Úthlutun jöfnunarþingsæta á nýju þingi mun, nema Alþingi komist að einhverri annarri niðurstöðu, verða í samræmi við niðurstöður endurtalningar atkvæða í Norðvesturkjördæmi, sem setti mikla jöfnunarmannahringekju af stað á sunnudaginn.
Þetta má ráða af orðum Kristínar Edwald, formanns landskjörstjórnar, sem segir að landskjörstjórn hafi enga heimild til þess að óska eftir endurtalningu atkvæða í einstaka kjördæmum. „Við getum ekki tekið þá ákvörðun,“ segir Kristín og bætir við við að ákvarðanir um slíkt séu alfarið á ábyrgð yfirkjörstjórna.
Hún staðfestir að í morgun hafi landskjörstjórn sent yfirkjörstjórnum í öllum kjördæmum lista yfir þá þingmenn sem eru inni í hverju kjördæmi á grunni þessara niðurstaðna. Nú fara yfirkjörstjórnirnar yfir listana og færa inn breytt atkvæði – útstrikanir – og athuga hvort þær hafi einhver áhrif.
Landskjörstjórn fundar í dag
Stefnt er á að landskjörstjórn fundi kl. 16:30 í dag, en þá ætti kjörstjórnin að vera búin að fá í hendur greinargerðir yfirkjörstjórna vegna talningar atkvæða í bæði Suðurkjördæmi og Norðvesturkjördæmi, sem réðust bæði í endurtalningu atkvæða.
Í samtali við Kjarnann sagði Laufey Helga Guðmundsdóttir, ritstjóri og ritari landskjörstjórnar, að búist sé við báðum skýrslum síðar í dag.
Öll atkvæði voru talin á ný í Suðurkjördæmi í gærkvöldi og þar kom niðurstaðan heim og saman við þær lokatölur sem gefnar voru út til fjölmiðla á sunnudagsmorgun. Engu skeikaði.
Eins og frægt hefur orðið átti hið sama ekki við í Norðvesturkjördæmi, en þar voru skekkjur í fjölda atkvæða hvers einasta flokks og einnig hvað auða og ógilda seðla varðar, á milli talna sem voru kynntar fjölmiðlum annars vegar á sunnudagsmorgun og hins vegar síðdegis þann sama dag, eftir að ákveðið hafði verið að telja á ný. Fram hefur komið að meðferð kjörgagna á talningarstað þeirra í Borgarnesi var ekki í samræmi við lög.
Skýrsluskilin í Norðvesturkjördæmi hafa dregist, en yfirkjörstjórnin í kjördæminu fékk frest til að skila vegna persónulegra ástæðna formann yfirkjörstjórnarinnar. Samkvæmt heimildum Kjarnans var hann við jarðarför í gær og gat yfirkjörstjórnin því ekki komið saman til fundar fyrr en í gærkvöldi til þess að ljúka við greinargerð sína.
Kærur til lögreglu og Alþingis
Tveir frambjóðendur til Alþingis hafa þegar boðað að framkvæmdin í Norðvesturkjördæmi verði kærð.
Karl Gauti Hjaltason frambjóðandi Miðflokksins í Suðvesturkjördæmi sagðist í gær ætla að beina kæru til lögreglu til að fá rannsókn á meðferð kjörgagna í kjördæminu og Magnús Davíð Norðdahl frambjóðandi Pírata í Norðvesturkjördæmi segist ætla sér að leggja fram kæru til kjörbréfanefndar Alþingis, sem er eini aðilinn sem getur ógilt þær niðurstöður sem yfirkjörstjórn Norðvesturkjördæmis hefur sett fram.
Fimm inn – fimm út
Þær mannabreytingar sem urðu þegar skekkjan í talningunni í Borgarnesi kom í ljós á sunnudaginn snerta jöfnunarþingmenn fimm flokka.
Hjá Viðreisn verður Guðmundur Gunnarsson ekki þingmaður Norðvesturkjördæmis, heldur verður Guðbrandur Einarsson þingmaður Suðurkjördæmis. Miðflokksmaðurinn Karl Gauti Hjaltason verður ekki þingmaður Suðvesturkjördæmis og í stað hans kemur Bergþór Ólason inn sem þingmaður Norðvesturkjördæmis.
Rósa Björk Brynjólfsdóttir þingmaður Samfylkingar fer ekki inn á þing fyrir Reykjavík suður, heldur verður Jóhann Páll Jóhannsson þingmaður Reykjavíkurkjördæmis norður. Hjá Pírötum verður Lenya Rún Taha Karim ekki þingmaður í Reykjavík norður, heldur verður Gísli Rafn Ólafsson þingmaður Suðvesturkjördæmis.
Hjá Vinstri grænum verður Orri Páll Jóhannsson síðan þingmaður Reykjavíkur norður, en Hólmfríður Árnadóttir oddviti flokksins í Suðurkjördæmi fer ekki inn á þing.
Fréttin hefur verið uppfærð.