Lestur Fréttablaðsins hefur dregist saman um 15 prósent frá því að nýir eigendur komu að honum um mitt ár 2019. Þá lásu 38,4 prósent landsmanna blaðið samkvæmt mælingum Gallup á lestri prentmiðla en í síðasta mánuði var það hlutfall komið niður í 32,6 prósent, og hefur aldrei verið lægra. Lestur á Fréttablaðinu hefur helmingast frá vormánuðum 2010.
Þegar horft er á lesturinn hjá landsmönnum í aldurshópnum 18-49 ára hefur hann dregist saman um 20 prósent frá því að nýju eigendurnir tóku keyptu sig fyrst inn. Hann er nú 23 prósent í þeim aldurshópi.
Í júní 2019 keypti athafnamaðurinn Helgi Magnússon helmingshlut í útgáfufélagi Fréttablaðsins, Torgi. Kaupverðið var trúnaðarmál en í október keyptu Helgi og samstarfsmenn hans, meðal annars ritstjórinn Jón Þórisson, hinn helminginn í útgáfunni auk þess sem sjónvarpsstöðinni Hringbraut var rennt inn í reksturinn. Aftur var kaupverðið sagt trúnaðarmál. Eignarhaldið á Torgi hefur verið í félagi sem heitir HFB-77 ehf. Það félag keypti hlutabréf fyrir 592,5 milljónir króna í fyrra. Torg er eina þekkta eign félagsins og var keypt á síðasta ári. Í desember 2020 var svo greint frá því að Helgi hefði keypt nýtt hlutafé í Torgi fyrir 600 milljónir króna.
Miðað við þær upplýsingar má ætla að Helgi og viðskiptafélagar hans hafi sett um 1,2 milljarð króna í að annars vegar kaupa Torg og hins vegar að styrkja rekstur útgáfufélagsins.
Færri útgáfudagar og minna upplag
Þegar nýju eigendurnir komu að Fréttablaðinu var því dreift sex daga vikunnar í 85 þúsund eintökum ókeypis á heimili á höfuðborgarsvæðinu og Akureyri. Í fyrra var ákveðið að hætta útgáfu mánudagsblað og fækka þannig útgáfudögum um einn. Dreifingin hefur auk þess dregist saman úr 85 í 80 þúsund eintök á dag.
Í viðhorfskönnun sem Reykjavíkurborg og SORPU bs. létu gera um flokkun og endurvinnslu, í aðdraganda þess að gripið var til þess ráðast að dreifa miðunum, kom í ljós að um 70 prósent af svarendum afþökkuðu ekki fjölpóst en gátu mögulega eða mjög vel hugsað sér að gera það.
Tap Torgs á árinu 2019 var 212 milljónir króna en þar var búið að reikna með 50 milljóna króna styrk út ríkissjóði til einkarekinna fjölmiðla. Þeir styrkir voru aldrei greiddir út, enda frumvarp um þá ekki samþykkt. Hins vegar voru greiddar út sérstakir neyðarstyrkir vegna kórónuveirufaraldursins sem á endanum skiluðu Torgi 64 milljónum króna.
Undir tíu prósent hjá undir fimmtugu í fyrsta sinn
Lestur Morgunblaðsins hefur heldur aldrei mælst jafn lítill og hann var í febrúar 2021. Þá sögðust 20,1 prósent landsmanna hafa lesið blaðið, en vert er að taka það fram að Morgunblaðið er fríblað einu sinni í viku, á fimmtudögum, þegar það er í svokallaðri aldreifinu. Þá fær fjöldi manns sem er ekki áskrifandi blaðið óumbeðið inn um lúguna hjá sér. Lestur Morgunblaðsins hjá öllum aldurshópum hefur helmingast frá vorinu 2009, þegar hann var 40 prósent.
Samdrátturinn er mestur í aldurshópnum 18-49 ára. Þar segjast nú, í fyrsta sinn frá því að mælingar hófust, undir tíu prósent landsmanna lesa Morgunblaðið. í byrjun árs 2009, þegar nýir eigendur komu að rekstri blaðsins sem réðu svo núverandi ritstjóra (Davíð Oddsson og Harald Johannessen) þess til starfa, var Morgunblaðið lesið af þriðjungi allra landsmanna á þessum aldri.
Tap Árvakurs, útgáfufélags Morgunblaðsins og fleiri miðla, á þeim áratug sem leið frá því að nýir eigendur tóku yfir móðurfélagið Þórsmörk á árinu 2009, og fram til loka árs 2019, var samtals um 2,5 milljörðum króna.
Tvö prósent undir fimmtugu lesa DV
Hin tvö blöðin sem mæld eru í könnun Gallup eru vikublöð: DV og Viðskiptablaðið. Heildarlestur DV, hjá öllum mældum aldurshópum, mælist nú 2,9 prósent og 5,1 prósent hjá Viðskiptablaðinu.
Af landsmönnum undir fimmtugu lesa 3,8 prósent Viðskiptablaðið og 2,0 prósent segjast lesa DV. Lestur Viðskiptablaðsins hjá aldurshópnum hefur dregist saman um 47 prósent á tveimur árum og lestur DV um rúmlega 70 prósent.
Auk ofangreindra er Stundin enn send til áskrifenda í pappírsformi og nokkur minni héraðsblöð koma enn út í því formi. Ekkert þeirra er þó í mælingum hjá Gallup.
Bændablaðið er enn prentað og kaupir mælingar hjá Gallup í október, nóvember og desember á hverju ári. Í lok árs 2019 sögðust 29,2 prósent landsmanna sjá Bændablaðið og hafði lestur þess haldist stöðugur undanfarin ár.
Í desember 2020 mældist hann hins vegar 24,3 prósent og hafði því fallið um tæp 17 prósent á milli ára. Hjá fólki undir fimmtugu mældist lestur Bændablaðsins 14,4 prósent í lok síðasta árs.