Í skoðun er að ráða erlenda hjúkrunarfræðinga til starfa á Íslandi, komi til uppsagna allra þeirra hjúkrunarfræðinga sem sagt hafa upp störfum. Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra staðfesti þetta í kvöldfréttum RÚV. Hann sagði erlenda hjúkrunarfræðinga einn af kostunum sem eru í skoðun, skoða þurfi alla möguleika.
Eins og greint hefur verið frá í dag kolfelldu hjúkrunarfræðingar nýgerðan kjarasamning með 88,4 prósentum. Ólafur G. Skúlason, formaður Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga, sagði í samtali við Kjarnann í dag að vilji félagsins sé að setjast aftur að samningaborðinu. Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra segir það hins vegar ekki kost í stöðunni. Nú muni gerðardómur ákveði kjör þeirra.
Í gær var greint frá því að yfir 300 hafa sagt upp störfum á Landspítalanum. Bjarni sagði við RÚV að vissulega væru yfirvofandi uppsagnir áhyggjuefni en að ef þær tækju gildi yrði að auglýsa stöðurnar og manna þær. Kristján staðfesti svo sem fyrr segir að mögulega verði leitað út fyrir landsteinanna, þótt hann vonaðist til þess að úr leystist og ekki kæmi til þess.
Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, formaður velferðarnefndar Alþingis, hefur óskað eftir því að Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra, Birgir Jakobsson landlæknir og Páll Matthíasson forstjóri Landspítalans, verði boðaðir á fund velferðarnefndar vegna stöðunnar til að greina frá „áætlunum og viðbrögðum stjórnvalda til að koma í veg fyrir enn frekari áföll og skaða í heilbrigðiskerfinu,“ að því er hún segir á Facebook-síðu sinni.
Það er mikil óvissa í kjaramálum heilbrigðisstétta. Nú þegar hafa um 300 manns á Landspítala sagt upp og það stefnir í...Posted by Sigríður Ingibjörg Ingadóttir on Wednesday, July 15, 2015