Íslenska lögreglan hefur ekki haft viðskipti við hið ítalska Hacking Team sem framleiðir njósnabúnað fyrir snjallsíma. Þetta segir í tilkynningu lögreglunnar eftir að greint var frá því lögreglan hafi átt tölvusamskipti við fyrirtækið um slíkan búnað.
Reykjavik Grapevine sagði frá því í gær að í gögnum frá Wikileaks kæmi fram að tveir íslenskir lögreglumenn hefðu átt í tölvupóstsamskiptum árið 2011 við Hacking Team og meðal annars óskað eftir því að komast á póstlista fyrirtækisins. Í töluvpóstunum má finna samskipti milli rannsóknarlögreglumannsins Ragnars Ragnarssonar hjá tölvurannsókna- og rafeindadeild lögreglu höfuðborgarsvæðisins og starfsmanns Hacking Team, þar sem íslenska lögreglan spyrst fyrir um njósnaforrit fyrir snjallsíma.
Hörður Helgi Helgason, lögmaður og fyrrverandi forstjóri Persónuverndar, sagði svo í samtali við RÚV í dag að engin sérstök lagaheimild væri til sem leyfði lögreglu að koma njósnabúnaði fyrir í farsímum almennings.
Til eru ákvæði í lögum um fjarskipti sem fjalla um persónuupplýsingar og friðhelgi einkalífs auk ákvæða um meðferð sakamála þar sem símhlustun er tiltekin, sagði Hörður Helgi. Lögreglu er því heimilt að hlera símtöl og fá upplýsingar um símnotkunn í ákveðnum tilfellum. Ætli lögregla að nota búnað sem samsvarar njósnabúnaði Hacking Team verður það undir dómara komið að úrskurða um hvort búnaðurinn falli undir þessi lagaákvæði.
RÚV greinir einnig frá því að búnaðurinn geti auðveldað mannréttindabrot. Búnaðurinn geti fyglst með öllum aðgerðum í snjallsímum; símtölum, samtölum, staðsetningu, umhverfishljóðum, gögnum á símanum og notkun samfélagsmiðla.
„Mjög margir líta niður á þessi fyrirtæki, bæði Hacking Team og Finfisher, vegna þess að þau beinlínis vinna við að auðvelda mannréttindabrot,“ segir Smári McCarthy, tæknistjóri hjá Organized Crime and Corruption Reporting Project, í samtali við RÚV.