Lögreglan á Akranesi býst við því að fá í dag afhentan dróna, sem starfsmenn Hvals hf. tóku af kvikmyndateymi á vegum svissneska ríkisútvarpsins í vikunni.
„Það var klárlega tekinn dróni þarna sem við höfum fram á að verði komið hér til okkar á Akranes,“ segir Ásmundur Kristinn Ásmundsson hjá lögreglunni á Akranesi í samtali við Kjarnann.
Í Morgunblaðinu í dag var fjallað um þetta mál, frá sjónarhorni Kristjáns Loftssonar eiganda Hvals hf., sem hefur lagt fram kæru á hendur svissneska teyminu fyrir að hafa flogið drónanum of nálægt athafnasvæði fyrirtækisins í Hvalfirði, eða í um 20 metra hæð yfir svæðinu samkvæmt því sem haft er eftir Kristjáni í Morgunblaðinu. Vísar hann til myndbanda sem hann hafi séð af flugi drónans, máli sínu til stuðnings.
Ásmundur hjá lögreglunni staðfesti við Kjarnann í morgun að flug drónans hafi verið kært til lögreglu, en sagðist ekki viss um að formleg kæra vegna þjófnaðar á dróna hafi borist frá svissneska teyminu, þó að þaðan hafi borist tilkynning til lögreglu um að dróninn hafi verið hirtur, sem lögregla hefur gengið á eftir. Málið er til skoðunar hjá embættinu.
Sannarlega á vegum svissneska ríkisfjölmiðlafyrirtækisins
Kjarninn ræddi við einn úr svissneska teyminu í gær af öðru tilefni og fékk þar hina hlið drónamálsins, í óspurðum fréttum. Samkvæmt lýsingum svissneska dagskrárgerðarmannsins gekk hópur starfsmanna Hvals hf. nokkuð hart fram gegn kvikmyndatökuteyminu, svo að nánast lá við handalögmálum, en starfsmennirnir voru ósáttir við myndatökuaðferðir teymisins, komu út úr hvalstöðinni og hirtu drónann.
Mögulegt er að þessi röð atvika verði sýnd í svissnesku sjónvarpi einhverntímann á næstunni, en svissneska teymið er statt hér á landi til þess að vinna umfjöllun um hvalveiðar Íslendinga, samkvæmt upplýsingum sem Kjarninn fékk frá þeim í gær.
Í Morgunblaðinu í dag segir að svissneska teymið sé ekki á vegum svissneska ríkisútvarpsins, heldur frá einkarekinni vefsíðu þar í landi. Þetta er hins vegar rangt.
Svissneska teymið segist vera á vegum SRG SSR, sem er sannarlega svissneska ríkisfjölmiðlafyrirtækið. Þýskt heiti þess er Schweizerische Radio- und Fernsehgesellschaft og hið franska er Société suisse de radiodiffusion et télévision.
Líklega að brjóta reglur um drónaflug
Ásmundur hjá lögreglunni á Akranesi segir aðspurður að ef lýsingar starfsmanna Hvals hf. á drónaflugi Svisslendinganna séu réttar hafi teymið, sem Kristján Loftsson segir í Morgunblaðinu í dag að hafi minnt á „eitthvert Hollywood-gengi“, klárlega verið að brjóta reglur.
Reglurnar um drónaflug yfir athafnasvæðum eru þær að það sé almennt bannað að fara nær byggingum í og athafnasvæðum í strjálbýli en 150 metra, nema með leyfi umráðanda, sem Svisslendingarnir hafa án efa ekki fengið hjá Kristjáni Loftssyni forsvarsmanni Hvals hf.
Vilja skila Svisslendingunum drónanum
Samkvæmt upplýsingum Kjarnans verður svissneska teymið á landinu fram á sunnudag og var á dagskrárgerðarmanni þess að skilja að þeir hefðu væntingar um að geta tekið drónann með sér heim.
Ásmundur hjá lögreglunni segir að málið sé til rannsóknar, og meðal annars þurfi að skoða hvernig dróninn lá er hann var tekinn, hvort hann var tekinn út úr bíl eða hvort hann lá á víðavangi. Á honum er að helst heyra að lögreglan stefni að því að koma drónanum til réttmæts eiganda, svissneska ríkisútvarpsins, þegar starfsmenn Hvals skila honum af sér.
„Þetta eru dýr tæki,“ segir Ásmundur, sem hefur sem áður segir væntingar um að drónanum verði skilað í dag.
Kristján Loftsson sagði hins vegar við Morgunblaðið að dróninn yrði ekki afhentur fyrr en fyrirtækið gæti treyst því að lögregla rannsakaði málið ofan í kjölinn.
Ef Hvalur hf. skilar ekki drónanum þyrfti lögregla að fá dómsúrskurð til þess að fá að fara inn á athafnasvæði fyrirtækisins og sækja drónann.