Liz Truss, utanríkisráðherra Bretlands, er nýr leiðtogi breska Íhaldsflokksins og þar með nýr forsætisráðherra Bretlands. Truss hafði betur gegn Rishi Sunak í leiðtogakjöri flokksins með 81.326 atkvæðum gegn 60.399 atkvæðum. Kjörsókn var 82,6 prósent. Graham Brady, formaður 1922-nefndar Íhaldsflokksins, sem sér um helstu forystumál Íhaldsflokksins, greindi frá niðurstöðum leiðtogakjörsins skömmu fyrir hádegi.
Truss verður þriðja konan sem gegnir embætti forsætisráðherra í sögu Bretlands. Hún hóf þakkarræðu sína á að segja það mikinn heiður að vera kjörinn leiðtogi Íhaldsflokksins. Átta sóttust eftir að leiða flokkinn eftir að Boris Johnson sagði af sér í byrjun júlí. Eftir nokkrar lotur atkvæðagreiðsla stóð valið á milli Truss og Sunak. Fyrirfram var búist við sigri Truss, sem þótti þó ekki líklegur sigurvegari þegar kosningabaráttan hófst fyrir um tveimur mánuðum.
Truss þakkaði Íhaldsflokknum fyrir „að skipuleggja eitt lengsta atvinnuviðtal sögunnar“. Þá þakkaði hún Boris Johnson fyrir að standa uppi í hárinu á Valdimír Pútín Rússlandsforseta, leiða Bretland úr Evrópusambandinu og fyrir að hafa komið bóluefni gegn kórónuveirunni til almennings. Auk þess þakkaði hún Johnson fyrir að hafa „malað Jeremy Corbyn“.
Í færslu á Twitter þakkaði Truss fyrir traustið sem henni er sýnt og heitir hún að grípa til stórtækra aðgerða til að koma Bretlandi í gegnum erfiða tíma.
I am honoured to be elected Leader of the Conservative Party.
— Liz Truss (@trussliz) September 5, 2022
Thank you for putting your trust in me to lead and deliver for our great country.
I will take bold action to get all of us through these tough times, grow our economy, and unleash the United Kingdom’s potential. pic.twitter.com/xCGGTJzjqb
Ljóst er að Truss á vandasamt hlutverk fyrir höndum og hafa stjórnmálaskýrendur haldið því fram að nýr forsætisráðherra hafi ekki tekið við á jafn erfiðum tímum síðan Margaret Thatcher varð forsætisráðherra árið 1979.
Hækkandi orkuverð er meðal helstu áskorana sem ríkisstjórnin stendur frammi fyrir og meðal fyrstu verkefna ríkisstjórnarinnar undur forystu Truss verður að kynna áætlun um að bregðast við hækkandi orkuverði. Líklegt er talið að Truss muni tilkynna áform sín á fimmtudag sem munu meðal annars felast í frystingu á orkureikningum.
Hneyksli eftir hneyksli leiddi til afsagnar Johnson – og sigurs Truss
Helsta verkefni Truss innan flokksins verður að sameina hann eftir mikla umrótatíma.
Boris Johnson sagði af sér sem leiðtogi Íhaldsflokksins 7. júlí eftir röð ýmissa hneykslismála, ekki síst „Partygate“ þar sem Johnson og starfsmenn hans í forsætisráðuneytinu urðu ítrekað uppvísir að því að brjóta reglur um samkomutakmarkanir sem ríkisstjórnin hafði gert bresku þjóðinni að fylgja til að halda drykkjusamkvæmi, fór langt með að ýta Johnson út af sviðinu. Johnson var meðal annars sektaður fyrir að vera viðstaddur eina veisluna, eigin afmælisveislu, og varð með því fyrsti forsætisráðherra Bretlands frá upphafi til að verða sektaður fyrir lögbrot.
Johnson stóð af sér vantrauststillögu í byrjun júní, en einungis með naumindum og því þótti ljóst í hvað stefndi. Alls 148 þingmenn breska Íhaldsflokkinn studdu tillöguna en 211 greiddu atkvæði á móti henni. Það þýddi að einungis um 60 prósent þingmanna studdu ráðherrann, þar með talið þeir sem áttu allt vald sitt innan ríkisstjórnar undir honum.
Sunak sagði af sér sem fjármálaráðherra í júlí og var í hópi um 50 embættismanna og ráðherra sem sögðu af sér þar sem þeir treystu Johnson ekki til að leiða landið. Hann greindi svo fljótlega eftir afsögn Johnson að hann ætlaði að sækjast eftir því að leiða Íhaldsflokkinn.
Meðlimir Íhaldsflokksins voru með kosningarétt í leiðtogakjörinu og var það því í höndum 0,3 prósent bresku þjóðarinnar að kjósa næsta forsætisráðherra Bretlands.
Í fyrsta sinn sem drottning skipar nýjan forsætisráðherra utan Buckingham-hallar
Atkvæðagreiðslu flokksmanna lauk síðdegis á föstudag en Graham Brady, formaður 1922-nefndarinnar, greindi frá sigri Truss skömmu fyrir hádegi. Truss mun formlega taka við á morgun, þriðjudag, og verður það í fyrsta sinn sem Elísabet Englandsdrottning, í 70 ára valdatíð sinni, skipar nýjan forsætisráðherra annars staðar en við Buckingham-höll. Drottningin dvelur nú í Balmoral-kastala í Skotlandi ásamt fjölskyldu sinni líkt og venjan er yfir sumarmánuðina og fram á haust.
Nýr leiðtogi Íhaldsflokksins og Johnson, fráfarandi leiðtogi, munu því gera sér um 1.600 kílómetra ferð til drottningarinnar svo nýr forsætisráðherra geti formlega tekið við völdum. Áður en að því kemur er búist við að Johnson muni flytja kveðjuávarp fyrir utan Downingstræti 10 í fyrramálið.