Á árunum 2015-2020 var beint framlag ríkissjóðs vegna kostnaðar við stjórn, umsjón, rannsóknir og eftirlit með fiskveiðum og fiskvinnslu á bilinu 3,65 til 4,5 milljarðar á ári. Það er fyrir utan þann kostnað sem fer samkvæmt bókhaldi Landhelgisgæslunnar í eftirlit með fiskveiðum, en í rekstraráætlun Gæslunnar fyrir árið 2021 er gert ráð fyrir að meira en 1,6 milljarður króna fari í að sinna fiskveiðieftirliti.
Því má reikna með því að bein útgjöld ríkissjóðs vegna fiskveiðieftirlits- og rannsókna nemi um eða yfir 6 milljörðum króna árið 2021. Kostnaður við fiskveiðieftirlit og -rannsóknir á Íslandi er enn hærri, en þær stofnanir sem sinna eftirliti og rannsóknum afla sér sjálfar nokkurra rekstrartekna. Á árunum 2015-2020 námu sjálfsaflatekjur undirstofnana atvinnuvegaráðuneytisins 1,1 til 1,6 milljörðum króna á ári.
Meðalheildarútgjöld stofnana annarra en Landhelgisgæslunnar við fiskveiðieftirlit- og rannsóknir nam um því um 5,5 milljörðum á ári að meðaltali á árunum 2015-2020. Að viðbættum kostnaði við fiskveiðieftirlit Landhelgisgæslunnar má ætla að eftirlit- og rannsóknir með sjávarútvegi kosti árlega í heild um 7 milljarða króna.
Þetta má lesa út úr svörum sem fjárlaganefnd Alþingis hefur fengið frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu og dómsmálaráðuneytinu, en Björn Leví Gunnarsson þingmaður Pírata vekur athygli á þeim á Facebook.
Björn Leví segir við Kjarnann að óskað hafi verið eftir þessum tölum frá ráðuneytunum tveimur þegar vinna við fjárlagagerð stóð yfir síðasta haust og hann var að velta fyrir sér kostnaði ríkisins við að sinna lögbundnum verkefnum sínum.
„Það virtist vera auðvelt að taka þetta saman og nú er þetta komið fram,“ segir Björn Leví. Hann segir að nú sé kominn verðmiði á heildarkostnað ríkisins við eftirlit með fiskveiðum – og bendir á að samkvæmt lögum um veiðigjöld eigi þau bæði að mæta þeim kostnaði og veita þjóðinni hlutdeild í arðinum af sjávarútvegsauðlindinni.
„Veiðigjald er lagt á í þeim tilgangi að mæta kostnaði ríkisins við rannsóknir, stjórn, eftirlit og umsjón með fiskveiðum og fiskvinnslu og til að tryggja þjóðinni í heild beina og sýnilega hlutdeild í afkomu við veiðar á nytjastofnum sjávar,“ segir í 1. gr. laga um veiðigjald frá árinu 2018.
Veiðigjöld mæta ekki útgjöldum við rannsóknir og eftirlit öll árin
Samkvæmt samantekt frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu greiddu sjávarútvegsfyrirtæki rúma 7,4 milljarða króna í veiðigjöld að meðaltali á árunum 2015-2020, þegar upphæðirnar eru færðar yfir á verðlag ársins 2020.
Sum árin ná veiðigjöldin ekki að mæta heildarútgjöldum ríkissjóðs vegna rannsókna og eftirlits með fiskveiðum og fiskvinnslu, en önnur ár eru þau töluvert hærri en heildarútgjöldin. Björn Leví bendir á að í fyrra, þegar veiðigjöldin námu rúmum 4,8 milljörðum króna, hafi heildarútgjöld ríkissjóðs vegna fiskveiðirannsókna- og eftirlits verið um 1,4 milljörðum hærri en veiðigjöldin að meðtöldum áætluðum kostnaði Landhelgisgæslunnar, sem ekki er inni í tölunum frá atvinnuvegaráðuneytinu.
Er skiptingin sanngjörn?
Björn Leví segir að hann telji rétt að veiðigjöldin mæti heildarútgjöldum ríkissjóðs við rannsóknir, stjórn og eftirlit með fiskveiðum, þrátt fyrir að stofnanir á borð við Hafró og Fiskistofu afli sér sjálfsaflatekna að hluta. Síðan eigi þau líka að tryggja þjóðinni „beina og sýnilega hlutdeild“ í afkomunni.
Ef eftirlit og rannsóknir muni í heild kosta um 7 milljarða króna á yfirstandandi ári megi spyrja sig að því hversu sanngjörn hlutdeild þjóðarinnar í afkomunni sé, en áætlað er að veiðigjöld ársins 2021 muni nema 7,5 milljörðum króna. Þjóðin fái því um 500 milljónir króna í sinn hlut.
Björn Leví setur upphæðirnar í samhengi við hagnað útgerðarfyrirtækjanna á umliðnum árum og reiknast þingmanninum til að á árunum 2015-2020 hafi ríkissjóður fengið um tvo milljarða króna í sinn hlut þegar búið sé að draga heildarútgjöld við eftirlit og rannsóknir frá greiddum veiðigjöldum, en þá er hann að áætla að kostnaður Landhelgisgæslunnar sé svipaður og fyrir árið 2021.
Á sama tíma hafi hagnaður íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja numið 197 milljörðum króna á árunum 2015 til 2019.
Þingmaðurinn segir að vissulega sé verðmætasköpunin í sjávarútvegi inni í þessum hagnaði, en hann hafi ekki betri upplýsingar til þess að byggja á við að reyna að svara þeirri spurningu hvort skipting arðsins af „hrárri auðlindinni“ sé sanngjörn þegar allt komi til alls.
„Þessar spurningar eru skref í áttina að því að komast að þessu, hvort þetta sé sanngjörn skipting,“ segir Björn Leví.