Mörður Áslaugarson, fulltrúi Pírata í stjórn Ríkisútvarpsins, segist ætla að leggja til við stjórnina næst er hún kemur saman að stjórnmálaflokkar sem bjóða fram til Alþingis en eru utan þings fái frest til að greiða fyrir auglýsingar í miðlum RÚV þar til þeir fái styrki úr ríkissjóði.
Ef atkvæðamagn þeirra í kosningum verði hins vegar ónægt til að fá ríkisstyrk, eða undir 2,5 prósentum af heild, verði kostnaðurinn látinn niður falla af hálfu Ríkisútvarpsins.
Þetta sagði Mörður í umræðum á opnum spjallhópi sem Sósíalistaflokkurinn heldur úti á Facebook, en þar var erindi sem framkvæmdastjórn Sósíalistaflokksins sendi á stjórn RÚV í gær til umræðu.
Í erindinu, sem Gunnar Smári Egilsson frambjóðandi flokksins sendi til stjórnar RÚV, auk útvarpsstjóra og auglýsingastjóra RÚV, var óskað eftir því að Sósíalistaflokkurinn fengi að auglýsa frítt í miðlum RÚV.
Þessi beiðni var rökstudd með því að þeir flokkar sem sitji á þingi hefðu á kjörtímabilinu fengið milljarða króna í styrki frá almenningi í landinu, sem sé síðan nýttur til að kaupa auglýsingar, meðal annars í almannaútvarpinu.
Sex stjórnmálaflokkar af þeim átta sem eru á þingi, allir nema Flokkur fólksins og Píratar samþykktu í upphafi kjörtímabils tillögu um að hækka framlög úr ríkissjóði til flokkanna um 127 prósent. Í ár nema framlögin 728 milljónum króna.
Gunnar Smári skrifaði að hætta væri á að erindi nýrra grasrótarframboða almennings myndi „drukkna í auglýsingum þeirra flokka sem hafa skammtað sér þessa styrki“ og fór því fram á ókeypis auglýsingar í fjölmiðlum RÚV.