Félag fréttamanna, stéttarfélag fréttamanna á RÚV, lýsir yfir áhyggjum og undrun yfir því að lögreglan á Norðurlandi skuli kalla blaða- og fréttamenn til yfirheyrslu og veita þeim stöðu sakborninga vegna starfa þeirra við blaðamennsku.
Þórður Snær Júlíusson, ritstjóri Kjarnans, og Arnar Þór Ingólfsson, blaðamaður miðilsins, hafa fengið stöðu sakbornings við rannsókn lögreglunnar á Norðurlandi, sem er staðsett á Akureyri, á meintu broti á friðhelgi einkalífsins. Þeim var greint frá þessu símleiðis í gær og þeir boðaðir í yfirheyrslu hjá rannsóknarlögreglumanni embættisins sem mun gera sér ferð til Reykjavíkur til að framkvæma hana.
Aðalsteinn Kjartansson, blaðamaður á Stundinni, og Þóra Arnórsdóttir, ritstjóri Kveiks á Ríkisútvarpinu, hafa einnig verið boðuð í yfirheyrslu. Sakarefnið sem blaðamönnunum er gefið að sök er að hafa skrifað fréttir um „skæruliðadeild Samherja“ upp úr samskiptagögnum.
Félag fréttamanna vísar í yfirlýsingu sinni í dóma Hæstaréttar og Mannréttindadómstóls Evrópu sem hafa á undanförnum árum staðfest rétt íslenskra blaðamanna og nauðsyn þess að þeir vinni fréttir úr gögnum sem þeim berast, eigi þau erindi við almannahagsmuni. „Þá ber blaðamönnum ótvíræð lagaleg skylda til að vernda heimildarmenn sína, hvort sem þeir hafa veitt upplýsingar með lögmætum eða ólögmætum hætti,“ segir í yfirlýsingunni.
Frelsi fjölmiðla til að miðla staðreyndum og réttum upplýsingum forsenda lýðræðis og friðar
Þá bendir félagið á að blaða- og fréttamenn víða um heim búa við síauknar ógnanir og ofsóknir, bæði af völdum stjórnvalda, skipulagðra glæpasamtaka og stórfyrirtækja. Tveir blaðamenn hlutu á síðasta ári friðarverðlaun Nóbels, fyrir baráttu sína fyrir fjölmiðlafrelsi í löndum sínum. „Í rökstuðningi dómnefndarinnar kom fram, að frelsi fjölmiðla til að miðla staðreyndum og réttum upplýsingum væri forsenda lýðræðis og friðar í ríkjum heims,“ segir í yfirlýsingunni.
Félagið bendir einnig á ða Ísland hefur á undanförnum árum fallið niður lista samtakanna Reporters Without Borders vegna bágrar stöðu fjölmiðla hér, nú síðast niður í 16. sæti, meðal annars vegna þess að Samherji „skipulagði herferð árið 2020 til að varpa rýrð á blaðamenn sem fjallað höfðu um fréttamálið (um athæfi fyrirtækisins í Namibíu)“.
„Nú hefur lögreglan á Norðurlandi boðað blaða- og fréttamenn til yfirheyrslu fyrir að fjalla um þessa sömu herferð. Félag fréttamanna lýsir yfir stuðningi við þessa blaða- og fréttamenn, og lýsir áhyggjum og undrun yfir því að þeir skuli hafa réttarstöðu grunaðra fyrir það eitt að sinna störfum sínum,“ segir í yfirlýsingunni.