagt er valkostur um jarðstreng annað hvort alls ekki verið metið eða á alls ófullnægjandi hátt.
Fullyrðing í samantekt umhverfismatsskýrslu þar sem segir að valkostir með jarðstrengjum hafi „ívið meiri neikvæð umhverfisáhrif en hrein loftlína“ er að mati SUNN byggð á svo vilhöllum grunni, að niðurstaðan er algerlega ómarktæk.
Skýrslan „í alvarlegum atriðum“ í ósamræmi við lög
„Niðurstaða SUNN er að umhverfismatsskýrslan sé í svo alvarlegum atriðum í ósamræmi við matsáætlun og lög að öðru leyti, að hún geti ekki orðið grundvöllur lögmæts framkvæmdaleyfis. SUNN telur að ekki verði komist hjá því að beita þeim úrræðum sem tæk eru, þar á meðal vísa skýrslunni frá, láta sjálfstætt mat fara fram á þeim þáttum sem út af standa eða að minnsta kosti afgreiða hana með rökstuddri niðurstöðu Skipulagsstofnunar þar sem skýrt er að hvaða leyti umhverfismat framkvæmdarinnar er verulegum annmörkum háð og getur ekki orðið grundvöllur framkvæmdaleyfa.“