Flestir lífeyrissjóðir landsins hafa ákveðið að mynda sameiginlega vettvang til að greina stöðu sjóðanna vegna ÍL-sjóðs. Hver og einn sjóður mun þó á endanum taka sjálfstæða ákvörðun um hvað hann vill gera í málinu.
Í tilkynningu segir að frá þessu hafi verið greint á fjölmennum upplýsingafundi sem flestir lífeyrissjóðir landsins mættu til í dag. Þar kom fram að einuhugur væri um samstarf vegna greiningu stöðunnar vegna þessa máls, enda gríðarlegir hagsmunir í húfi fyrir íslenska sjóðfélaga. „Þegar hefur verið gengið frá ráðningu lögfræðistofunnar Logos sem lögfræðilegs ráðgjafa lífeyrissjóðanna, unnið er að því að greina lögfræðileg álitamál, hagsmuni sjóðanna – og þar með almennings í landinu – og frekari framgangi málsins. Þá hafa fjárhagslegir ráðgjafar jafnframt verið ráðnir.“
Vill að lífeyrissjóðirnir taki höggið
ÍL-sjóður varð til á grundvelli laga sem samþykkt voru árið 2019, og skiptu Íbúðalánasjóði upp í tvennt. Hluti hans, sá sem snýr að fjármögnun á félagslegri uppbyggingu á húsnæði, færðist í nýja stofnun, Húsnæðis- og mannvirkjastofnun. Skuldir og eignir vegna íbúðalána á almennum markaði, sem rekja má að mestu til skuldabréfaútgáfu á árinu 2004, voru sett í ÍL-sjóð. Skuldabréfin, sem eru með gjalddaga til 2044, eru ekki uppgreiðanleg en lánin sem sjóðurinn veitti eru það hins vegar.
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, greindi frá því í síðasta mánuði að hann vildi semja við kröfuhafa ÍL-sjóðs um að þeir samþykki að gefa eftir hluta eigna sinna. Lífeyrissjóðir eiga um 75-80 prósent allra skuldabréfa sem útgefin eru af ÍL-sjóði og þeir þurfa því að taka mesta höggið, eigi tillaga Bjarna að ganga upp. Takist ekki að semja ætlar Bjarni að leggja fram frumvarp fyrir árslok sem felur í sér að ÍL-sjóði verði slitið á næsta ári, skuldir hans látnar gjaldfalla og með því myndi einföld ríkisábyrgð virkjast.
Pólitísk ákvörðun sem fór illa
Viðbrögð þeirra sem gæta hagsmuna lífeyrissjóða landsins við þeirri hótun fjármála- og efnahagsráðherra að lög verði sett sem muni rýra eignir sjóðanna um meira en 100 milljarða króna, samþykki þeir ekki að gefa eftir sambærilega upphæð í frjálsum samningum um slit ÍL-sjóðs, hafa verið hörð.
Þeirra mat er að verið sé að reyna að knýja lífeyrisþega til að borga fyrir pólitíska ákvörðun sem fór illa, og samhliða rétta við skuldastöðu ríkissjóðs á hátt sem líti betur út fyrir núverandi ráðamenn. Kjarninn hefur fjallað ítarlega um ÍL-sjóð. Hægt er að lesa þá umfjöllun alla hér til hliðar.
Tapið sem eigendur bréfa í ÍL-sjóði telja sig verða fyrir kemur til að þegar bréfin, sem eru á gjalddaga allt til ársins 2044, voru verðlögð miðað við 3,75 prósent verðtryggða vexti út líftíma þeirra. Á heimasíðu Gildis, eins stærsta lífeyrissjóðs landsins, segir að ef bréfin væru greidd upp miðað við stöðu þeirra í dag væri hægt að ávaxta þá fjármuni á um 1,7 til 1,8 prósent vöxtum með kaupum á verðtryggðum ríkisskuldabréfum. Tapið felst í muninum á þessu.