Loksins hefur danski leikfangaframleiðandinn Lego Group afhjúpað legókubb sem margir hafa lengi beðið eftir: Kubb úr endurunnu plasti. Í tilkynningu frá fyrirtækinu segir að plastið sé búið til úr plastflöskum og að það standist gæða- og öryggiskröfur fyrirtækisins. Eins lítra plastflaska undan gosdrykk eða öðrum drykkjum, nægir til að búa til 10 legókubba (2 x 4).
Aðeins er um frumútgáfu að ræða og einhver bið verður á því að legó úr endurunnu plasti komi almennt á markað. Skýringin á biðinni löngu segir fyrirtækið m.a. þá að það vilji aðeins nota efni sem hafa hlotið vottun lyfjastofnanna beggja vegna Atlantshafsins. Þá segir fyrirtækið áskorun felast í því að búa til ný efni sem standist álagspróf, endingu og gæðaviðmið og uppfylli þar með kröfur neytenda. Enn á eftir að gera frekari prófanir og ef þær ganga vel er stefnt að tilraunaframleiðslu eftir í fyrsta lagi ár.
Lego Group hefur sett sér það markmið að allar framleiðsluvörur fyrirtækisins verði úr „sjálfbærum“ efnum fyrir árið 2030. Nýi legókubburinn er sagður áfangi á þeirri vegferð. Í fyrra ákvað fyrirtækið að hætta að pakka vörum sínum í einnota plast heldur nota pappír utan um þær.
Legókubbar ganga oft á milli barna (og fullorðinna) í fleiri ár. En slitþolið er líka ástæða þess að komist þeir út í náttúruna og að lokum ofan í sjó geta þeir velkst þar um í jafnvel 1.300 ár, að því er fram kom í rannsókn sem gerð var við Plymouth-háskóla í fyrra. Vísindamennirnir rannsökuðu hversu langan tíma það tekur þessi vinsælu leikföng að brotna niður í hafinu. Og þetta var niðurstaðan.
Til rannsóknarinnar notuðu þeir m.a. legókubba sem rekið höfðu á fjörur í suðvesturhluta Englands. Á áratug hafa náttúruverndarsamtök í Cornwall tínt rusl úr fjörunum og flokkað, m.a. legókubba. Þessir veðruðu kubbar voru m.a. vigtaðir og greindir með ýmsum tækjum og tólum og bornir saman við ónotaða kubba frá áttunda og níunda áratugnum. Með þeim hætti og fleiri aðferðum komust vísindamennirnir að því að legókubbur getur þvælst um heimsins höf í 100-1.300 ár áður en hann brotnar niður.
„Legó er eitt vinsælasta leikfang heims og hluti af vinsældunum felst í endingunni,“ segir Andrew Turner, prófessor í umhverfisfræði, sem leiddi rannsóknina. „Legókubbar eru sérstaklega hannaðir til að þola mikið álag í leik svo það ætti ekki að koma sérstaklega á óvart að þótt þeir séu í sjónum í áratugi veðrist þeir ekki mikið.“
Hann segir það engu að síður hafa komið á óvart hversu lítið sjái á kubbum eftir ár og áratugi í söltu vatninu. „Þetta minnir okkur enn og aftur á mikilvægi þess að fólk losi sig við notaða hluti með viðeigandi hætti til að tryggja að þeir valdi ekki vanda í umhverfinu.“