Losun gróðurhúsalofttegunda dróst saman um tvö prósent á milli áranna 2018 og 2019 og er það mesti samdráttur losunar sem mælst hefur frá árinu 2012. Á árinu 2019 nam heildarlosun á Íslandi 4.722 kílótonnum af CO2-ígildum. Inni í þessari tölu er losun Íslands innan evrópska viðskiptakerfisins með losunarheimildir (ETS) en hvorki losun vegna landnotkunar og skógræktar (LULUCF), né vegna alþjóðaflugs- og siglinga.
Losunin hefur dregist saman um átta prósent frá árinu 2005 en aukist um 28 prósent frá árinu 1990. Aukning losunar á síðustu þrjátíu árum er að mestu tilkomin vegna aukinnar málmbræðslu og frekari stóriðju á fyrsta áratug þessarar aldar. Þetta kemur fram á vef Umhverfisstofnunar en árlegri skýrslu stofnunarinnar um losun gróðurhúsalofttegunda var skilað fyrr í þessum mánuði.
Losun sem telst á beinni ábyrgð Íslands dróst einnig saman um 2 prósent milli áranna 2018 og 2019 og nam hún 2.883 kílótonnum CO2-ígilda árið 2019. Losun sem telst á beinni ábyrgð Íslands er heildarlosun án LULUCF), án losunar innan ETS kerfisins og án losunar vegna alþjóðaflugs- og siglinga.
Losun frá vegasamgöngum dróst saman í fyrsta sinn síðan 2014
Á árinu 2019 var þriðjungur þeirrar losunar sem fellur undir beina ábyrgð Íslands komin frá vegasamgöngum. Olíunotkun á fiskiskipum kom þar næst á eftir með 18 prósent hlutdeild í losuninni og tíu prósent losunar kemur frá iðragerjun. Losun frá kælimiðlum, svokölluð F-gös, var 7 prósent losunar og losun frá urðunarstöðum var sex prósent losunar.
Samdrátt í losun mátti helst rekja til vegasamgangna, fiskiskipa, landbúnaðar og urðunar úrgangs segir í frétt umhverfisstofnunar. Alls minnkaði losun frá vegasamgöngum um 19 kílótonn CO2 ígilda milli ára og er það í fyrsta sinn síðan árið 2014 sem samdráttur verður í þeim flokki.
Losun frá kælimiðlum jókst aftur á móti um 44 kílótonn, eða um 27 prósent. Þá jókst losun frá jarðvarmavirkjunum um sjö kílótonn, um fimm prósent.
Skógrækt sækir í sig veðrið
Líkt og áður segir er losun gróðurhúsalofttegunda vegna landnotkunar ekki talin með innan beinna skuldbindinga ríkja. Losun vegna landnotkunar hefur aukist um 3,1 prósent frá árinu 1990 en á sama tíma hefur binding koldíoxíðs farið vaxandi. Binding í skóglendi jókst um 10,7 prósent milli áranna 2018 og 2019 og hefur nú náð sögulegu hámarki á tímabilinu 1990 til 2019 en árleg binding var 446 kílótonn.
Árleg losun frá LULUCF er umtalsverð, rétt um 9000 kílótonn. Þegar landnotkun og skógrækt eru meðaltal var heildarlosun Íslands (án alþjóðaflugs og -siglinga) 13.794 kílótonn CO2-ígilda. Mestu munar þar um losun frá graslendi og svo frá votlendi. Losun frá flokkunum LULUCF hefur dregist lítillega saman frá 1990.