Fyrir tólf mánuðum síðan sameinaðist heimsbyggðin um það að styðja COVAX, alþjóðlegan vettvang með það að markmiði að tryggja öllum jarðarbúum aðgang að lífsnauðsynlegum bóluefnum gegn COVID-19.
Þrátt fyrir að margt hafi áunnist með samstarfinu er misskiptingin enn gríðarleg: 80 prósent íbúa hátekjuþjóða hafa fengið að minnsta kosti einn skammt bóluefnis en aðeins 20 prósent lágtekjuþjóða.
Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá Alþjóða heilbrigðismálastofnuninni (WHO) sem gefin var út í dag. Ísland hefur nú þegar gefið 125.726 umframskammta af bóluefni AstraZeneca inn í COVAX og þegar vettvangurinn fer að taka við bóluefni Janssen verða samkvæmt upplýsingum úr utanríkisráðuneytinu 153.500 skammtar af því gefnir. Ísland hefur auk þess varið rúmum milljarði króna til að tryggja þróunarríkjum aðgang að bóluefnum og til að flýta þróun, framleiðslu og jöfnum aðgangi að skimunarbúnaði og meðferðum við COVID-19.
Heilbrigðisráðuneytið sagði nýverið við Kjarnann að frekari „geta Íslands“ til að gefa bóluefni inn í samstarfið verði metin á þeim grunni að hér séu hafnar örvunarbólusetningar og bólusetningar barna.
Um leið og samstarfsgrundvöllur ríkja heims var tryggður fyrir ári síðan hóf COVAX að tryggja fjármögnun verkefnisins og að semja við bóluefnaframleiðendur. Árangur af þeirri vinnu er augljós, segir í yfirlýsingu WHO: COVAX hefur tryggt sér 10 milljarða Bandaríkjadala, samið um afhendingu 4,5 milljarða bóluefnaskammta og þegar afhent 240 milljónir þeirra til 139 ríkja á síðustu sex mánuðum.
„En þrátt fyrir þetta er heimsmyndin hvað aðgang að bóluefni gegnum COVID-19 óásættanleg,“ segir í yfirlýsingunni.
Eitt af því sem staðið hefur COVAX fyrir þrifum er sú staðreynd að þegar vettvangurinn hóf að semja um kaup bóluefna af framleiðendum höfðu ríkari þjóðir þegar keypt meirihlutann af því sem stóð til boða. „Enn þann dag í dag er geta COVAX til að vernda viðkvæmasta fólk heimsins takmörkuð vegna útflutningsbanna, forgangsröðunar tvíhliða samninga milli framleiðenda og ákveðinna ríkja, áframhaldandi hindrana lykil hráefnaframleiðenda svo auka megi framleiðslu bóluefna og töfum á samþykki eftirlitsstofnana.“
COVAX stefnir á að hafa yfir 1,4 milljarði bóluefnaskammta að ráða á þessu ári. Þetta myndi duga til að verja 20 prósent íbúa 92 fátækustu þjóða heims ef Indland er undanskilið.
Alþjóða heilbrigðismálastofnunin skorar á alla sem taka þátt í COVAX, stjórnvöld ríkja sem og framleiðendur bóluefna, að staðfesta að nýju stuðning sinn og koma í veg fyrir frekari tafir á framgangi samstarfsins með því að tryggja eftirfarandi:
- Í þeim tilfellum þar sem ríki, sem þegar eru langt komin með bólusetningar, eru framar en COVAX í forgangsröðinni við kaup á bóluefnum hjá framleiðendum, gefi þau sæti sitt eftir svo að hægt sé að koma bóluefnum fljótt og vel í gegnum COVAX til þeirra sem þurfa mest á því að halda.
- Ríki sem þegar eru vel á veg komin í bólusetningum auki við og hraði afhendingu gjafaskammta. Þetta þurfi að gera skipulega, með fyrirsjáanleika og það tryggt að skammtar séu aðgengilegir í meira magni og bóluefnið nálgist ekki fyrningartíma sinn.
„Á sama tíma og faraldur COVID-19 heldur áfram að heimta mannslíf, eyðileggja lífsviðurværi fólks og tefja efnahagslegan bata, höldum við áfram að leggja áherslu á að enginn er öruggur fyrr en allir eru öruggir. Samvinna er eina leiðin til að stöðva faraldurinn og koma í veg fyrir að ný og skæð afbrigði komi fram,“ segir í yfirlýsingu WHO vegna COVAX-samstarfsins.