Í minnisblaði sem LOGOS vann fyrir Bankasýslu ríkisins, og er dagsett 11. maí, er komist að þeirri niðurstöðu að ákvörðun um takmarka þátttöku í útboði á 22,5 prósenta hlut íslenskra ríkisins við svokallaða hæfa fjárfesta án þess að gerð yrði krafa um lágmarkstilboð hafi ekki falið í sér brot gegn jafnræðisreglu. Í útboðinu var hluturinn seldur til alls 207 fjárfesta undir markaðsvirði.
Þá telur lögmannsstofan að fullnægjandi ráðstafanir hafi verið gerðar af hálfu Bankasýslunnar til að tryggja jafnt aðgengi hæfra fjárfesta að útboðinu í lagalegu tilliti og að ákvörðun hennar um að selja ekki hlut til Landsbankans og Kviku banka, sem gerðu tilboð fyrir hönd veltubóka sinna, hafi stuðst við málefnaleg sjónarmið og hafi einnig verið í samræmi við jafnræðisreglu.
MInnisblað LOGOS var sent á fjölmiðla fyrir hönd Bankasýslu ríkisins klukkan 6:00 í morgun. Í fréttatilkynningu sem fylgir með segir að stjórn Bankasýslu ríkisins hafi ákveðið á stjórnarfundi 16. maí að senda frá sér fréttatilkynningu vegna minnisblaðsins og birta minnisblaðið á heimasíðu stofnunarinnar. Þegar minnisblaðið barst flestum fjölmiðlum landsins hafði þegar birst frétt um það á forsíðu Morgunblaðsins. Því er ljóst að Morgunblaðið hafði minnisblaðið undir höndum í gær, áður en það barst öðrum fjölmiðlum.
LOGOS var ráðið sem innlendur lögfræðilegur ráðgjafi Bankasýslunnar í tengslum við sölumeðferðina á hlutnum í Íslandsbanka 18. febrúar síðastliðinn, en hluturinn í bankanum var seldur með tilboðsfyrirkomulagi þann 22. mars. Minnisblað hennar fjallar því um lögmæti sölumeðferðar sem stofan vann sjálf að. Óttar Pálsson, einn meðeigenda LOGOS, er sá sem sendir minnisblaðið á Bankasýsluna.
Gagnrýnendur segja söluna ekki standast lög
Mikil gagnrýni hefur verið á söluna á hlutum ríkisins í Íslandsbanka, meðal annars út frá þeim forsendum að sölufyrirkomulagið hafi ekki staðist þá kröfu um jafnræði sem gerð er í lögum um sölumeðferð eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum. Ein þeirra sem hefur sett fram slíka gagnrýni er Sigríður Benediktsdóttir, hagfræðingur við Yale háskóla og fyrrverandi framkvæmdastjóri fjármálastöðugleikasviðs Seðlabanka Íslands, sem sagði við Kjarnann í mars að þegar takmarkaður hópur fjárfesta sé valinn til að kaupa magn bréfa sem sé svo lítið að það hefði ekki hreyft við markaðsvirði Íslandsbanka ef þeir hefur keypt á eftirmarkaði þá brjóti það í bága við 3. grein og mögulega einnig 2. grein umræddra laga. „Á grundvelli þess þarf einhver að axla ábyrgð fyrir að hafa heimilað þetta og auk þess þarf að rifta þessum viðskiptum við einstaklinga og ehf., enda eru þau ekki í samræmi við lög og kaupendum og miðlurum hefði mátt vera það ljóst sem og því stjórnvaldi sem heimilaði þetta.“ Sigríður sat í rannsóknarnefnd Alþingis um bankahrunið sem skilaði af sér umfangsmikilli skýrslu í apríl 2010. Lögin um sölumeðferð á hlut ríkisins í fjármálafyrirtækjum horfa meðal annars til ábendinga rannsóknarnefndarinnar.
Þriðja grein laganna fjallar um meginreglur við sölumeðferð. Í greininni segir: „Þegar ákvörðun er tekin um undirbúning og framkvæmd sölumeðferðar eignarhluta skal áhersla lögð á opið söluferli, gagnsæi, hlutlægni og hagkvæmni. Með hagkvæmni er átt við að leitað sé hæsta verðs eða markaðsverðs fyrir eignarhluti. Þess skal gætt að skilyrði þau sem tilboðsgjöfum eru sett séu sanngjörn og að þeir njóti jafnræðis. Þá skal við sölu kappkosta að efla virka og eðlilega samkeppni á fjármálamarkaði.“
Kristrún Frostadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, er á meðal annarra sem hafa sett fram sambærilega gagnrýni og Sigríður. Hún hefur meðal annars bent á að engin ástæða hafi verið fyrir því að selja litlum fjárfestum hlut ríkisins í banka með afslætti, en minnsti fjárfestirinn keypti fyrir rúma milljón króna og alls 59 aðilar fengu að kaupa fyrir minna 30 milljónir króna.
Salan á hlut ríkisins í Íslandsbanka er nú til skoðunar hjá Fjármálaeftirliti Seðlabanka Íslands auk þess sem Ríkisendurskoðun er að framkvæma stjórnsýsluúttekt á ferlinu.
Hafna því að setja hefði átt skilyrði um lágmarksfjárhæð
Í minnisblaði LOGOS segir að tillaga Bankasýslu ríkisins um sölumeðferð á hlutum í Íslandsbanka hafi falið í sér að einungis hæfum fjárfestum stæði til boða að taka þátt í útboðinu og að í henni hafi komið skýrt fram að aðkoma almennings yrði að sama skapi takmörkuð. Sú takmörkun byggði, að mati LOGOS, á málefnalegum sjónarmiðum og samræmdist þeim markmiðum sem lög gera ráð fyrir við sölu eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum. „Með vísan til þess sem að framan er rakið verður ekki séð að með þessari tillögu hafi bankasýslan farið út fyrir það svigrúm sem lög gera ráð fyrir að ráðherra hafi við val á leiðum við sölumeðferð. Rétt er að árétta að í frumvarpi því er varð að lögum um sölumeðferð eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum er lögð sérstök áhersla á að viðhorf og markmið stjórnvalda skipti meginmáli um hvaða leið er valin og sérstaklega tekið fram að ýmsar leiðir komi til greina. Er það mat okkar að sú tilhögun sem valin var hafi ekki verið andstæð réttmætisreglu eða jafnræðisreglu.“
„Má ætla að fagfjárfestar hafi almennt verið meðvitaðir“
Fjölmargir hafa einnig gagnrýnt að jafnt aðgengi hæfra fjárfesta að útboðinu hafi ekki verið tryggt. Fimm innlendir söluráðgjafar voru ráðnir og viðmælendur Kjarnans sem falla í hóp skilgreindra hæfra fjárfesta hafa haldið því fram að þessir ráðgjafar hafi haft samband við sinn viðskiptamannahóp fyrst og síðast til að selja honum hlut í bankanum, en salan fór fram eftir lokun markað 22. mars og var lokið um kvöldið.
LOGOS telur hins vegar ótvírætt að auglýsing Bankasýslu ríkisins á útboðinu eftir lokun markaða þennan dag og tilkynning í kauphöll um útboðið „hafi tryggt að jafnræðis var gætt meðal þeirra sem áttu þess kost á að gera tilboð“.
Val Bankasýslu ríkisins á tilteknum söluráðgjöfum, sem hafði það jafnframt að meginmarkmiði, að tryggja aðgengi eins stórs hóps hæfra fjárfesta og kostur var gat ekki leitt til annarrar niðurstöðu „enda ótvírætt að útboðið átti að vera öllum þeim sem féllu í hóp hæfra fjárfesta kunnugt með því að það var auglýst opinberlega og um það tilkynnt í kauphöll“.
LOGOS segir að þótt útboðið sjálft hafi tekið skamman tíma hafi upplýsingar um það legið fyrir um allnokkurt skeið í aðdraganda. „Má ætla að fagfjárfestar hafi almennt verið meðvitaðir um að útboðsins væri að vænta m.a. í ljósi heimildar til sölunnar í fjárlögum og þeirrar opinberu kynningar sem málið hlaut“. Því sé „ekki ósanngjarnt að gera þær kröfur til viðkomandi, m.a. í ljósi stöðu þeirra sem fagfjárfesta og þar með þekkingar og reynslu á fjármálamarkaði, að þeir hefðu gert nauðsynlegar ráðstafanir og væru undir það búnir að setja fram tilboð að eigin frumkvæði og með skömmum fyrirvara eftir að tilkynning um útboðið varð opinber.“