Í sumar auglýsti Mosfellsbær breytingar á deiliskipulagi lóða við Bjarkarholt 22-30, þar sem stendur til að auka byggingarmagn allnokkuð og fjölga áformuðum íbúðum, úr 44 almennum íbúðum í fjölbýlishúsum yfir í 150 minni íbúðir sem sérstaklega eru hugsaðar fyrir aldraða. Einnig er legu miðbæjargarðs, sem á að verða innan lóðarinnar, breytt.
Skipulagsyfirvöld í Mosfellsbæ eru þessa dagana að vinna úr athugasemdum sem bárust við kynntar breytingar á deiliskipulaginu, en þær sem bárust frá íbúum bæjarins voru flestar neikvæðar og lúta að því að útsýni þeirra sem búa í nýlegum fjölbýlishúsum í götunni muni skerðast, bílaumferð í Bjarkarholtinu verði óbærileg og bílastæði á hinni nýju lóð verði of fá, þrátt fyrir að gert sé ráð fyrir alls 150 stæðum, eða einu á hverja íbúð.
„Um þetta deiliskipulag mun aldrei nást sátt, það held ég hafi komið greinilega fram á kynningarfundinum,“ sagði í umsögn stjórnar húsfélagsins í Bjarkarholti 8-20, en umræddur kynningarfundur fór fram í júnímánuði.
„Við viljum ekki búa í borg“
Tveir íbúar í húsinu Bjarkarholti 27 hafa verulegar áhyggjur af bílastæðamálum og segja stæðin nú þegar af skornum skammti, jafnvel svo ama valdi. „Íbúar hafa vart bílastæði fyrir eigin bíla og hvað þá ef gestir koma í heimsókn. Þó svo að í nýju deiliskipulagi sé reiknað með einu bílastæði pr/íbúð í bílakjallara, þá er slíkt ekki nóg. Bæði eiga sumir tvo bíla og einnig eru gestir og þeir sem erindi eiga í fjölbýlishúsin í verulegri klípu. Mjög takmarkaður fjöldi af bílastæðum er reiknað með í þessu skipulagi og þýðir það einfaldlega að álagið eykst á þegar yfirhlaðið ástand á bílastæðum við götuna. Það er með öllu óviðunandi,“ segir í umsögn þeirra.
Íbúarnir benda einnig á að það sé verslunarkjarni neðar í götunni, þar sem m.a. Krónan og Bónus hafa verslanir, og segja bílastæðin þar af skornum skammti, mikið álag sé á ákveðnum tímum, eins og allir Mosfellingar þekki. „Þetta á endanlega eftir að springa ef þessar áætlanir koma til með að verða að raunveruleika. Fyrirséð er stöðugt umferðaröngþveiti og mikill ami, ekki bara nærliggjandi íbúa heldur almenna notendur þessara þjónustu,“ segir í umsögn þessara íbúa.
Þau gagnrýna einnig, eins og sumir aðrir sem sendu inn athugasemdir, umfang og gerð þeirra bygginga sem nýtt deiliskipulag myndi opna á. Deiliskipulagstillagan gerir ráð fyrir því að nýr miðbæjargarður verði rammaður inn af stórri byggingu sem mætti verða fimm hæðir þar sem hún er hæst, þó með inndreginni efstu hæð. Þessi bygging myndi samkvæmt skipulaginu liggja samsíða tveimur öðrum byggingum sem fyrirhugað er að rísi á svæðinu, og verða samtengd þeim. Íbúar gagnrýna að fyrirhugað sé að láta húsin standa samsíða án uppbrots og nefna að þarna verði 225 metra langur samfelldur „veggur“ út að jaðri lóðarinnar.
Segja íbúarnir einnig vegið að skrúðgarðinum eftir fögur fyrirheit. „Nú stendur eftir að það er búið að minnka hann enn meira og hann mun standa í skugga langs byggingaklumps sem minnir á ”Game of thrones vegg”. Við viljum minna ykkur kæru fulltrúar okkar á eina einfalda staðreynd. Við viljum búa í Mosfellsbæ. Við viljum ekki búa í borg. Töfrarnir sem fylgja því að búa í bæjarfélagi, þar sem önnur lífsgildi eru í fyrirúmi en í hörðustu borgarkjörnum, er það sem við sækjumst eftir,“ segja íbúarnir í umsögn sinni.
Þar kemur einnig fram að þau útiloki ekki að leita réttar síns fyrir dómstólum, vegna skerðingar á útsýni, sem þau segja að hafi verið lykilþátt í því að þau fjárfestu í eign sinni í Bjarkarholtinu.
„Áfall“ hve mikið til standi að breyta skipulagi frá 2010
Hjón sem búa í húsi við Bjarkarholt 20 deila flestum þessum áhyggjum. Þau lýsa því í umsögn sinni að þau hafi fest kaup á íbúð sinni árið 2017, nokkuð vel meðvituð um það deiliskipulag sem er í gildi á lóðinni við Bjarkarholtið.
Benda íbúarnir á að skipulagið sem er í gildi sé frá 2010, og því hafi að þeirra mati verið nokkuð ljóst hvernig menn vildu að Mosfellsbær liti út. „Það var því áfall að sjá, fyrir tilviljun, nýju deiliskipulagstillöguna sem birtist á vef Mosfellsbæjar 12. maí,“ skrifa íbúarnir, sem telja hæð og umfang fyrirhugaðra bygginga ekki ásættanlega.
Óeðlilega stórum hópi eldri borgara stefnt á sama blettinn
Eigendur íbúðar í Bjarkarholti 18 segjast hafa keypt íbúð sína vegna útsýnisins og horfi á það þannig að bygging nýrra húsa sem skerði útsýnið yrði „bein eignaupptaka“, þar sem hún hafi áhrif á verðmæti eignar þeirra til framtíðar.
Þau lýsa einnig áhyggjum af bílastæðamálum, umfangi fyrirhugaðra bygginga en einnig því að með því að fjölga íbúðum og stefna að því að hafa þær sérstaklega fyrir aldraða sé verið að stefna of mörgum öldruðum á sama blettinn í miðbæ Mosfellsbæjar, en á næstu lóð sé þegar stefnt að byggingu 100 þjónustuíbúða, auk þess sem öryggisíbúðir Eirhamra séu í næsta nágrenni.
Vísað til frekari úrvinnslu
Fjallað var um skipulagstillöguna og athugasemdir við hana á fundi skipulagsnefndar Mosfellsbæjar 23. september. Þar var tekin ákvörðun um að vísa henni til frekari úrvinnslu hjá skipulagsfulltrúa og umhverfissviði bæjarins.