Lilja Dögg Stefánsdóttir, sem áður starfaði sem markaðsstjóri Pfizer hjá Icepharma, hefur verið ráðin framkvæmdastjóri SagaMedica og hefur störf 1. nóvember næstkomandi. Lilja tekur við starfinu af Perlu Björk Egilsdóttur sem hefur leitt starf félagsins frá árinu 2013.
Lilja segir í tilkynningu að nýtt starf sé mikil áskorun enda sé alþjóðlegur markaður fyrir náttúrulyf og aðrar náttúruvörur í örum vexti og að félagið muni nú leggja aukna áherslu á markaðssetningu erlendis þar sem vörur félagsins hafi nú þegar náð góðri fótfestu á mörkuðum innanlands. „SagaMedica hefur frá stofnun verið er leiðandi fyrirtæki í íslenskum náttúruvöruiðnaði en sérstaða félagsins felst einkum í nýtingu íslensku hvannarinnar í framleiðslu sinni. SagaPro og Voxis eru þær vörur sem hafa náð bestri fótfestu á íslenskum markaði auk þess sem farið hefur verið af stað með markaðsetningu á vörum félagsins á erlendum mörkuðum,“ segir í tilkynningu frá félaginu.
Nú stendur til að stórauka áherslu á markaðssetningu erlendis og í því sambandi eru gerðar breytingar á skipulagi félagsins. Þórður Magnússon, stjórnarformaður SagaMedica, segir að á undanförnum árum hafi áherslan fyrst og fremst verið á að efla tæknilega hæfni fyrirtækisins, vöruþróun og staðsetningu vörunnar á markaði.
Nú séu kaflaskil í sögu fyrirtækisins þar sem aukin áhersla verður á vöxt og uppbyggingu dreifileiða auk sölu og markaðssetningar erlendis. „SagaMedica hefur náð góðum árangri í vöruþróun og fyrir liggur að vörur fyrirtækisins geta bætt lífsgæði milljóna manna um allan heim. Það liggur fyrir að við ætlum okkur stóra hluti og mikla uppbyggingu fyrirtækisins,“ segir Þórður.
Lilja Dögg hefur undanfarin tvö ár verið markaðsstjóri lyfjafyrirtækisins Pfizer á Íslandi. Áður starfaði Lilja hjá Actavis í tæp ellefu ár og var síðast búsett í Sviss þar hún starfaði sem forstöðumaður sölu- og markaðssviðs með ábyrgð á Mið-Austurlöndum, Afríku og Asíu. Þá hefur Lilja einnig gegnt stöðu sölu- og markaðsstjóra Actavis á Íslandi. „Ég hlakka til að takast á við nýjar áskoranir hjá SagaMedica og að fá tækifæri til að fylgja eftir þeirri nýsköpunarvinnu sem þar hefur verið unnin. SagaMedica er áhugavert og spennandi fyrirtæki sem er frumkvöðull á sviði rannsókna, þróunar og framleiðslu náttúruvara úr íslenskum jurtum. SagaPro, ein vinsælasta vara SagaMedica, er til að mynda fyrsta íslenska náttúruvaran sem gengist hefur undir klíníska rannsókn,“ segir Lilja Dögg.
Perla Björk Egilsdóttir, núverandi framkvæmdastjóri hefur verið hjá félaginu frá 2008, fyrst sem markaðsstjóri og frá 2013 sem framkvæmdastjóri. Hún gegndi leiðandi hlutverki í tengslum við klíníska rannsókn á SagaPro. „Við þökkum Perlu innilega fyrir samstarfið á liðnum árum. Undir hennar stjórn hefur fyrirtækið tekið stakkaskiptum og fyrstu skref hafa verið stigin á mikilvægum mörkuðum eins og í Bandaríkjunum, Kanada, Svíþjóð og Finnlandi,“ segir Þórður.