Hildur Sólveig Sigurðarsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokks í bæjarstjórn Vestmannaeyja, hvetur stjórnvöld til þess að stíga „varlega og ígrundað til jarðar“ varðandi frelsistakmarkanir þegna landsins, því þær séu ákveðin ógn í sjálfu sér.
Bæjarfulltrúinn líkir afléttingum sóttvarnaráðstafana og takmörkunum á víxl við pyntingar á stríðsföngum, í grein sem hún ritar á Vísi í dag, undir fyrirsögninni „Þjóðhátíð er menningararfur og stolt Vestmannaeyinga“.
Þar gagnrýnir Hildur Sólveig umræðu um Þjóðhátíð Vestmannaeyja, sem stefnt er að því að halda um Verslunarmannahelgina. Hún segir í greininni að við hvert ár sem hátíðin sé lögð niður verði erfiðara að viðhalda þeirri hefð að halda hana og minnir á að um helstu fjáröflun ÍBV íþróttafélags sé að ræða.
Örlög Þjóðhátíðar í hendi stjórnvalda
Eins og fram hefur komið í dag ætlar Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir að senda minnisblað með tillögum að hertum aðgerðum innanlands til stjórnvalda í dag og mun ríkisstjórnin funda um þær á morgun. Skiptar skoðanir hafa verið settar fram víða í dag um það hvort þörf sé á því að herða takmarkanir í samfélaginu með einhverjum hætti, í ljósi útbreiddrar bólusetningar á Íslandi.
Oddvita sjálfstæðismanna í Vestmannaeyjum virðist hreint ekki lítast á að hart verði stigið til jarðar, enda myndi slíkt stefna Þjóðhátíð í Eyjum í uppnám.
Hildur grípur til líkingamáls til þess að færa rök fyrir skaðlegum áhrifum þess að grípa aftur til íþyngjandi takmarkana í samfélaginu.
„Sóttvarnartakmarkanir og afléttingar á víxl líkjast að vissu leyti ákveðnum pyntingaraðferðum sem nýttar hafa verið gegn stríðsföngum þar sem súrefni til fangans er takmarkað þar til hann getur vart meir en fær svo að anda, fær von um líf (og tækifæri til að leysa frá skjóðunni), loks þegar ljósið við enda ganganna er gefið er það svo jafnharðan slökkt aftur og vonin hverfur. Slíkar aðgerðir, að veita fólki frelsi bara til að taka það aftur jafnharðan hljóta að taka sinn toll af almenningi sem heilbrigðiskerfið verður eflaust í langan tíma að vinna úr,“ skrifar Hildur Sólveig í grein sinni á Vísi.
Kallar eftir hófsemi
Þar minnir hún einnig á að rúmlega 85 prósent þeirra sem eru 16 ára og eldri á Íslandi hafa verið fullbólusett og segir að bólusetningarnar dragi verulega úr dánartíðni vegna COVID-19. Takmarkanir þurfi fyrst og fremst að taka mið af stöðu og afkastagetu heilbrigðisþjónustunnar.
Í niðurlagi greinarinnar kallar bæjarfulltrúinn eftir „hófsemi í umræðu og ákvörðunum“, bæði um Þjóðhátíð og sóttvarnaráðstafanir.