Meirihluti umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis hefur lagt til að frumvarpi umhverfisráðherra um stofnun hálendisþjóðgarðs verði vísað aftur til ráðherra. Frá þessu er greint í frétt RÚV í dag.
Hanna Katrín Friðriksson, fulltrúi Viðreisnar í nefndinni, staðfestir þetta í samtali við Kjarnann og bendir á að frumvarpið verði því ekki afgreitt á þessu þingi. Fundur umhverfis- og samgöngunefndar er á dagskrá Alþingis klukkar 15 í dag og telur þingmaðurinn líklegt að tillagan verði afgreidd þá. Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, vildi ekki tjá sig um málið fyrr en í fyrsta lagi eftir fund nefndarinnar seinna í dag.
Hálendisþjóðgarður hefur verið mjög umdeildur innan stjórnmálanna, sem og í samfélaginu. Í könnun sem Gallup gerði í byrjun árs sögðust 43 prósent andvíg frumvarpi um stofnun hálendisþjóðgarðs en 31 prósent fylgjandi. Rúmlega fjórir af tíu sögðust hafa litla þekkingu á frumvarpinu.
Í frétt RÚV kemur fram að á fundi umhverfis- samgöngunefndar í morgun hefði Kolbeinn Óttarsson Proppé þingmaður Vinstri grænna og framsögumaður málsins lagt fram nefndarálit með frávísunartillögur. Í álitinu kemur meðal annars fram að ekki hafi náðst sátt um málið og því verði því vísað aftur til ríkisstjórnar og umhverfisráðherra.
„Þetta er fallegt orðalag yfir þegar málið dagar uppi í nefnd. Þessi frávísun þýðir efnislega ekki neitt. Það er hefð fyrir því að málum sé vísað til ríkisstjórnar eða einstakra ráðherra til gera eitthvað við. Það eru þá mál sem eru fullkláruð í nefndum. Þetta mál er ekki fullklárað og hefði raunverulega átt að daga uppi en af því að þetta er flaggskip ríkisstjórnarinnar og ekki síst Vinstri grænna þá fær það svona heiðursmeðferð sem er að vera vísað aftur heim til ráðherra,“ segir Hanna Katrín við RÚV.