Ekki var lagt mat á losun gróðurhúsalofttegunda vegna framkvæmda við gerð gildandi samgönguáætlunar og ekki hefur verið lagt mat á losun vegna byggingar nýs Landspítala við Hringbraut. Þetta kemur fram í svari Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra við fyrirspurn frá Birni Leví Gunnarssyni, þingmanni Pírata. Í svarinu segir að ávinningur eftir að framkvæmdir samgönguáætlunar eru teknar í notkun hafi verið metinn og að nú sé unnið að svokallaðri LCA-greiningu en með henni fæst útreikningur á kolefnisspori bygginga.
Fyrirspurn Björns var í fimm liðum og í þeim fyrsta er spurt: „Hefur losun gróðurhúsalofttegunda áhrif við mat á framkvæmdakostum við opinberar framkvæmdir?“ Í svari umhverfisráðherra er vísað til upplýsinga frá fjármála- og efnahagsráðuneyti sem segja að ekki sé „tekið tillit til losunar gróðurhúsalofttegunda við valkostagreiningu Framkvæmdasýslunnar – Ríkiseigna.“
Engu að síður þurfi allar framkvæmdir sem kosta yfir hálfan milljarð að fara í umhverfisvottunarferli. Í ferlinu eru gerðar „miklar kröfur til þess að valdar séu umhverfisvænar lausnir og að við framkvæmdina sé losun gróðurhúsalofttegunda lágmörkuð eins og hægt er,“ eins og það er orðað í svarinu. Engin sérstök viðmið um umfang losunar eru nefnd önnur en þau að losunin skuli lágmörkuð.
Unnið að vistferilsgreiningu fyrir nýjan Landspítala
Líkt og áður segir liggur ekki fyrir mat á losun gróðurhúsalofttegunda vegna byggingar nýs Landspítala. Nú sé unnið að svokallaðri LCA-greiningu sem meti losunina. Á vef verkfræðistofunnar Eflu segir að tilgangur LCA-greiningar sé að reikna heildar umhverfisáhrif sem verða vegna framleiðslu, notkunar og förgunar á vöru eða þjónustu. Með slíkri greiningu megi meta umhverfisáhrif og kolefnisspor vöru eða þjónustu.
Í svarinu segir enn fremur að nýlega hafi verkefnið fengið lokaumhverfisvottun í hinu alþjóðlega BREEAM-vottunarkefinu og að unnið sé að umhverfisvottun annarra nýbygginga við Hringbraut.
Losun vegna hvers kílómeters malbiks 332 tonn
Björn spurði einnig út í áætlaða losun gróðurhúsalofttegunda vegna framkvæmda samkvæmt gildandi samgönguáætlun til fimm ára. „Samkvæmt upplýsingum frá innviðaráðuneytinu var ekki lagt mat á losun gróðurhúsalofttegunda vegna framkvæmda við gerð gildandi samgönguáætlunar, eingöngu á ávinninginn eftir að framkvæmdirnar eru teknar í notkun,“ segir í svari umhverfisráðherra.
Þar er tekið fram að Vegagerðin meti hve mikið votlendi raskast við einstakar framkvæmdir og í kjölfarið endurheimtir Vegagerðin jafnmikið á móti í samstarfi við sérfræðistofnanir. Þannig hafi Vegagerðin endurheimt 360 hektara votlendis frá árinu 2002. Að auki á Vegagerðin í samstarfi við skógræktarfélög við endurheimt skóga sem raskast við framkvæmdir og í samstarfi við Landgræðsluna um endurheimt annarra vistkerfa.
„Nokkrar vistferilsgreiningar hafa verið gerðar fyrir framkvæmdir Vegagerðarinnar fyrir m.a. brýr og 1+1 stofnvegi. Miðað við þær vistferilsgreiningar er losun vegna byggingar 1 km 1+1 þjóðvegar um 332 t CO2 ígildi. Kolefnisspor byggingar á brúm eru 1,0 –2,4 tonn á nýtanlega fermetra brúargólfs. Rétt er að taka fram að inni í þessum tölum er líka losun vegna framleiðslu og flutnings hráefna en ekki einungis losun á verkstað,“ segir í svari umhverfisráðherra um losun vegna vegaframkvæmda.
Framkvæmdir ekki kolefnisjafnaðar
Að lokum er sjónum beint að kolefnisjöfnun í fyrirspurn Björns Levís en hann spyr hvort og þá hvernig verkefnin sem um ræðir eru kolefnisjöfnuð. Framkvæmdir við nýjan Landspítala eru ekki kolefnisjafnaðar, í það minnsta ekki „með beinum hætti“ samkvæmt upplýsingum frá fjármála- og efnahagsráðuneyti.
Ekki hefur verið farið í formlega kolefnisjöfnun í verkefnum Vegagerðarinnar en minnst er á áðurnefnda endurheimt votlendis, skóga og vistkerfa í svari umhverfisráðherra.