Lögregla fór fram á það við starfsmenn öryggisgæslu Isavia að komið yrði í veg fyrir myndatökur af lögregluaðgerðinni á Keflavíkurflugvelli í nótt, er stoðdeild ríkislögreglustjóra flutti 15 umsækjendur um alþjóðlega vernd úr landi og til Aþenu í Grikklandi með leiguflugi.
Isavia segist í yfirlýsingu harma að hafa hindrað störf fjölmiðla með þessum hætti, en að það sé ekki hlutverk starfsfólks öryggisgæslu flugvallarins að meta lögmæli fyrirmæla lögreglu.
„Að mati Isavia er það ekki hlutverk öryggisgæslu flugvallarins að hindra störf fjölmiðla. Isavia harmar að það hafi gerst í nótt og biðst afsökunar á því. Isavia mun fara yfir þessa framkvæmd með lögreglu,“ segir í yfirlýsingu frá Isavia, sem barst laust fyrir hádegi.
Í frétt á vef RÚV sést hvernig allt að fjögur ökutæki innan flugvallarsvæðisins beindu kösturum sínum að myndatökuteymi ríkisfjölmiðilsins, sem staðsett var fyrir utan flugvallarsvæðið. Það hafði þær afleiðingar, í næturmyrkrinu, að ekki var hægt að sjá hvað fór fram inni á flugbrautinni.
Ætluðu að vísa 28 manns úr landi – fundu ekki 13
Embætti ríkislögreglustjóra sendi frá sér fréttatilkynningu um þennan hópbrottflutning umsækjenda um alþjóðlega vernd á tólfta tímanum í dag. Í þeirri tilkynningu kemur fram að alls hafi staðið til að fylgja 28 manns til Grikklands í nótt, en að þrettán þeirra hafi ekki fundist er þeirra var leitað.
Brottflutningur að minnsta kosti hluta þess hóps sem fór úr landi í nótt hefur verið gagnrýndur, þar sem í hópnum voru einstaklingar sem eru nú að bíða eftir niðurstöðu kærunefndar útlendingamála eða dómstóla varðandi endurupptöku mála sinna.
„Í stað þess að stjórnvöld bíði eftir niðurstöðu kærunefndar [útlendingamála] sem er væntanleg á allra næstu dögum að þá er drifið í því, og eytt fjármunum og mannafla í það, að elta uppi og færa úr landi aðila sem mögulega eiga eftir að fá mál sín endurupptekin,“ sagði Magnús Norðdahl lögmaður í samtali við Kjarnann í gær.
Í tilkynningu frá ríkislögreglustjóra segir að þegar umsækjendur um alþjóðlega vernd hafi fengið endanlega niðurstöðu sinna mála hjá Útlendingastofnum sé þeim tjáð að þeim verði gert að yfirgefa landið.
Útlendingastofnun heldur úti „verkbeiðnalista“ um brottflutning úr landi fyrir stoðdeild ríkislögreglustjóra, og segir embætti ríkislögreglustjóra að einstaklingar séu ekki fjarlægðir af þeim lista nema fyrir beiðni Útlendingastofnunar.
Hafi fengið hjólastól með sér úr landi
Embætti ríkislögreglustjóra segir í tilkynningu sinni að unnið hafi verið að þeirri aðgerð sem framkvæmd var í nótt í tæpan mánuð, og að allir sem fóru úr landi hafi átt kost á því að yfirgefa landið á eigin vegum.
Þá er tekið fram í tilkynningu embættisins að Hussein Hussein, fatlaður maður frá Írak, sem þarf að nota hjólastól, hafi fengið hjólastól með sér á áfangastað í Grikklandi. Einnig er tekið fram að engin börn hafi verið í fluginu sem fór í morgun og að ekki sé verið að undirbúa flutning neinna barna til Grikklands.