Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, segir Katrínu Jakobsdóttur, formann Vinstri grænna og forsætisráðherra, hafna hverju umbótamáli á eftir öðru „til þess eins að geta áfram starfað með Sjálfstæðisflokknum.“ Það sé orðið nokkuð ljóst að ríkisstjórnarflokkarnir þrír ætli að gera hvað sem er til að halda samstarfi sínu áfram.
Þetta kemur fram í stöðuuppfærslu sem Logi birti á Facebook í dag. Hann spyr hvort Vinstri græn ætli að hunsa þjóðarviljann í stóru málunum á næstu fjórum árum fyrir nokkra stóla og segir að þeir sem vilji „raunverulegar umbætur, réttlátara skattkerfi, betri heilbrigðisþjónustu og alvöru aðgerðir í́ loftslagsmálum“ sé Samfylkingin eini valkosturinn í þessum kosningum.
Stóreignaskattur er víst á dagskrá, Katrín. Nú er orðið ljóst að ríkisstjórnarflokkarnir ætla að gera hvað sem...
Posted by Logi Einarsson on Wednesday, September 8, 2021
Í stöðuuppfærslunni er hann að bregðast við ýmsum ummælum sem Katrín lét falla í þættinum Dagmál á mbl.is þar sem hún sagði meðal annars að það væri „ í meira lagi einkennilegt“ ef Vinstri græn, Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur ræddu ekki saman um áframhaldandi stjórn ef flokkarnir þrír fengu meirihluta til þess.
Ekki stefna Vinstri grænna að taka upp stóreignaskatt
Í viðtalinu við Katrínu kom einnig fram að það væri ekki á stefnuskrá Vinstri grænna að taka upp stóreignaskatt, sem er eitt helsta stefnumál Samfylkingarinnar fyrir komandi kosningar, heldur að skoða frekar mögulega þrepaskiptingu fjármagnstekjuskatt.
Logi segir í stöðuuppfærslunni að Katrín hafni herju umbótamálinu á eftir öðru til að geta starfað áfram með Sjálfstæðisflokknum. „Katrín segir stóreignaskatt ekki á dagskrá, í nýju viðtali við Morgunblaðið. Og er ánægð með óbreytt veiðigjöld. En fyrir hvað stendur VG, hvert er erindi þeirra í pólitík, ef þau vilja ekki jafna kjörin í landinu?
Þá segir Logi Katrínu opna á að gefa Sjálfstæðisflokknum heilbrigðisráðuneytið í næstu ríkisstjórn.
Í viðtalinu var hún spurð hvort hún geri kröfu á að fá það ráðuneyti og svaraði: „„Það liggur ekkert fyrir um það hvaða ráðuneyti við myndum gera kröfu um. Og það hangir auðvitað bara líka á hvernig ríkisstjórn verður mynduð.“ Forsætisráðherra sagði aldrei með sértækum hætti að hún myndi ekki gera kröfu um að fá að stýra heilbrigðisráðuneytinu.