Liz Truss hefur sagt af sér embætti sem forsætisráðherra Bretlands og sem formaður Íhaldsflokksins.
Truss greindi frá afsögn sinni á blaðamannafundi fyrir utan Downingstræti 10 rétt eftir hádegi. Í yfirlýsingu sinni sagðist hún ekki hafa getað starfað eftir því umboði sem flokksmenn Íhaldsflokksins veittu henni í haust. Hún hefur tilkynnt Karli þriðja konungi um afsögn sína.
"I cannot deliver the mandate on which I was elected by the Conservative Party"
— BBC Breaking News (@BBCBreaking) October 20, 2022
UK Prime Minister Liz Truss resignshttps://t.co/O5kO1WJ4tY pic.twitter.com/Gq6FtOGNIP
Dagarnir 45 sem Truss hefur verið í embætti hafa verið stormasamir. Umdeildar efnahagsaðgerðir, kynntar af Kwasi Kwarteng fjármálaráðherra, sem fólust í skattalækkunum sem fjármagna átti með lánum féllu í grýttan jarðveg, bæði hjá almenningi og markaðnum, og svo fór að Kwarteng var látinn víkja og Jeremy Hunt, fyrrverandi heilbirgðis- og utanríkisáðherra, tók við sem fjármálaráðherra.
Ekki útilokað að Boris Johnson snúi aftur
Boðað verður til atkvæðagreiðslu um kjör nýs formanns Íhaldsflokksins innan viku og mun Truss starfa áfram sem forsætisráðherra þangað til. Hunt hefur þegar greint frá því að hann ætli ekki að sækjast eftir því verða næsti leiðtogi Íhaldsflokksins og þar með forsætisráðherra.
Forveri Truss í embætti, Boris Johnson, sem sagði af sér í sumar eftir röð hneykslismála, gæti sóst eftir því að snúa aftur sem leiðtogi Íhaldsflokksins. Bæði Times og Daily Telegraph segjast hafa heimildir fyrir því að Johnson sýni því áhuga. Times segir að Johnson telji það, að hann snúi aftur sem forsætisráðherra, snúast um hagsmuni þjóðarinnar. Ekki liggur fyrir hvernig leiðtogakjörinu verður nákvæmlega háttað. Þá gæti það skipt máli að Johnson sætir enn rannsóknar vegna Partygate-hneykslisins svokallaða. Rannsóknarnefnd á vegum breska þingsins rannsakar enn hvort Johnson hafi vísvitandi afvegaleitt þingmenn í umræðum um samkvæmi sem haflin voru á tímum strangra sóttvarnareglna.
Var staðráðin í að gefast ekki upp
Truss er þriðja konan sem gegnir embætti forsætisráðherra í sögu Bretlands. Hún hafði betur gegn Rishi Sunak í leiðtogakjöri flokksins í september. Í þakkarræðu sinni sem hún flutti þegar hún náði kjöri sagði hún það mikinn heiður að vera kjörinn leiðtogi Íhaldsflokksins.
Átta sóttust eftir að leiða flokkinn eftir að Boris Johnson sagði af sér í byrjun júlí. Eftir nokkrar lotur atkvæðagreiðsla stóð valið á milli Truss og Sunak. Fyrirfram var búist við sigri Truss, sem þótti þó ekki líklegur sigurvegari þegar kosningabaráttan hófst í sumar. Sunak þykir líklegur til að sækjast eftir því að leiða flokkinn nú þegar Truss hefur sagt af sér.
Elísabet Englandsdrotting skipaði Truss í embætti 6. september og var það meðal hennar síðustu opinberu embættisverka áður en hún féll frá tveimur dögum seinna. Ljóst var að Truss átti vandasamt hlutverk fyrir höndum og héldu stjórnmálaskýrendur því fram að nýr forsætisráðherra hafi ekki tekið við á jafn erfiðum tímum síðan Margaret Thatcher varð forsætisráðherra árið 1979.
Í óundirbúnum fyrirspurnartíma á breska þinginu í gær sagðist Truss ætla að halda ótrauð áfram þrátt fyrir þá miklu gagnrýni sem hún hefur sætt. „Ég er baráttukona og ég gefst ekki upp. Allt sem ég hef gert er með það að leiðarljósi að styrkja efnahagslífið,“ sagði Truss. Í dag var hljóðið annað, þegar Truss, tilkynnti afsögn sína.