Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra tjáði sig í fyrsta sinn um niðurstöðu Héraðsdóms Reykjavíkur í máli sínu gegn Hafdísi Helgu Ólafsdóttur, skrifstofustjóra í forsætisráðuneytinu, er hún gekk út af ríkisstjórnarfundi í dag.
Fyrir utan ráðherrabústaðinn við Tjarnargötu greip fréttamaður Stöðvar 2 og Vísis hana í viðtal. Lilja sagði að í þeim lögfræðiálitum sem hún hefði aflað sér áður en hún tók þá ákvörðun að fara með málið fyrir dóm í sumar hefði komið fram að kærunefnd jafnréttismála hefði ekki rökstutt með fullnægjandi hætti hvernig kæranda var mismunað á grundvelli kynferðis.
„Þess vegna tók ég þessa ákvörðun,“ sagði Lilja og bætti því við að efnislega byggði dómur Héraðsdóms Reykjavíkur á úrskurði kærunefndar jafnréttismála. „Ég skoðaði það mjög gaumgæfilega á sínum tíma hvað ætti að gera, leitaði til sérfræðinga á sviðinu og þetta varð niðurstaðan,“ sagði Lilja í samtali við fréttamann Vísis.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur var kveðinn upp kl. 11:30 á föstudaginn. Lilja veitti fjölmiðlum ekki viðtöl þann daginn. Klukkan 18:13 á föstudag birtist frétt á vef RÚV um Lilja hefði tekið ákvörðun um að áfrýja málinu til Landsréttar. Þar sagði að ráðherra hefði ákveðið að veita ekki nein viðtöl um málið á meðan því ferli stæði, en búast má við því að áfrýjunarferlið í Landsrétti taki marga mánuði.
Lilja segir að ákvörðunin um að áfrýja niðurstöðunni hafi verið ígrunduð.
„Við vorum búin að skoða hana mjög vel, ég var búin að eiga fund með settum ríkislögmanni. Þetta er auðvitað ekki léttvæg ákvörðun, svo ég taki það fram. Hins vegar var það svo að ég var búin að fá þessi álit á sínum tíma og þannig er þessi ákvörðun tekin,“ sagði Lilja Alfreðsdóttir, við Vísi.
Lögfræðiálitin eru leyndarmál
Kjarninn reyndi að fá lögfræðiálitin sem þessi afstaða Lilju byggir á afhent frá mennta- og menningarmálaráðuneytinu í sumar, um leið og ljóst varð að málið stefndi fyrir dómstóla. Þeirri beiðni var synjað.
Úrskurðarnefnd upplýsingamála staðfesti synjun ráðuneytisins á gagnabeiðni Kjarnans í lok sumars, en niðurstaðan var sú að bréfaskipti hins opinbera við sérfróða aðila í tengslum við réttarágreining eða til afnota í dómsmáli eða við athugun á því hvort slíkt mál skuli höfðað skuli undanþegin upplýsingalögum.