„Kannski ætti Viðreisn að sýna djörfung og dug, ganga hughraust alla leið og sameinast Samfylkingunni. Viðreisn kæmi inn í Samfylkinguna með nokkurn veginn sömu áherslur og þar eru fyrir, en viðbótin væri vottur af nettri og ljúfri hægristefnu, sem þarf líka að finnast í stórum jafnaðarmannaflokki. Verri sameiningar en þessi hafa vissulega átt sér stað í íslenskum stjórnmálum.“
Þetta skrifar Kolbrún Bergþórsdóttir í leiðara sem birtist í Fréttablaðinu í dag. Viðreisn var formlega stofnaður sem flokkur fyrir sex árum, en tilurð flokksins spratt upp úr óánægju með slit á aðildarviðræðum við Evrópusambandið í febrúar 2014. Þá klauf hópur alþjóðasinnaðra sjálfstæðismanna sig frá flokknum og fór að undirbúa nýtt stjórnmálaafl. Hluti hópsins hóf að hittast reglulega til að ræða möguleikann á nýju framboði og annar hópur stofnaði lokaða grúppu á Facebook undir nafninu „Nýi Sjálfstæðisflokkurinn“.
Á meðal þeirra voru fjársterkir áhrifamenn úr íslensku atvinnulífi og víðar sem hafði fylgt Sjálfstæðisflokknum að málum allt sitt líf. Þessi hópur studdi myndarlega við stofnun Viðreisnar með fjárframlögum.
Til þess hóps töldust til að mynda Helgi Magnússon og Sigurður Arngrímsson.
Helgi leiddi kaup á útgáfufélagi Fréttablaðsins, Torgi, sumarið 2019 og er í dag eigandi að nánast öllu hlutafé í því. Hann er stjórnarformaður útgáfufélagsins. Á meðal annarra hluthafa frá upphafi er Sigurður.
Hópurinn hefur sett um 1,5 milljarð króna í kaupverð og hlutafjáraukningar i Torgi frá því að hann tók við rekstrinum en Torg hefur tapað um milljarði króna á þremur árum.
Segir hlutverk Viðreisnar í stjórnmálum óljóst
Tilefni leiðaraskrifa Kolbrúnar í dag er sú ákvörðun Viðreisnar að ganga í bandalag með Samfylkingu og Pírötum við myndum meirihluta í Reykjavíkurborg. Viðreisn fékk 5,2 prósent atkvæða í nýliðnum borgarstjórnarkosningum og einn borgarfulltrúa kjörinn. Flokkurinn tapaði fylgi milli kosninga og missti einn borgarfulltrúa. Einungis tveir flokkar sem náðu kjöri í borgarstjórn fengu færri atkvæði en Viðreisn: Flokkur fólksins og Vinstri græn. Samfylkingin tapaði líka fylgi í borginni, fékk 20,3 prósent atkvæða og fimm borgarfulltrúa, eða tveimur færri en hún hafði áður. Bandalag flokkanna tveggja og Pírata er sem stendur í viðræðum um myndun meirihluta við Framsóknarflokkinn. Sá meirihluti yrði sterkur, með 13 borgarfulltrúa á móti tíu.
Hlutverk Viðreisnar í íslenskum stjórnmálum sé hins vegar orðið óljóst. „Helstu stefnumál þessa litla flokks eru stefnumál Samfylkingarinnar, samanber Evrópumál og sjávarútvegsmál. Það er því ekki skrýtið að Viðreisn skuli nú leita í faðm Samfylkingarinnar. Kannski ætti Viðreisn að sýna djörfung og dug, ganga hughraust alla leið og sameinast Samfylkingunni. Viðreisn kæmi inn í Samfylkinguna með nokkurn veginn sömu áherslur og þar eru fyrir, en viðbótin væri vottur af nettri og ljúfri hægristefnu, sem þarf líka að finnast í stórum jafnaðarmannaflokki. Verri sameiningar en þessi hafa vissulega átt sér stað í íslenskum stjórnmálum.“
Samkvæmt síðustu birtu könnun Gallup um fylgi flokka á landsvísu styðja 13,7 prósent landsmanna Samfylkinguna en 9,6 prósent myndu kjósa Viðreisn ef kosið yrði nú.
Gagnrýndi framsetningu eigins blaðs
Kolbrún skrifaði einnig leiðara 13. maí síðastliðinn, sem vakti líka mikla athygli. Þar gagnrýndi hún skoðanakönnun sem Fréttablaðið hafði sjálft látið framkvæma, og birt á forsíðu sinni. Í leiðaranum stóð: „Skoðanakannanir eru ekki kosningaúrslit. Það var því nokkuð skondið að sjá hvernig fjölmiðlar slengdu því fram sem stórfrétt og leituðu til álitsgjafa þegar Sjálfstæðisflokkurinn fékk 16 prósent í einni könnun – könnun sem flest bendir til að hafi verið lítið marktæk.“
Fréttablaðið fylgdi könnuninni eftir daginn eftir birtingu hennar með viðtali við tvo stjórnmálafræðinga þar sem þeir voru fengnir til að túlka niðurstöður hennar.
Sigmundur Ernir Rúnarsson, ritstjóri Fréttablaðsins, sagði í samtali við mbl.is um málið að skoðanir Kolbrúnar væru stundum vera skrýtnar, en að þær ættu fullan rétt á sér.