Ástæðurnar fyrir því að orkusölufyrirtækið N1 Rafmagn ákvað að miða boðaðar endurgreiðslur til hóps neytenda við 1. nóvember 2021, þrátt fyrir að ljóst sé að fyrirtækið hafi allt frá sumrinu 2020 verið með tvöfalda verðlagningu á rafmagni, eru enn nokkuð óskýrar þrátt fyrir að svör um málið hafi borist frá fyrirtækinu.
Kjarninn beindi spurningum til N1 í síðustu viku og spurði af hverju dótturfélagið N1 Rafmagn hefði einungis ákveðið að endurgreiða neytendum mismun á þrautavaraverði og almennu verði á raforku frá 1. nóvember, þrátt fyrir að fyrir liggi að N1 Rafmagn, sem áður hét Íslensk orkumiðlun, hafi allt frá sumrinu 2020 rukkað viðskiptavini sem eru í svokölluðum þrautavaraviðskiptum um hærra verð en almennt er auglýst hjá félaginu.
„Í ljósi umræðu um aukinn verðmun eftir verðhækkanir á skammtímamarkaði vildi N1 Rafmagn koma til mót við þann hóp sem fær rafmagn eftir þrautavaraleið og miðum þess vegna við 1. nóvember en þá var N1 Rafmagn síðast valinn orkusali til þrautavara af Orkustofnun,“ segir í skriflegu svari Hinriks Arnar Bjarnasonar, framkvæmdastjóra N1, til Kjarnans.
Forstjóri Festi segir félagið ekki telja þetta ofrukkanir
Í skriflegu svari Hinriks Arnar, sem virðist að mestu leyti orðrétt það sama og Eggert Þór Kristófersson forstjóri Festi, móðurfélags N1, veitti Stundinni, er bent á að N1 Rafmagn hafi þurft að afla raforku handa þeim hópi sem beint var til fyrirtækisins eftir þrautavaraleið á skammtímamarkaði „þar sem verð eru mun hærri og sveiflukenndari en þegar raforkusalar gera langtímasamninga við raforkubirgja lengra fram í tímann.“
„Verð á þessum markaði eru í hámarki þessa dagana enda orkuskortur og aukin eftirspurn á landsvísu. Þrautavaraviðskiptavinir hafa greitt meðaltalsverð af því rafmagni sem N1 Rafmagn verslar á skammtímamarkaði á hverju tímabili fyrir sig,“ segir í svari Hinriks, en vert að taka fram að N1 Rafmagn hafði hvergi látið þess getið að fyrirtækið væri að rukka þrautavaraviðskiptavini sína á öðrum taxta en auglýstur var í verðskrá félagsins.
Neytendur þurftu að fatta það sjálfir og hafa samband við N1 Rafmagn til þess að fá lægra orkuverð. Á síðustu vikum hefur verðið verið sagt allt að 75 prósentum yfir opinberlega auglýstu verði N1 Rafmagns.
Í frétt Stundarinnar er haft eftir Eggerti Þór að samkvæmt skilningi Festi hafi ekki verið „um ofrukkanir að ræða“.
Afsökunarbeiðni og breytt verklag
Óljóst er því af hverju N1 Rafmagn fann sig knúið til þess að senda frá sér yfirlýsingu í síðustu viku um að til stæði að endurgreiða neytendum, sem félagið lítur ekki svo á að hafi verið ofrukkaðir.
„Við störfum á neytendamarkaði og tökum mark á þeim athugasemdum sem okkur berast og biðjumst velvirðingar á því að hafa ekki gert það fyrr,“ sagði í þeirri yfirlýsingu, en þar var einnig greint frá því að frá 1. janúar myndi félagið rukka alla viðskiptavini eftir sama taxta fyrir raforku.
Eftir að þessi afsökunarbeiðni var sett fram hafa hins vegar verið gerðar athugasemdir við að N1 Rafmagn hyggist einungis endurgreiða viðskiptavinum mismun undanfarinnar tveggja mánaða, þegar ljóst er að fyrirtækið hefur verið með tvöfalda verðlagningu á rafmagni um lengri tíma.
Fyrirkomulagið þurfi að endurskoða – gert ráð fyrir 50 prósent álagi í fyrri reglum
Í svari Hinriks segir að N1 Rafmagn hafi beðið um fund með Orkustofnun, þar sem fyrirtækið muni meðal annars „kalla eftir skýrum og rökstuddum upplýsingum frá Orkustofnun um hvernig stofnunin ætlar sér að koma til móts við N1 Rafmagn vegna stöðu fyrirtækisins sem orkusali til þrautavara“ og segir Hinrik að um sé að ræða nýtt fyrirkomulag sem augljóslega þurfi að lagfæra.
Hinrik Örn segir að minna megi á að í fyrra fyrirkomulagi um orkusölu til þrautavara hafi verið skrifað inn í reglugerð að gert væri ráð fyrir því að neytendur sem ekki völdu sér raforkusala sjálfir greiddu 50 prósentum meira fyrir orkuna en þeir sem voru með samning við viðkomandi orkusala.
„Í dæmi Orku náttúrunnar væri það 8,82kr + 50% = 13,32kr/kWst. Auk þess sáu veiturnar um að sölufyrirtækin í þeirra eigu fengu viðskiptin,“ segir í svari Hinriks Arnar.
Þrauta-vara-hvað?
Orkusala til þrautavara er kannski ekki eitthvað sem hinn almenni neytandi veltir fyrir sér í amstri hversdagsins, en það raforkufyrirtæki sem er með lægst meðalverð á tilteknu tímabili er útnefnt sem raforkusali til þrautavara af Orkustofnun.
Fyrirtæki eru valin til að gegna þessu hlutverki til sex mánaða í senn og hefur N1 Rafmagn, sem áður hét Íslensk orkumiðlun, verið valið þrisvar sinnum í hlutverkið frá því að valið fór fyrst fram með þessum hætti árið 2020.
Á þessa svokölluðu þrautavaraleið færast síðan þeir raforkunotendur sem ekki hafa af einhverjum ástæðum valið sér tiltekinn raforkusala til að vera í viðskiptum við. Þetta getur gerst þegar fólk flytur í nýtt húsnæði eða tekur við sem nýir viðskiptavinir á neysluveitu, til dæmis við fráfall maka sem áður var skráður fyrir rafmagnsreikningnum. Eða einfaldlega, þegar fólk hefur ekki hugmynd um að það eigi og þurfi að velja sér sérstaklega fyrirtæki til að vera í viðskiptum við um raforku.
Núgildandi reglugerð um þetta fyrirkomulag var sett árið 2019, af Þórdísi Kolbrúnu R. Gylfadóttur fyrrverandi ráðherra orkumála. Ekki er skýrt af lestri þeirrar reglugerðar hvort orkusali til þrautavara skuli að veita þeim sem koma í viðskipti sjálfkrafa sama verð og öðrum notendum. Þó er orkusalinn settur í það hlutverk á grundvelli þess að vera með lægsta orkuverðið á landinu.
Ekki fyrirséð staða
Hanna Björg Konráðsdóttir lögfræðingur hjá Orkustofnun sagði í samtali við Kjarnann um þetta mál að það hefði ekki verið fyrirséð að N1 Rafmagn myndi sem orkusali til þrautavara rukka viðskiptavini um hærra verð en félagið byði almennt upp á.
Hún lét þess sömuleiðis getið að hún þekkti engin dæmi þess frá Evrópu að orkusölufyrirtæki væru með tvö verð á raforku eins og N1 hefði verið með, þ.e. einn opinberan taxta fyrir neytendur sem velja sér að koma í viðskipti og annan taxta, sem hvergi væri opinberlega uppgefinn, fyrir hina svokölluðu þrautavaraviðskiptavini.
Orkustofnun sendi í síðustu viku út uppfærðar leiðbeiningar til sölufyrirtækja um að ekki væri hægt að selja orku til þrautavarakúnna nema á birtu verði. Rannsókn Orkustofnunar á málinu er enn í gangi og stofnunin mun skera úr um hvort N1 Rafmagni hafi verið heimilt að rukka þrautavaraviðskiptavini um hærra verð en opinberlega var gefið upp af hálfu fyrirtækisins.