Umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra hefur fundað með Landsvirkjun um skerðingu fyrirtækisins á raforkuafhendingu til fiskimjölsverksmiðja og fleiri stórnotenda. Á næstunni verða skoðaðar mögulegar lausnir í samráði við aðila, svo grípa þurfi sem allra minnst til olíunotkunar á loðnuvertíðinni framundan.
Þetta var meðal þess sem ráðherra málaflokksins, Guðlaugur Þór Þórðarson, greindi frá á ríkisstjórnarfundi um stöðu orkumála á föstudag. Í minnisblaði sem lagt var fyrir fundinn og Guðlaugur fór yfir kom m.a. fram að notkun olíu sem varaafl til raforkuframleiðslu gengur þvert á bæði aðgerðaráætlun stjórnvalda í loftslagsmálum sem og aðgerðaráætlun orkustefnu Íslands. Stefna stjórnvalda hafi verið að draga eftir fremsta megni úr notkun olíu sem varaaflgjafa hjá fiskimjölsframleiðendum sem og öðrum raforkunotendum og hefur þróunin verið í rétta átt undanfarin ár. Var í minnisblaðinu, sem Kjarninn fékk afhenta helstu punkta úr, tekið fram að raforkusamningar væru á milli orkusala og kaupanda og um frjálsa samninga á samkeppnismarkaði að ræða, sem stjórnvöld hafi ekki heimildir til að grípa inn í með beinum hætti.
Stefna stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku liggur m.a. fyrir í þingsályktun þess efnis. Styður sú stefna, að því er segir í punktum úr minnisblaði ráðherra, við að nýta flutningskerfið sem best til að hámarka nýtingu á þeirri orku sem fer inn á kerfið og hafa sveigjanleika til að mæta álagspunktum. „Landsnet vinnur samkvæmt stefnunni en stærri framkvæmdir, m.a. varðandi flutning á raforku á milli landshluta, hafa tafist vegna ýmissa þátta.“
Skammtímalausna leitað
Til skamms tíma þarf að mati ráðuneytisins að skoða hvaða leiðir eru færar til að mæta núverandi stöðu á sem bestan hátt. Leitað verður eftir nánari upplýsingum frá Landsneti varðandi hvaða úrbætur á flutningskerfi raforku eru í forgangi til að draga úr flöskuhálsum í kerfinu, sem standa í vegi fyrir að unnt sé að flytja orku á milli landshluta til að mæta tímabundnum álagspunktum eins og nú þegar loðnuvertíð stendur sem hæst. Einnig verður leitað eftir nánari upplýsingum frá Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi varðandi stöðu mála í rafvæðingu fiskimjölbræðslna og til hvaða úrbóta sé hægt að grípa til skemmri tíma til að draga eins og kostur er úr notkun olíu sem varaafl.
Jafnframt verður leitað eftir nánari upplýsingum frá Landsvirkjun varðandi áform fyrirtækisins til skemmri tíma um viðbótar raforkuframleiðslu.
Þá nefndi ráðherrann á ríkisstjórnarfundinum að Orkustofnun kanni möguleika á notkun vistvænna orkugjafa sem geti komið í stað jarðefnaeldsneytis þegar grípa þarf til annarra úrræða en raforku frá vatnsafli eða jarðvarmavirkjunum. Þá séu til fleiri umhverfisvænni orkukostir, svo sem varmadælur sem draga úr raforkunotkun til húshitunar, líkt og gert hefur verið í Vestmannaeyjum.
Kortleggja nauðsynlegar umbætur í flutningskerfi
Í minnisblaði Guðlaugs Þórs kom fram að mikilvægt væri að gera úttekt á stöðu orkumála og orkuþörf, m.a. í ljósi þeirra áskorana sem nú eru uppi. Orkustofnun, Umhverfisstofnun og fleiri aðilar þurfi að koma að því verkefni og fá þurfi fram sem bestar tölulegar upplýsingar og greiningar. Einnig þurfi að skoða og kortleggja nauðsynlegar umbætur í flutningskerfinu og möguleika til að flytja orku á milli landshluta til að mæta álagspunktum á ólíkum stöðum.