Ákærusvið lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu er búið að afgreiða hið svokallaða Ásmundarsalar-mál og niðurstaða í því liggur fyrir. Lögreglan neitar hins vegar að upplýsa um hver niðurstaðan er og ber fyrir sig að hún geti ekki upplýst um afgreiðslu einstakra mála.
Frá þessu er greint á vef RÚV.
Fyrir liggur að málið hefur annað hvort verið afgreitt með sekt eða það hefur verið fellt niður. Eigendur Ásmundarsalar vildu ekki tjá sig við RÚV um niðurstöðuna en annars þeirra sagði að hugsanlega yrði send út yfirlýsing síðar. Á Vísi er hins vegar greint frá því að hlutaðeigandi aðilum hafi verið boðið að gangast undir svokallaða lögreglustjórasátt, sem felur í sér sektargreiðslu og þá niðurstöðu að brot hafi verið framið. Á Vísi segir að það sé ekki ljóst hverjum verði gert að greiða sektina á þessari stundu, hvort það verði einungis rekstraraðilar Ásmundarsalar eða hvort gestum verði líka gert að greiða sektir.
Málið á rætur sínar að rekja til þess að lögreglan greindi frá því í upplýsingapósti úr dagbók lögreglu að morgni aðfangadags 2020 að lögregla hefði verið kölluð til klukkan 22:25 á Þorláksmessu vegna samkvæmis í sal í útleigu í miðbæ Reykjavík. Í póstinum stóð að veitingarekstur í salnum væri í flokki sem ætti að vera lokaður á þessum tíma vegna sóttvarnarreglna. „Í ljós kom að á milli 40-50 gestir voru samankomin í salnum, þar á meðal einn háttvirtur ráðherra í ríkisstjórn Íslands. Töluverð ölvun var í samkvæminu og voru flestir gestanna með áfengi við hönd. Lögreglumenn veittu athygli að enginn gestanna var með andlitsgrímur fyrir andliti. Lögreglumenn sögðu að nánast hvergi voru fjarlægðartakmörk virt. Lögreglumenn sáu aðeins 3 sprittbrúsa í salnum. Lögreglumenn ræddu við ábyrgðarmenn skemmtunarinnar og þeim kynnt að skýrsla yrði rituð. Þá var gestum vísað út. Þegar að gestir gengu út voru flestir búnir að setja upp andlitsgrímu. Gestirnir kvöddust margir með faðmlögum og einhverjir með kossum. Einn gestanna var ósáttur með afskipti lögreglu og líkti okkur við nasista.“
Ráðherrann var formaður Sjálfstæðisflokksins
Um tíuleytið á aðfangadagsmorgun fóru að birtast fréttir, á Vísi og vef Fréttablaðsins, um að ráðherrann í samkvæminu hefði verið Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins og fjármála- og efnahagsráðherra.
Skömmu síðar birti Bjarni stöðuuppfærslu á Facebook þar sem hann gekkst við því að hafa verið á meðal gesta í samkvæminu. Þar sagði: „Á heimleið úr miðborginni í gærkvöldi fengum við Þóra símtal frá vinahjónum, sem voru stödd á listasafninu í Ásmundarsal og vildu gjarnan að við litum inn til þeirra og köstuðum á þau jólakveðju. Þegar við komum inn og upp í salinn í gærkvöldi hefði mér átt að verða ljóst að þar voru fleiri en reglur gera ráð fyrir.
Ég hafði verið í húsinu í um fimmtán mínútur og á þeim tíma fjölgaði gestunum. Rétt viðbrögð hefðu verið að yfirgefa listasafnið strax þegar ég áttaði mig á að fjöldinn rúmaðist ekki innan takmarkana. Það gerði ég ekki og ég biðst innilega afsökunar á þeim mistökum.“
Lögreglan hóf formlega rannsókn
Lögreglan hóf formlega rannsókn á mögulegu sóttvarnarbroti í Ásmundarsal á Þorláksmessu og gerði grein fyrir því í tilkynningu 30. desember. Þar kom fram að rannsóknin myndi meðal annars fela í sér að yfirfara upptökur úr búkmyndavélum lögreglumanna með tilliti til brota á sóttvörnum.
Þeirri rannsókn lauk í janúar og var málið í kjölfar sent ákærusviði lögreglunnar 22. janúar sem átti að taka ákvörðun um hvort sektir yrðu gefnar út eða ekki.
Nú, fimm mánuðum síðar, liggur niðurstaða fyrir en lögreglan neitar að upplýsa um hver hún er.
Dómsmálaráðherra hringdi í lögreglustjórann
Þann 23. febrúar opinberaði RÚV að Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra hefði hringt tvívegis í Höllu Bergþóru Björnsdóttur, lögreglustjóra höfuðborgarsvæðisins, á aðfangadag 2020 í kjölfar þess að lögreglan hafði greint fjölmiðlum frá því að „háttvirkur ráðherra“ hefði verið staddur í samkvæmi í Ásmundarsal kvöldið áður.
Kjarninn greindi frá því á mars að í svari dómsmálaráðherra við fyrirspurn miðilsins hafi ekki komið skýrt fram hvort allir helstu fjölmiðlar landsins, sem hún segir að hafi sett sig í samband við hana á aðfangadag, hafi spurt sérstaklega út í verklagsreglur lögreglu í tengslum við dagbókarfærslu lögreglunnar á aðfangadag. Í skriflegu svari sagði Áslaug Arna: „„Þegar ljóst var hvers eðlis málið var og hvernig það var að þróast þennan sama dag, taldi ég ekki við hæfi að tjá mig um það – hvorki um dagbókarfærsluna sjálfa né aðra anga málsins.“
Vegna þessa var Áslaug Arna boðuð fyrir stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd. Hún kom fyrir nefndina snemma í mars. Hún sagði í áðurnefndu skriflegu svari við fyrirspurn Kjarnans um málið að hún hefði ekki átt samskipti við Bjarna áður en hún átti samskipti við lögreglustjóra, en að hún hafi átt samskipti við Bjarna síðar á aðfangadag.
Í viðtali við RÚV eftir fund stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar var hins vegar haft eftir dómsmálaráðherra að hún hafi vitað að það var Bjarni sem hafði verið í Ásmundarsal á Þorláksmessu áður en hún hringdi.